Húnavaka - 01.05.1987, Page 175
HÚNAVAKA
173
sinnar í félagsmálum. Hann stofnaði málfundafélag, er var jafnframt
fyrsta ungmennafélagið í Bólstaðarhlíðarhreppi svo og lestrarfélag, en
hann annaðist bókvörslu um langt árabil. Einnig hafði hann um skeið
kennslu í hreppnum á árunum 1920-1925 og þótti góður og skyldu-
rækinn kennari.
Eins og áður er sagt hafði Klemenz orðið fyrir miklum andlegum
áhrifum á námsárum sínum erlendis. Voru áhrif þessi trúarleg og
hneigðist hugur hans æ meir að trúarskoðunum kvekara og taldi
hann sig hafa orðið fyrir sterku afturhvarfi, þar sem innri rödd hans
sagði honum að kynnast þessum trúflokki. Enginn Islendingur hér-
lendis hafði gengist þessum trúflokki á hönd, og varð því að ráði að
hann sigldi til Englands 1927 og gekk þar í trúarsöfnuð kvekara.
Klemenz lýsti þeim áhrifum, er hann hafði orðið fyrir í Englandi, sem
fæðingu. Kvekarar leggja megin áherslu á hugljómun, er felst í áhrif-
um hins innra ljóss, er lýsir upp úr þögninni.
Er heim kom frá Englandi tók hann að boða trú sína og ferðaðist
næstu árin víða um land. Hélt hann erindi víða og flutti mál sitt á
samkomum, í skólum og í útvarpi. Kona hans annaðist búskapinn af
miklum dugnaði og myndarskap. Þau hjón eignuðust fjóra syni og eru
þrír þeirra á lifi. Elstur var Guðmundur er lést aðeins átta ára gamall,
Erlendur fyrrum bóndi í Bólstaðarhlíð, Guðmundur kennari í
Varmahlíð í Skagafirði og Ævar sérleyfishafi á Dalvík. Auk þess ólu
þau hjón upp Herbert Sigurðsson, húsasmíðameistara í Reykjavík, frá
fimm ára aldri.
Klemenz annaðist bréfhirðingu um hálfrar aldar skeið og bréfburð í
næstu nágrannasveitir.
Enda þótt trúarhugmyndir hans færu eigi saman við kenningu
kirkjunnar var hann kirkjubóndi og velviljaður starfi hennar. Annað-
ist hann hringjarastörf við kirkjuna um áratugaskeið og var með-
hjálpari um árabil og lét sér annt um viðhald hennar og útlit. Síðustu
5 ár ævi sinnar dvaldi Klemenz á sjúkradeild Héraðshælisins.
Með Klemenzi í Bólstaðarhlið er genginn sérstæður persónuleiki,
maður er eigi batt bagga sína sömu hnútum og samferðamenn, eins og
komist er að orði. Köllunin til trúar var honum allt. Þessari köllun
hlýddi hann á unga aldri og trúarsannfæringu sinni var hann trúr til
hinstu stundar.
Útför hans var gerð frá Bólstaðarhlíðarkirkju 16. júní. Bálför hans
fór fram í Reykjavík.