Húnavaka - 01.05.1987, Page 136
JÓN GUÐMUNDSSON, Sölvabakka:
Reiðingsrista
Reiðingsrista var ekki nema á fáum stöðum. Reiðingur var ristur
með vanalegum torfljá í lengjum, jafnþykkum í báðar raðir. Þær voru
síðan skornar niður í mátulegar stærðir eftir geðþótta hvers og eins.
Sumir höfðu mel i landi sínu. Þeir komu sér upp melreiðing og var
hann miklu betri. Það er mikill melur í Þingeyrasandi og Jón Pálma-
son bóndi á Þingeyrum átti 20 reiðinga, sem hann notaði þegar
bundið var af Þingeyraengi hér fyrrum.
Reiðingstorf var mikið notað til einangrunar í steinhús á tímabili,
en því er nú alveg hætt fyrir mörgum árum. Þegar reiðingur var ristur,
var skorin þunn torfa ofan af, aðeins grasrótin, en svo voru skorin tvö
lög af reiðingstorfi. Það var síðan selt sem reiðingur eða stopp til
einangrunar.
Þegar ég byggði mitt hús hér á Sölvabakka árið 1934, steypti ég sitt
hvoru megin við torfið. Eg lagði 18 cm torfrenning og steypti sitt
hvoru megin við þessa einangrun og fékk þannig 40 cm þykka útveggi
á húsinu. Þetta hús stendur sig prýðilega, alltaf verið hlýtt, en hefur nú
verið klætt með áli að utan og er ágætt og verður það lengi.
Reiðingar voru saman settir af mörgum stykkjum. Fyrst var dýna
lögð á hestinn. Hún náði niður fyrir miðjar síður báðum megin. Hún
var úr torfi eða stoppuð úr mel, þunn og lipur. Næst komu klakka-
torfur. Þær voru líka úr torfi eða mel og saumaður utan um þær strigi
eins og dýnuna. Klakkatorfurnar voru festar saman með bandi bæði
aftarlega og framarlega. Ofan á þær kom klifberinn. Hann var smíð-
aður úr tré, helst úr hnyðjum mikið bognum og á báða enda bogans
voru settar þykkar fjalir, sem nefndust klakkafjalir. Endar bogans voru
greyptir í gegnum klakkafjalirnar og negldir með trésaum. í hvora fjöl
voru boruð þrjú göt og í þau þrædd bönd úr nautsleðri og hétu þrjú af
þeim móttök, en hin þrjú gagntök. 1 gagntökin var gjörðinni fest, en
hún kom undir kvið hestsins og í móttakið. Þannig var reiðingnum fest
á hestinn.