Húnavaka - 01.05.1989, Page 70
BIRGITTA H. HALLDÓRSDÓTTIR:
Er kvölda tekur
Þeir sátu báðir á sama rúminu, gömlu mennirnir, og ræddu saman.
Það var hlýtt í herberginu þó úti geisaði norðvestan garri með snjó-
komu. Herbergið var vistlegt og við sinn hvorn vegginn stóðu rúm, en
þeir kusu þó að sitja saman, það veitti þeim einhverja samkennd. Þeir
áttu góðar stundir er þeir hittust og öðru hverju heimsóttu þeir hvorn
annan. Þó ferðuðust þeir minna eftir því sem árin færðust yfir. Ekki
óeðlilegt. Þetta voru tveir fullorðnir, lúnir menn, sem svo sannarlega
skulduðu þjóðfélaginu ekki neitt. Menn sem á óaðfinnanlegan hátt
höfðu lokið sinni starfsævi. Þeir voru ernir enn og ekki var hægt að
greina nein elliglöp á mæli þeirra. Ólíkar persónur, en aldavinir.
Það var fátt sem þessir tveir áttu sameiginlegt, utan þess að taka í
nefið. Það var eitt af þeim lífsins gæðum sem þeir báðir höfðu veitt sér.
Og nú gekk neftóbakið milli þeirra með vissu millibili. Annar með
dósir en hinn með pontu, að sjálfsögðu var hvoru tveggja úr silfri. Páll
var einhleypur og aldrei verið við konu kenndur, hann hafði tileinkað
málleysingjunum líf sitt og starf. En Jón átti konu og níu börn, hann
hafði ávallt tekið alla þá vinnu er til féll, svo hann gæti framfleytt
þessu erfiða heimili. En þeir áttu það sameiginlegt að vera ungir á
sama tíma. Minningarnar tengdu þá saman. Ávallt er þeir hittust
rifjuðu þeir upp gamla daga. Sögðu hvor öðrum sögur, misjafnlega
sannar. Saman hurfu þeir frá nútímanum með öllum sínum hraða,
aftur til hinna gömlu góðu daga.
Páll var minnisgóður. Veðurfar og skepnuhöld á hverjum tíma
stóðu honum lifandi fyrir hugskotssjónum. Hann hafði ávallt verið
þekktur fyrir að fara vel með skepnur á meðan hann bjó. Minningar
Jóns voru öðruvísi. Alla tíð hafði hann verið gleðimaður og konur
höfðu alltaf hrifist af léttleika hans og gamansemi. Hann hafði kynnst
ýmsum konum áður en hann kvæntist. Jóni fannst ljúft að rifja upp
gömul ævintýri og Páll var góður áheyrandi. Hann hló sínum sér-