Húnavaka - 01.05.1987, Page 161
HUNAVAKA
159
Þessir vormenn íslands, aldamótakynslóðin, og afkomendur hennar,
breiddu krónur mót sól og blómstruðu. — Að vísu var þá liðið að
hausti i lífshlaupi Ólafs og Jósefínu. —
Þau tóku reyndar virkan þátt í dagsins önn meðan kraftar entust, og
barnabörnin áttu góða að í þeim ranni. Dóttur Helgu og Skafta,
Sigríði, ólu þau upp, og gestrisnin hennar Jósefínu fylgdi henni hvar
sem hún fór. Einnig eftir að þau voru flutt út á ellideild var hún ennþá
veitandi, tók á móti gestum með kaffi og meðlæti, létt og hratt fóta-
takið hressandi og uppörvandi og hlýtt handtakið yljaði mörgum um
hjartarætur. Hún taldi ekki sporin sín upp og niður stiga, ef hún vissi
af ættingja eða vini á sjúkradeild. —
Síðustu ár Ólafs var hann farinn að heilsu. Þá hlúði hún að honum
af sinni meðfæddu nærgætni og vakti yfir velferð hans. Ólafur lést 13.
febrúar 1985, þá 95 ára að aldri.
Jósefína fluttist þá til dóttur sinnar, Sigríðar í Ártúnum, þar sem
hún naut sjálf, sín síðustu ár, sömu hlýjunnar, sem hún hafði sáð til og
arfleitt að. —
Jósefína var ljóðelsk og bókhneigð. Skólaganga hennar var stutt sem
barns, að viðbættum einum vetri í kvennaskóla á ungdómsárum.
Samt var hún allan þennan langa aldur og starfsdag, sívinnandi,
veitandi og miðlandi speki lífsins og þekkingu aldanna.
Blessuð sé minning hennar.
Guðríður B. Helgadóttir.