Húnavaka - 01.05.1987, Page 109
HUNAVAKA
107
sem það hefur ekki minnstu ástæðu til. Börn sem aldrei hafa sýnt sig í
neinu misjöfnu. Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda hvernig mér hefði
liðið þá ef ég hefði skilið hvað konan var að drótta að mér. Þau eru
alltaf sígild hin gullvægu orð Einars Benediktssonar er hann sagði
„Aðgát skal höfð í nærveru sálar“.
Hvað var á seyði
Árið 1924 áttu foreldrar mínir heima á Eyrinni (Árbakkabúð) sem
var lítið grasbýli sunnan við Hrafnána. Hrafnáin rennur stutt sunnan
við Höfðakaupsstað. Nú er þetta litla býli horfið og sér ekki neitt eftir
af því.
Ég ætla að segja frá atviki er kom fyrir veturinn 1924 eftir áramót.
Húsakynni voru þannig, að niðri var lítil stofa í suðurenda og eldhús
framan við, þar lá stigi upp á loft. Uppi var geymsla í norðurenda og
litið herbergi í suðurenda með suðurglugga. Þar sváfum við amma
mín. Eitt kvöld eftir áramót, eins og fyrr var sagt, var amma komin
upp og háttuð. Foreldrar mínir voru að hátta. Þau sváfu í stofunni
niðri. Eg var þar hjá þeim, bróðir minn og ungbarn voru sofnuð. Allt í
einu fór eitthvað að slást til utan á þilinu, líkast þvi að beisli með
stöngum slægist til og frá undan hvassviðri. Okkur datt í hug að
einhverra hluta vegna héngi beisli á þilinu en áttum þó ekki von á því.
Annað gat þetta tæplega verið, þó fannst okkur þetta óneitanlega
einkennilegt þar sem heita mátti alveg logn. Svo var ekki meira um
þetta rætt. Ég fór upp til ömmu og fór að sofa. Daginn eftir, þegar að
var gætt úti, þá hékk ekkert utan á húsinu sem hefði getað slegist til.
Kvöldið eftir á sama tíma er farið var að hátta klukkan tíu, byrjaði
alveg það sama. Það er ekki að orðlengja það, allan þennan vetur
framundir vor, á sama tíma að kvöldi byrjaði eitthvað að slást utan í
þilið, hvort sem var alveg blæjalogn eða gola. Það var margbúið að
athuga hvort um eitthvað væri að ræða sem gæti heyrst svona í en það
sást aldrei neitt. Þetta var og er eitt af því sem ómögulegt er að skýra.
Áraglamm
Amma mín, Jónína Margrét Jónsdóttir, sagði mér að oft heyrði hún
á tunglskinsbjörtum nóttum áraglamm suður í víkinni sunnan við túnið