Húnavaka - 01.05.1987, Síða 117
H U N A V A K A
115
Magnús var baráttumaður í trúmálum, en hversdagslega ljúfur í lund,
glaðsinna og hjálpfús. Hét séra Stefán Magnús öðru nafni í höfuð
þessa föðurbróður síns, En Stefáns-nafnið er mjög algengt á báða vegu
í ætt hans.
Önnur alsystkini Jóns Eiríkssonar voru þessi:
Stefán bóndi á Skinnalóni (1807-1872). Dóttir hans, Þorbjörg, átti
Jón Sigurðsson á Skinnalóni, en þeirra dóttir, Hildur, giftist Jóni
Árnasyni á Ásmundarstöðum á Sléttu.
Hildur (f. 18. sept. 1809), kona Halldórs stúdents Sigurðssonar á
Úlfsstöðum í Loðmundarfirði. Að honum látnum giftist hún Jóhann-
esi bónda á Laxamýri. Var Hildur síðari kona hans, en sambúð þeirra
varð eigi löng.
Sigríður (f. 13. sept. 1811), kona Gísla prests Jónssonar í Kaldaðar-
nesi. Hann drukknaði í Ölfusá, er hann freistaði að bjarga öðrum.
Dóttir þeirra Hildar og Halldórs á Úlfsstöðum var Þorbjörg, er varð
fyrri kona séra Stefáns á Auðkúlu. Voru þau því systkinabörn. Halldór
á Úlfsstöðum var sonur Sigurðar prests Árnasonar á Hálsi og Bjargar
Halldórsdóttur, systur Reynistaðabræðra, er úti urðu á Kili haustið
1780.
Ársgamall missti Jón Eiríksson föður sinn. Hann drukknaði 17.
febrúar 1813. Móðir hans giftist síðar Birni Sigurðssyni bónda á Ket-
ilsstöðum í Jökulsárhlíð. Var hann búhöldur og drengur góður, enda
gekk hann stjúpbörnum sínum í föður stað.1)
Hólmfríður, kona Jóns Eiríkssonar, var fædd að Bæ í Hrútafirði 9.
des. 1818. Foreldrar hennar voru Bjarni stúdent Friðriksson, bóndi í
Bæ, og kona hans, Anna Jónsdóttir sýslumanns Jónssonar í Bæ. Bjarni
Friðriksson (f. 31. maí 1791) var sonur séra Friðriks Thorarensens
(Þórarinssonar) að Breiðabólstað í Vesturhópi og Hólmfríðar Jóns-
dóttur varalögmanns Ólafssonar í Víðidalstungu, en kona Jóns
Ólafssonar var Þorbjörg Bjarnadóttir sýslumanns Halldórssonar á
Þingeyrum og Hólmfríðar Pálsdóttur lögmanns Vídalíns. — Bjarni
Friðriksson lauk prófi í Bessastaðaskóla 1815, kvæntist árið eftir og hóf
búskap í Bæ, en Jón sýslumaður, tengdafaðir hans, fluttist þá að
Víðidalstungu. Þau Bjarni og Anna eignuðust fimm börn en hún
andaðist eftir ellefu ára hjónaband. Kom Bjarni þá börnum sínum í
fóstur. Elsti sonurinn, Jón, síðar prestur að Tjörn í Svarfaðardal, ólst
*) Föðurætt séra Stefáns er nokkru nánar rakin í bók dr. Eiríks Albertssonar: Magnús Eiríksson,
guðfræði hans og trúarlíf. Rv. 1938.