Húnavaka - 01.05.1987, Side 143
KRISTINN PÁLSSON, Blönduósi:
Suðurferðir vermanna
Margar harðsóttar vetrarferðir fengu farsæl endalok. Hér segir frá
einni slíkri.
Þegar vermenn á Norðurlandi gengu suður yfir heiðar, báru þeir
föggur sínar ævinlega í helsingjapoka. (Þeim er lýst í 7. árg. Húnavöku
bls. 71). Þeir voru þægilegir í notkun, hendur frjálsar og því minni
hætta á kali.
Steingrímur Jónsson frá Höfðakoti á Skagaströnd, var einn af þeim
sjómönnum, sem fóru suður margar vertíðir. Eitt sinn voru þeir 20
saman á suðurleið með helsingjapokana, en í þeim geymdu þeir föt sín
og nesti, sem venjulega var brauðmatur og kjöt.
1 sæluhúsinu á Holtavörðuheiði stönsuðu þeir, hvíldu sig og snæddu
nesti sitt. Þetta var föst venja þeirra. í þetta sinn var orðið áliðið dags
og gekk að með hríð. Er þeir höfðu lokið við að snæða var komin
blindhríð og alla leiðina niður að Fornahvammi var iðulaus stórhríð
með mikilli fannkomu.
Að Fornahvammi komu vermennirnir þreyttir og slæptir um átta-
leytið um kvöldið. Þar börðu þeir að dyrum og beiddust gistingar, var
því dauflega tekið, sagt að húsakynni væru lítil og fleiru borið við.
Ræddu þeir þetta sín á milli, en gengu síðan óboðnir inn, því þetta var
opinber gististaður og ekki hægt að úthýsa fólki. Þar var þá fyrir fjöldi
vermanna á suðurleið. Var þeim veittur nokkur beini, vosklæði tekin
af mönnum og reynt að búa um þá til hvíldar.
— Og hugsaðu þér þrengslin, flestir sváfu í sætum sínum, en þeir
sváfu þrír í sama rúminu, Páll á Bakka, Magnús í Ketu og Jónatan á
Skeggjastöðum. Við vorum 20 og það besta af öllu var, að við fengum
allir þurra sokkana okkar um morguninn, 40 sokka og enginn þeirra
brunninn, allir hreinir og þurrir. Hugsaðu þér hvað það var gott fyrir
okkur, er við héldum áfram í kuldanum daginn eftir, — sagði Stein-
grímur er hann sagði mér frá suðurferð sinni.