Húnavaka - 01.05.1987, Page 148
146
HÚNAVAKA
Póstur átti heima að Kletti á Kálfshamarsnesi og hét hann Þorsteinn
Þorsteinsson. Hann flutti póstinn á milli Kálfshamarsvíkur og
Skagastrandar einu sinni í hálfum mánuði. Svo sem póstum þessa
tíma var skylt, hafði hann stóran póstlúður með í ferðum sínum og blés
í hann uppi á vegi þegar hann nálgaðist bæinn. Þegar síminn kom að
Sviðningi var þar svokölluð þriðja flokks stöð sem þau systkinin sáu
um afgreiðslu á til skiptis. Þessi verkaskipting hélst að mestu þar til
Friðgeir frændi minn giftist eftirlifandi konu sinni, Fanneyju Hall-
dórsdóttur, árið 1936. Eftir það fór Fanney að sinna afgreiðslu símans.
Póstur á eftir Þorsteini var Sigurður Jónsson frá Þangskála á Skaga og
gegndi hann því embætti í mörg ár.
Þeim Fanneyju og Friðgeiri varð þriggja barna auðið. öll urðu þau
móður minni mjög kær.
Þau systkinin, móðir mín og Friðgeir, voru félagslyndar manneskjur
að eðlisfari. Bæði höfðu þau gaman af öllu sem vék að músik svo og
söng. Þau spiluðu á harmoniku, fyrst á einfalda og síðan á tvöfalda.
Harmonikuna áttu þau og spiluðu á hana til skiptis á dansleikjum og
skemmtunum í sveitinni. Það voru kvenfélagið á staðnum og önnur
félagasamtök sem gengust fyrir þessum skemmtunum, sem haldnar
voru í samkomuhúsinu á Kálfshamarsnesi. Þetta sama hús var á
vetrum notað til kennslu barnanna í sveitinni. Um jólin var alltaf
haldin jólatréskemmtun, svo framarlega að veður leyfði. Móðir min
var virkur félagi í öllum þessum félögum og vann að málefnum þeirra
af krafti meðan hún var í sveitinni. Nú er litla, gamla samkomuhúsið
horfið, því að það hefur verið rifið. Margir eiga þaðan góðar minn-
ingar, á því er ekki vafi. Mörg voru þau böllin sem haldin voru í
sveitinni og systkinin spiluðu á, enda voru þau beðin að koma heim á
bæi til að spila ef eitthvað stóð til. Skemmtanirnar stóðu oft fram eftir
nóttu og stundum fram á morgun. Það var algengt að beðið væri um
systkinin hinu megin af Skaganum. Þau lögðu þá á sig langar ferðir
gangandi austur yfir Skagaheiðina. Stundum voru þetta 4-5 stunda
ferðir og þaðan af lengri. Á sumrin var þetta farið á hestum og brugðu
sér þá oftast fleiri með sér til gamans. Það kom fyrir að ferðirnar voru
svo langar að fara varð beint í heyskap þegar heim var komið að
morgni dags. Ekki varð því mikið um svefn þá nóttina. Svona gekk það
til í þá daga. Það var ekki slegið slöku við.
Mér detta í hug ljóðlínurnar „þess bera menn sár um ævilöng ár,
sem aðeins var stundar hlátur“ þegar ég hugsa um þetta.