Húnavaka - 01.05.1987, Page 118
116
HUNAVAKA
upp hjá Steingrimi biskupi, en Hólmfríður ólst upp hjá séra Gunn-
laugi Oddsen dómkirkjupresti, að Lambastöðum á Seltjarnarnesi, og
konu hans, Þórunni Björnsdóttur prests í Bólstaðarhlíð. Var heimili
þeirra annálað fyrir menningarbrag og mvndarskap í hvívetna.
Um tvítugsaldur kemur Jón Eiríksson austan úr Jökulsárhlíð til
Reykjavíkur. Arið 1833 er hann i heimaskóla og til heimilis að
Lambastöðum hjá Gunnlaugi Oddsen dómkirkjupresti. En séra
Gunnlaugur andaðist árið eftir, og hætti Jón þá námi, en gerðist
skrifari hjá landfógeta, sem þá var Stefán Gunnlaugsson, og gegndi
því starfi til æviloka. Um þessar mundir var Magnús Eiríksson, bróðir
Jóns, skrifari hjá Krieger stiftamtmanni. Má geta þess til, að Magnús
hafi útvegað bróður sínum skrifarastarfið, e.t.v. fyrir atbeina Kriegers,
sem var mjög vinveittur Magnúsi og studdi hann síðar til náms í
Kaupmannahöfn.
Á Lambastöðum hefir fyrst borið saman fundum þeirra Jóns og
Hólmfríðar Bjarnadóttur, uppeldisdóttur prestshjónanna. H. 5. maí
1839 eru þau gefin saman í dómkirkjunni. Svaramenn voru þeir Jón
landlæknir Þorsteinsson og faktor Fischer. Þeim hjónum varð fjögurra
barna auðið. Elst var Anna Kristin, f. 27. nóv. 1840; þá Þórunn, f. 6.
júní 1842; Friðrika Sigríður, f. 14. ágúst 1847, og yngstur Stefán
Magnús, f. 18. jan. 1852. Jón Eiríksson andaðist árið 1861, aðeins 49
ára gamall. Efnahagur heimilisins var þröngur, en maddama Hólm-
fríður þótti bæði tápmikil og ráðsvinn. Anna Kristín fór í vist og vann
fyrir sér. Síðar giftist hún Birni bókbindara Friðrikssyni, en hann lést
eftir stutta sambúð. Síðar miklu fór hún norður að Auðkúlu til Stef-
áns, bróður síns, og þar andaðist hún. Næstelsta systirin, Þórunn, fór í
fóstur austur að Ketilsstöðum á Völlum til Þorsteins sýslumanns
Jónssonar og Ingibjargar Gunnlaugsdóttur Oddsen. Þórunn giftist
síðar frænda sínum, Eiríki Halldórssyni frá Úlfsstöðum. Hann var um
þær mundir sýsluskrifari hjá Þorsteini sýslumanni. Þau bjuggu síðar í
Blöndudalshólum í Húnavatnssýslu.
Yngstu börnin, Sigríður og Stefán, voru kyrr hjá móður sinni. Sig-
ríður andaðist á tvítugsaldri og varð ættingjum sínum mjög harm-
dauði. Stefán reyndi snemma að létta undir með móður sinni. Hann
var þingsveinn þau sumur, er alþingi kom saman, og öðrum þræði
fékk hann vinnu við verslunarstörf. Hugur hans stóð mjög til skóla-
náms, en efnaskortur hamlaði. Þá var það, að séra Þorkell Bjarnason á
Reynivöllum bauðst til að kenna honum undir skóla án endurgjalds.