Húnavaka - 01.05.1989, Page 25
HUNAVAKA
23
Ég er alveg viss um að trúhneigð hjá fólki fer þverrandi og það er
margt fólk sem hugsar eiginlega ekkert um slíka hluti. Þegar ég var
unglingur var börnum á hverju einasta heimili innprentað svona
lagað, til dæmis þegar húslesturinn var lesinn. Það var fallegur siður
og góður sem virkaði vel á börnin þegar þau fóru að hlusta á þetta,
strax óvitar. Hugsaðu þér hvað það er þægilegt að hlusta á messu í
útvarpinu. Mér finnst að fólk ætti að gera það, annað slagið að
minnsta kosti.
Mér finnst að foreldrarnir þurfi að fræða börnin meira um þessi mál
en gert er og það færi margt betur í veröldinni ef það væri gert. Það
hefur reynst mér vel að eiga þessa yndislegu barnstrú, og ég held að
hún hljóti að geta reynst öðrum vel líka.
Heldur þú að til sé framhaldslíf?
Það er enginn vafi á því að þó fólk sé komið yfir um, þá veit það
hvað okkur líður. Ég hef fullkomlega orðið vör við það. Mig hefur
dreymt þannig og ég hef líka orðið vör við það þess utan. En ég er líka
alveg jafn viss um að það eru ekki allir jafn móttækilegir fyrir þessu,
hvorki í vöku eða svefni.
Ég finn að mér líður afar vel gagnvart þessu og ég treysti líka á það
sem æðra er en við sjálf. Þegar maður finnur þetta hlýtur maður að
breyta líferni sínu dálítið í hlutfalli við það og forðast að gera öðrum
miska eða annað slíkt.
Nú veit ég að þú hefur verið mjög skaþlétt.
Já, sem betur fer. Ef ég hefði ekki verið jafn léttlynd og ég er hefði
margt farið öðruvísi. Ég hef líka verið þolinmóð, þolinmæðin er eitt-
hvað það besta sem manni er gefið. Ef maður missir þolinmæðina
hleypur skapið kannski með mann í gönur og það getur breytt mörgu
til hins verra bæði fyrir mann sjálfan og aðra.
Þegar ég fór fólks á milli, sitt á hvað, og vann hvað sem var, fannst
mér ég oft ekki fær um að afkasta þessu eða hinu en fékk alltaf
einhvern styrk til þess að koma hlutunum áfram og gera það sem
þurfti. Ég var alltaf þreklítil en það var dálitil harka í mér og vilja-
styrkur. Ef maður dregur ekki af sér, reynir að gera eins og hægt er, þá
orkar maður býsna miklu þó að þrekið sé kannski ekki mikið. Samt má
passa sig á að vinna sér ekki um megn, en það hef ég sjálfsagt gert þvi
að ég var ekki heilsuhraust á tímabili, en ég komst yfir þetta allt
saman.