Húnavaka - 01.05.1987, Síða 185
HUNAVAKA
183
Jón Sumarliðason varð bráðkvaddur á heimili sínu, Blöndubyggð 6b á
Blönduósi, 27. október. Hann var fæddur 21. september 1915 á
Blönduósi. Hann ólst upp í foreldrahúsum, ásamt eldri bróður sínum
Rögnvaldi, er lést 1985, en foreldrar þeirra
voru Sumarliði Tómasson verkamaður á
Blönduósi og kona hans Jakobína Jónsdóttir.
Jón átti heimili sitt alla ævi á Blönduósi og
vandist allri algengri vinnu þegar í æsku. En
þá var víða skortur á borðum alls almenn-
ings í hinum ýmsu þorpum við sjávarsíðuna
á landi voru. Þéttbýliskjarnar voru að
myndast og tóku brátt á sig mynd bæja og
þorpa.
Svo var um Blönduós. Jón fylgdist vel með
þessari þróun er orðið hafði. Þeirri félagslegu
uppbyggingu, sem átt hefir sér stað á liðnum áratugum og leitt hefir til
þeirrar velmegunar, er allur almenningur á nú við að búa. Yfir þessari
miklu breytingu gladdist hann, er hann leit yfir farinn veg. Yfir því að
geta veitt börnum sínum þá menntun og þau tækifæri, sem hann
sjálfur hafði farið á mis við í æsku.
Þann 25. október 1941 gekk hann að eiga Sigurlaugu Valdimars-
dóttur, sem einnig er borin og barnfædd á Blönduósi. Hafa þau verið í
hjónabandi um 45 ára skeið og hefir sambúð þeirra verið rík af ham-
ingju og eindrægni.
Þau eignuðust fimm börn en þau eru: Sigmar, fulltrúi Kaupfélags
Húnvetninga á Blönduósi, er lést 18. september 1986, en kona hans
var Sigrún Kristófersdóttir frá Skagaströnd. Jakob Vignir, starfsmað-
ur hjá Kaupfélagi Húnvetninga. Jóhann Baldur, skrifstofumaður hjá
Kaupfélagi Húnvetninga, kvæntur Agöthu Sigurðardóttur ljósmóður
frá Selfossi. Kristín, húsmóðir í Reykjavík, gift Erni Sigurbergssyni
kennara. Og Kristinn Snævar, tölvufræðingur í Reykjavík, kvæntur
Jónu Björgu Sætran kennara.
Með Jóni Sumarliðasyni er genginn drengur góður, er hvergi vildi
vamm sitt vita eins og stundum er að orði komist. Hann var hógvær og
af hjarta lítillátur og fáskiptinn um annarra hagi.
Útför hans var gerð frá Blönduósskirkju 1. nóvember.