Húnavaka - 01.05.1989, Qupperneq 69
HUNAVAKA
67
og forsetinn fái tækifæri til þess að kynnast fólkinu út um hinar
dreifðu byggðir landsins. Það var ósk frú Vigdísar forseta að koma við
i öllum sveitum héraðsins og hitta sem flesta. Hún á ættir sínar að
rekja hingað í Húnaþing. Á frændfólk í Miðfirði og Hrútafirði. Til
þess að leggja áherslu á þessa frændsemi, þá gáfu Húnvetningar henni
Föðurtún og Húnaþing. Þetta voru persónulegar gjafir til hennar, en
ekki til forsetaembættisins.
•H-
MARSIBIL FRÁ SMYRLABERGI
Á Smyrlabergi á Ásum i Húnavatnssýslu bjuggu á ofanverðri 19. öld hjón nokkur
og áttu dóttur þá er Marsibil hét. Þegar hún var á unglingsaldri, smalaði hún kvíaám
á sumrin. Einu sinni þegar hún var að smala ánum, skall yfir svo svört þoka, að hún
fann þær ekki. Ráfaði hún víða í þokunni, þangað til hún sá bæ álengdar. Þegar hún
kom nær bæ þessum, kannaðist hún ekki við hann og þóttist aldrei hafa komið þangað
áður, en gekk þó heim á hlaðið með hálfum huga, virtust þar vera fremur lagleg
húsakynni. Fór Marsibil að hugsa um, hvort hún ætti að áræða að gera vart við sig, en
í sömu svifum kom kona fram i bæjardyrnar, heilsaði henni með nafni og spurði hana,
hvort hún gæti ekki þegið hjá sér mjólk að drekka. Marsibil játaði því. Gengu þær nú
í bæinn, og konan á undan, allt til baðstofu, var þar allt snoturt og þrifalegt um að
litast. Þar lá ungur maður uppi í rúmi, og benti konan Marsibil til sætis á rúmstokk
hans, síðan greip hún könnu af hillu og gekk fram að sækja drykkinn. Marsibil fór nú
að hugsa um hag sinn, þóttist hún vita að þetta mundi álfabær vera, og minntist
ummæla þeirra, er hún hafði áður heyrt, að hver sá, sem neytti einhvers eða drykki hjá
álfum, yrði um leið heillaður af þeim og kysi upp frá þvi fremur að dvelja hjá þeim en
mennskum mönnum. Hún stóð þá upp og gekk fram úr baðstofunni, en mætti þar
álfkonunni með mjólk í könnu. „Hvað? Ertu að fara?“ spurði hún. ,Já,“ svaraði
Marsibil, „foreldrar mínir verða hræddir um mig, ef ég verð lengur að heiman."
Álfkonan bað hana að ganga aftur inn i baðstofuna, rétt á meðan hún drykki
mjólkina, en Marsibil vildi það með engu móti. „Drekktu þá úr könnunni þar sem þú
stendur, svo að þú tefjist sem minnst,“ sagði þá álfkonan. En þegar Marsibil aftók það
lika með öllu, varð álfkonan þykkjuþung á svip og mælti: „Þó að þú viljir ekki þiggja
hjá mér svo mikið sem mjólkursopa að drekka, þá skaltu fara héðan í friði, en fram
mun það koma á sumum börnum þinum, að þú reyndist meiri gikkur en ég bjóst við.“
Siðan kastaði Marsibil kveðju á konuna og fór leiðar sinnar. Ekki er þess getið, hvort
hún fann ærnar, en heim komst hún heilu og höldnu og sagði frá því, sem fyrir hana
hafði borið. Hún giftist síðar og eignaðist börn, þóttu sum þeirra undarleg, en önnur
voru sjóndöpur. Þegar þetta er ritað (1908) munu einhver af börnum Marsibilar vera
enn á lifi.
Gríma hin nýja.