Húnavaka - 01.05.1987, Page 102
SVAVA G. SIGURÐARDÓTTIR, Skagaströnd:
Hefndin er sæt
Ég horfði illilega á lásinn á ferðatöskunni. Eftir að hafa eytt heilum
degi í að velja og hafna (aðallega hafna), kom í ljós að ég var samt með
of mikið. Eg dró djúpt að mér andann og bjó mig undir rifrildi við
húsbóndann á heimilinu. — Marteinn, það er eitthvað að töskunni,
kallaði ég út á ganginn.
— Ha? Marteinn kom og leit til skiptis á mig og töskuna. Síðan
kom Salómonsdómurinn. — Það er of mikið í henni.
— Og hver hefur of mikið með sér? spurði ég klókindalega.
— Nú, þú auðvitað. Ég skil ekki hvað þú ætlar að gera með nýja
bikinið þitt, eða öll handklæðin.
Öll. Þrjú stykki. Það eru nú öll ósköpin. Ó, hvað ég öfunda Kalla.
Hann kom ekki núna. Hann var svo heppinn að skólaferðalagið var á
þessum tíma. Marteinn ætlaði að láta strákinn sleppa því, en varð að
gefast upp fyrir þeim rökum, að drengurinn væri ekki aðeins búinn að
borga skólafélagsgjaldið, heldur líka búinn að sækja samviskusamlega
hvert einasta diskótek, sem haldið var til styrktar skólafélaginu. Ég
reyndi að nota sama bragð, en Marteinn trúði mér ekki.
— Marteinn. Þetta er sumarfríið okkar. . .
— Eins og það sé einhver afsökun fyrir að draga með sér hálfan
klæðaskápinn.
— Eg tók nú bara með mér tvennar buxur, þrjár blússur og bikinið.
— Já, og þrjú handklæði, sápu og sjampó. Ekki tók ég með mér
nema einar buxur. Það er nú ekki eins og við séum að fara burt í
einhvern óskapa tíma.
— Jæja. Hvað með litlu grænu ferðatöskuna. Ég veit ekki betur en
þú hafir fyllt hana.
— Já, en hún er undir veiðarfæri. Þú veist, flugur, vöðlur og
myndavél ef ég myndi ná þeim stóra.
— En ég hélt að þú hefðir fengið snyrtiboxið mitt lánað. Þú hefur
þó ekki verið að troða önglum ofan í það?