Húnavaka - 01.05.1987, Blaðsíða 146
144
HUNAVAKA
Magnúsdóttur, sem var ekkja, og dóttir Sigurlaugar og Magnúsar á
Fjalli á Skagaströnd. Guðrún var því af svokallaðri Fjallsætt eða
Guðlaugsætt. Ætt þessi er nokkuð dreifð um Flúnavatnssýslurnar og
sjálfsagt víðar um land. Þeim Moniku og Eiríki varð tveggja barna
auðið, þau voru: Friðgeir Ágúst, sem var fæddur 4. ágúst 1904 og lést
17. maí 1985, og móðir mín, Þuríður Sveinbjörg, fædd 24. janúar
1907. Þau systkinin ólust upp í föðurhúsum ásamt frænku sinni, Jó-
hönnu Gísladóttur, sem var systurdóttir Eiríks. Jóhanna var alla ævi
heilsulaus. Systkinin unnu saman að búskapnum og því er til féll á
heimili foreldra sinna í mörg ár. Bjuggu þau með foreldrum sínum og
unnu þau störf í sameiningu er gera þurfti á sveitaheimilinu við þau
skilyrði er þekktust þá. í þá daga var hvorki um vélar né rafmagn að
ræða til að auðvelda störfin til sveita.
Á sumrin voru túnin heima við heyjuð, svo og var nokkuð um
engjasláttu í námunda við bæinn. Þar sem tún voru ekki stór né
heygjöful þurfti á meiri heyjum að halda til búskaparins. Þá var farið
austur í Skagaheiði með tjald og nesti til tveggja eða þriggja daga í
senn. Þar var síðan legið við sem kallað var. Slegið var með orfi og ljá
og hirt með hrífu. Þó að hestasláttuvélar væru komnar til sögunnar
voru þær of þungar til að beita þeim á engjarnar, sem voru blautar og
gljúpar. Sökum þessa þurfti oft að bera stór heyföng af blautustu
hlutum engjanna og koma þeim á þurrt. Móðir mín lenti oft í slíkum
burði, enda ekki spurt um kynferði þegar störf féllu til. Verkin varð að
vinna hvað sem það kostaði. Þau systkinin unnu að þessu saman,
oftast tvö ein. Þurrkuðu þau heyið uppi á heiðinni og hlóðu því upp í
fúlgur sem síðan var girt í kringum með vír, svo að skepnur kæmust
ekki í þær. Þegar vetraði og snjóa hafði fest á jörð var farið með hesta
og sleða upp til heiða og heyin sótt.
Móðir min hafði mikið yndi af hestum og var talin lagin hestakona.
Einn hest átti hún góðan, sem keyptur var fyrir hana. Átti hún margar
ánægjustundir á baki hans. í fyrstu var hann mjög viðkvæmur og
hvumpinn en þegar fram liðu stundir fengu þau traust hvort á öðru.
Þá kom í ljós lagni hestakonunnar til að ná fram því besta úr gæð-
ingnum sínum.
Móðir mín þótti dugleg til allrar vinnu, sama hvort um karlmanns-
eða kvenmannsstörf var að ræða, utan dyra eða innan. Margir hafa
haft það að orði að hún hafi verið hamhleypa til allrar vinnu. Það segir
sig því sjálft að hún átti mörg handtökin á æskuheimili sínu, þótt þess