Húnavaka - 01.05.1989, Page 58
KONRÁÐ EGGERTSSON:
Sýslumaðurinn lét segja
sér það tvisvar
Það mun hafa verið um 1950, sem atburðir þeir gerðust, er hér
verður sagt frá. Ég var að dunda úti í smiðju minni snemma vors á
sunnudegi, þegar ég sé einhvern koma gangandi með hest og kerru og
mikið æki á og stefna heim að Haukagili. Sé ég að þetta er Hólmfríður
Jónsdóttir á Undirfelli. Hún var mikið móð og blaut í fætur og upp að
hnjám en spilandi kát. Mér duldist nú ekki hvað var á seiði. Hún segist
afhenda mér sem hreppstjóra hest þann, sem sé á kerrunni að boði
sýslumanns. Ég spurði hana hvort sýslumaður hefði lagt fyrir að hún
kæmi með hann dauðan. Nei, það var ekkert talað um það. Ég sagðist
neita því að taka við hesthræi þessu. Hún segir það þýðingarlaust og
fer að losa um bönd þau og striga er hesturinn var vafinn í því vel var
um búið. Síðan fer hún að bisa við að ná hestinum niður af vagninum,
en réði ekki við það, svo að ég sá aumur á henni og gekk til hjálpar. Ég
kenndi í brjósti um hana.
Svo var mál með vexti að hestur þessi hafði gengið í heyjum hjá
henni og gert usla í hryssum hennar, því hann var virkur að sér. Oft
var Hólmfríður búin að klaga hestinn fyrir sýslumanni, sem hringdi í
mig til þess að biðja mig að skora á eigandann, Sigtrygg Benediktsson
á Brúsastöðum, að taka hestinn í vörslu, hvað ég gerði. En allt kom
fyrir ekki, hesturinn fór sína leið því að girðingar voru illa uppi. Síðast
segir sýslumaður Hólmfríði að fara með hestinn til hreppstjóra. Nú
voru góð ráð dýr fyrir einstæðingskonu að reka baldinn og óþekkan
hestinn, svo að hún tók það ráðið, sem auðveldast var að skjóta hann.
Talið er að hún hafi falið sig undir heystriga þar sem hún vissi að
hesturinn var vanur að éta og hafði lítið gat á striganum til þess að
skjóta út um og víst er um það að engin feilskot hafa átt sér stað við að
aflífa hestinn.