Húnavaka - 01.05.1987, Qupperneq 160
158
HUNAVAKA
Mörk á land að Móbergsselstjörn í Litla-Vatnsskarði. Þar er sil-
ungsveiði til talsverðra búdrýginda.
Frjó gróðurmoldin var gjöful á garðávexti, þegar vel áraði. Enda
þótt stundum komi snjóþungir vetur á Laxárdal, geta sumur verið heit
í skjóli hárra fjalla. Þar sem jörð fer ófrosin undir snjó að hausti, koma
grös eins og græn undan, svo fljótt taka þau við sér, og stararflóarnir í
dalbotninum þekjast kafgrasi. Það var líka heppilegt, því mikið þurfti
að heyja fyrir langan vetur. Orfið og hrífan, þeirra tíma amboð,
seinvirk á nútíma mælikvarða. En vel var unnið og lengi.
Þau Merkurhjón voru skepnuvinir og fóru vel með, enda var það
undirstaðan að góðri afkomu. Ólafur var hestamaður góður, átti
fallega og vel með farna gæðinga og góðan bústofn. Hann var létt-
lyndur og glaðsinna og vildi öllum vel. Smælingjunum rétti hann
hjálparhönd og var málsvari þeirra. — Hann varð fyrir heilsubresti
um miðjan aldur og eftir það hjartaveill. Þeim mun þyngri urðu
erfiðisverkin á herðum húsmóðurinnar, því allan þeirra aldur var hún
stoð hans og stytta.
Um og upp úr 1935, fór byggð að strjálast á Laxárdal og um 1940
var miðdalurinn kominn að mestu í eyði.
Ólafur og Jósefína fluttu frá Mörk 1938, að Brandsstöðum í
Blöndudal, en bjuggu þar stutt, sem leiguliðar. Síðan á Eyvindar-
stöðum í sömu sveit, en árið 1946 kaupa þau Holt á Ásum.
Þeim hjónum varð fjögurra barna auðið: Helga var fædd 1915,
giftist Skafta bónda í Hnjúkahlíð og bjó þar til dauðadags 1983.
Pálmi, fæddur 1916, giftur Aðalbjörgu Þorgrímsdóttur, Ingimar,
fæddur 1922, dáinn 1938, og Sigríður, gift Jóni Tryggvasyni bónda og
söngstjóra í Ártúnum.
Á þessum árum voru börnin að fljúga úr hreiðrinu og stofna eigið
heimili. Pálmi og hans kona hófu búskap í Holti, í sambýli við Ólaf og
Jósefínu fyrstu árin, en tóku síðan við jörðinni allri. En gömlu hjónin
dvöldust áfram í skjóli þeirra, þar til Ólafi hrakaði heilsa og kraftar,
svo að þau fluttust út á ellideild Héraðshælisins á Blönduósi.
Á seinustu búskaparárum Ólafs og Jósefínu urðu snögg þáttaskil í
lífi sveitafólks, með tilkomu rafvæðingar og véltækni. Gömlu torfbæ-
irnir hurfu en reisuleg íbúðarhús komu í staðinn, með alls konar
hjálpartækjum, sem léttu undir með húsmóðurinni. Peningshús steypt
frá grunni, túnrækt margfölduð og bústofn aukinn. Þjóðin var eins og
fjallajurtirnar, sem safnað höfðu frjómagni í rætur, undir freranum.