Húnavaka - 01.05.1989, Page 24
22
HÚNAVAKA
minnir á 30 krónur. Hún var handsnúin og gamaldags, var til dæmis á
trépalli. Ég var óskaplega lukkuleg þegar ég fékk hana því að það var
svo óþægilegt að hafa ekki saumavél, og þó að ég væri ekki farin að
búa þurfti ég oft á saumavél að halda. Ég saumaði allt í henni þangað
til 1949 að ég fékk eina stigna sem ég á ennþá.
Það vildi einu sinni þannig til er ég kom út í Kaupfélag að ég sá
stigna saumavél fyrir innan borðið og spurði um verðið á henni. Hún
kostaði 10 þúsund sem mér fannst nokkuð mikið. Þá fór ég og talaði
við Jón Baldurs sem var kaupfélagsstjóri og sagði hann mér að hann
ætti tékkneskar saumavélar í pöntun og bauð að skrifa mig niður, ég
gæti þá sagt mig frá henni ef að mér sýndist. Síðan leið og beið, þá
hringdi síminn, vélin var komin. Hún var dálítið ódýrari en hin og ég
tók hana. Ég var fyrst hrædd um að hún væri ónýt því að það var
pípugrind undir henni. Ég var í hálfgerðum vandræðum fyrst því að
ég kunni ekkert á þetta „apparat“ og fékk ekki almennilegt spor. Nú,
ég var svona að smá grípa í þetta, en síðan var það eina nóttina að mig
dreymir að ég sé að basla við vélina, er búin að setja skyttuna í og er að
þræða. Þegar ég vakna man ég hvernig ég gerði þetta og lét ekki segja
mér það tvisvar að prófa hvort þetta væri einhvern veginn öðruvísi en
ég hafði gert. Og nú reyndist allt i lagi. Síðan hef ég saumað allt sem
mér hefur dottið í hug, upphlutssett og kjóla úr alls konar efnum,
vaðmálsbuxur, silki og nælon og meira að segja striga yfir heyin.
Saumavélin og skilvindan eru einhver dýrlegustu búsgögn sem ég hef
átt.
Hver er skoðun þín á trúmálum?
Ég álít að barnatrúin sé mikils virði og það er kannski fyrst og fremst
fyrir það að mér var innrætt hún sem barni. Foreldrar mínir voru bæði
sterktrúuð og á því byggi ég að þau innprentuðu okkur börnunum
þetta mjög vel. Ég hef notfært mér trúna mikið og hef alltaf flúið á það
svið þegar mér hefur legið við. Ég reyndi að kenna mínum börnum
gott orð eins fljótt og þau gátu tekið á móti slíku, og eins hef ég gert við
barnabörnin þegar ég hef haft tækifæri til. Trúin er það sem aldrei
getur gert neinum illt, en hún getur gert fólki gott og veitt þvi öryggi.
Ég held að margt af afbrotafólkinu væri öðruvísi sinnað ef það sinnti
barnatrúnni og tryði á eitthvað annað en sjálft sig eða mátt sinn og
megin, hversu lítill eða mikill sem hún nú er. Við megum vita að það
er alltaf litið eftir okkur og hjálpað ef við snúum okkur til máttar-
valdanna.