Húnavaka - 01.05.1987, Page 144
142
HÚNAVAKA
Daginn eftir var ferðinni haldið áfram og komið til Borgarness eftir
tvo daga. Þar tóku þeir skip til Reykjavíkur, því venjan var að taka
skip þar, en ganga ekki alla leið á Suðurnes.
(Heimild: Steingrímur Jónsson
dvelur nú á Héraðshælinu Blönduósi).
Gömul veðurfarsvísa úr Langadal.
Norðan hvass og hvín á rassi mínum,
hríðarbáran hörð og stinn,
himinn grár og kafloðinn.
(Höf. ókunnur).
* *
BETRA AÐ GÆTA AÐ LENGJUNNI
Ketill hét maður og bjó á Hurðarbaki á Ásum í Húnaþingi. Harðgjör var hann og
knáan mátti hann kalla, en manna var hann raupsamastur og gambraði af sér og
verkum sínum. Ýms hafði hann og þjófabrögð við. Er það eitt talið með öðru þá hann
var í verferð, því lengi reri hann á vetrum ýmist suður eða vestur, að hann kom að
Guðnabakka í Borgarfirði og áður hann gerði vart við sig gat hann náð krofi úr
eldhúsi, reisti það á hækla við bæjardyr hjá sér og barði síðan. En er til dyra var gengið
baðst hann gistingar og mælti: „Það er ekki þar með búið, ég keypti hérna
krofribbuskömm. Ég verð að biðja að sjóða það fyrir mig. Við erum allir matarlausir“.
Lét Ketill sjóða krofið, gaf lagsmönnum sínum, skammtaði og af því bóndadóttur og
húsfreyju, er aldrei hugðu Ketil hafa stolið því frá sér.
Það var á bæ einum, þá Ketill kvaddi, að leðurskæðalengja lá á skellihurð. Kallaði
Ketill þá til baðstofunnar og mælti: „Það er betra að gæta að lengjunni þeirri þarna,
margt fólk fer og kemur og margur kannski misjafn. Þarna er hún núna“, en greip
lengjuna um leið með sér. Datt heimamönnum ekki í hug að Ketill hefði stolið henni.
Syrpa Gísla Konráðssonar.