Húnavaka - 01.05.1989, Page 38
STEFÁN Á JÓNSSON:
Við förum á hverju sumri hingað
Viðtal við Höskuld Stefánsson
Heimsókn að Illugastöðum
Það var eitt síðsumarkvöld að Árni á Sölvabakka hringdi í mig og
ámálgaði, hvort við ættum ekki að láta verða af því að heimsækja
Höskuld á Illugastöðum. Árni hafði áður sagt mér frá þvi að Hösk-
uldur hefði byggt reisulegan sumarbústað á æskuheimili sínu, en ekki
látið þar við sitja heldur lagt veg að Laxá og byggt bílfæra brú yfir
ána. Árni taldi ástæðu til að eiga viðtal við þennan mann, sem ungur
flutti af æskuslóðum, en hélt slíkri órofa tryggð við heimahagana í
dalnum sínum, þótt þeir væru nær allir komnir í eyði.
Það var kominn haustsvipur á landið, er við Árni ókum fram Lax-
árdalinn og sveigðum yfir brúna hans Höskuldar heim að Illugastöð-
um. Kvöldfegurðin, seiðandi árniðurinn og tign fjallanna fyllti dalinn
þegar við Árni stóðum í hlaðvarpanum og heilsuðum Höskuldi, sem
bauð okkur í bæinn á sinn alúðlega og hressandi hátt. Þegar við erum
sestir inn i hlýlega og rúmgóða stofu tökum við tal saman og ég inni
Höskuld eftir ætt og uppruna.
Faðir minn, Stefán Bjarnason, var fæddur hérna á Illugastöðum.
Hann átti 16 systkini og af þeim komust átta til fullorðinsára, fimm
bræður og þrjár systur. Móðir mín, Æsgerður Þorláksdóttir, var fædd
í Hofsnesi í Öræfum og fluttist hingað aldamótaárið 1900 með móður
sinni og stjúpa, sem var Húnvetningur, Magnús að nafni. Þau keyptu
Núpsöxl. Foreldrar mínir kynntust hér og hófu búskap á Illugastöðum
árið 1907. Móðir mín var mögnuð kona með listaeðli og mikil hann-
yrðakona. Hún átti það til að láta að sér kveða og biðja um orðið á
fundum, sem var fátítt meðal kvenna á þeim árum.