Húnavaka - 01.05.1987, Side 96
94
HUNAVAKA
verið að tala um Jón í Möðrudal, því að hann var þá orðinn þjóð-
sagnapersóna. Helga Jónsdóttir, kona skólastjórans, gaf sig í þetta
spjall, höfðu þau hjónin dvalið í Möðrudal einhvern tíma sér til
tilbreytni og hressingar. Hún lýsti þeim hjónum vel og þessi kona sem
ég nú stóð frammi fyrir væri einhver sú mesta gæða og mannkosta
manneskja, sem hún hefði kynnst. Ég held að fáir af nemendum hafi
látið sér detta í hug að efast um það sem Helga sagði, því að hún var
bæði orðvör og lífsreynd.
Jón kom bráðlega og virtist ekkert hafa að gera nema halda mér
selskap. Impraði hann á því sama að ég skyldi bara hvíla mig í dag, en
ég sat við minn keip og vildi halda áfram. Samkomulag varð um að ég
færi ekki fyrr en búið væri að borða. Spjölluðum við svo saman, mest
talaði hann um hross og hestamennsku, sagði að ég mundi sjálfsagt
koma austur með hesta til sölu eins og margir Húnvetningar og
Skagfirðingar. Hann sagði margar sögur af hrossabröskurum, sem á
ferðinni höfðu verið og taldi suma lítið vit hafa haft á hrossum. Lítið
fannst honum koma til þeirra, sem höfðu fræðimannstitil eða voru
fagmenn. Ég spurði um veginn út að Grímsstöðum. Hann lét vel af
honum, nema það væri á hérna útfrá sem sennilega væri eitthvert vatn
í núna.
Þegar búið var að borða bjóst ég til ferðar og að kveðja. Þá segir Jón.
„Þú kveður mig ekki strax, því að ég kem með þér út fyrir Skarðsá.
Hún hefur ekki komið svo vel fram við okkur að það sé ástæða til að
treysta henni“. Seinna frétti ég að í þessari Skarðsá hafði maður farist
ekki mjög löngu áður.
Þegar ég kom út er Jón að leggja á hesta og biður mig að halda í þá
á meðan. Ég tek eftir að á öðrum hestinum er hnakkur sýnilega vel til
hafður og í notkun, en á hinum er hnakkurinn slæmur sérstaklega
setan. Mér kom þetta ekki á óvart, hafði orðið var við að flest af
heimilisfólkinu var farið að athuga um skepnur og því eðlilegt að ekki
væru margir hnakkar eftir. En viss þóttist ég um að betri hnakkurinn
væri hnakkur Jóns. Þegar við ætlum að fara á bak rétti ég honum
tauminn á þeim hesti, sem hans hnakkur var á. „Nei, þú verður á
þessum“, segir Jón. Þegar út að Skarðsá kom reyndist hún vera í kvið á
hestunum og nokkuð straumþung. Á árbakkanum fórum við af baki
og spurði ég hvað ég ætti að borga fyrir allan greiðann. „Ekki neitt,
svona lúsaaura hef ég ekki gaman af að tína saman, en ef þú kemur