Húnavaka - 01.05.1987, Side 120
118
HUNAVAKA
Séra Stefáni var þetta atvik jafnan minnisstætt. Síðar tognaði svo úr
honum, að hann var höfði hærri en flestir bændur í prestakalli hans.
Að stúdentsprófi loknu tók Stefán upp guðfræðinám í Prestaskóla
og lauk þaðan prófi að tveim árum liðnum, vorið 1875. Sex guðfræð-
ingar luku þá prófi. Auk Stefáns voru þeir þessir: Halldór Briem,
Jóhann Þorkelsson, Brynjólfur Gunnarsson, Sveinn Eiríksson og
Tómas Hallgrímsson. Jafna stigatölu og hæsta hlutfall hlutu þeir
Stefán og Halldór.
Um þessar mundir máttu prestar eigi vera yngri en 25 ára til þess að
hljóta prestsvígslu. Stefán skorti tvö ár í þann aldur. Næsta vetur tókst
hann því á hendur kennslu í barnaskóla á Vatnsleysuströnd. Þar var
þá mikil búsæld, enda réðust ekki mörg sveitahéruð í slíkan kostnað
um þær mundir. Þá var séra Stefán Thorarensen Sigurðsson (1831-
1892) prestur á Kálfatjörn, og var Stefán Magnús á vist með honum.
Hólmfríður, móðir hans, og séra Stefán Thorarensen voru þremenn-
ingar að frændsemi. Fór hið besta á með þeim frændum, enda voru
báðir söngmenn góðir og unnu tónlist.
Vorið eftir sótti Stefán M. Jónsson um aldursleyfi til prestsvígslu og
jafnframt um Bergsstaðaprestakall í Húnavatnssýslu, að ráði Péturs
biskups. Hvort tveggja var veitt, og vígði biskup hann til kallsins 21.
maí 1876. Jafnframt tók þá vígslu nafni hans, Stefán Jónsson prests
Sveinssonar, á Mælifelli, læknis Pálssonar í Suður-Vík. Hann vígðist
til Mývatnsþinga, en fékk síðar Þóroddsstað í Kinn. Um miðjan júní
lögðu þeir nafnar upp til Norðurlands og fóru Holtavörðuheiði. Þótt
áliðið væri vors, lentu þeir í stórhríð af norðri og komust hraktir að
Stóru-Borg í Víðidal. Þar hittu þeir fyrir skólabróður sinn, Björri M.
Ólsen, er dvaldist þá um hríð með móður sinni, Ingunni Jónsdóttur frá
Melum, og stjúpföður sínum, Pétri bónda Kristóferssyni. Frá Borg
héldu þeir nafnar til Skagafjarðar, en þar munu leiðir hafa skilist.
Stefán Magnús létti ekki för sinni fyrr en á Stóra-Eyrarlandi í Eyja-
firði. Þar átti þá heima Hildur Eiríksdóttir, föðursystir hans, og Þor-
björg, dóttir hennar, en þau voru þá heitbundin, Þorbjörg og Stefán.
Stóð brúðkaup þeirra þegar eftir norðurkomu Stefáns, 22. júní, og gaf
séra Daníel prófastur Halldórsson á Hrafnagili brúðhjónin saman.
Var veður sérstaklega bjart og unaðslegt í Eyjafirði þennan dag, en
fram til þess hafði vorið verið kalt og rysjótt. Þóttu slík veðrabrigði hið
mesta hamingjumerki, enda varð sambúð þeirra hjóna hin ástrík-
asta.