Húnavaka - 01.05.1989, Page 71
HÚNAVAKA
69
staka smitandi hlátri er Jón sagði slíkar sögur og það var eins og hann
gæti lifað sig inn í frásögnina. Ef til vill komu þessar sögur dálítið í
staðinn fyrir það sem hann hafði aldrei upplifað sjálfur.
Það var rökkvað í herberginu. Bæði vegna dimmra éljanna úti og
einnig var degi tekið að halla. Þeir hirtu ekki um að kveikja rafljósin.
Úti æddi stormurinn og snjókornin féllu til jarðar. Jón stóð upp og
gekk hægt og settlega að stórum skáp sem stóð við norðurvegginn. Þar
dró hann út fullan koníaksfleyg í leðurhulstri. Hann átti alltaf vín þó
hann væri sjálfur hófsmaður á slíkt. Honum fannst sjálfsagt að eiga í
staupinu handa vildarvinum, eins og Páli, er litu inn.
Jón settist aftur á rúmið og rétti fleyginn til Páls.
— Fáðu þér úr honum þessum.
Hann var drýgindalegur í málrómnum. Páll tísti og tók báðum
höndum um fleyginn.
— Mikið lifandi býrð þú alltaf vel.
— O, minnstu ekki á það. Það er nú meira í skápnum.
Þeir litu hýrlega hvor á annan og vættu síðan kverkarnar með fimm
stjörnu koníaki.
— Segðu mér aftur frá vinnukonunni? Hvað hét hún aftur, Mar-
grét? Og þegar þú hélst að hún væri að skola þvottinn.
Jón ók sér í sætinu.
— Það var nú ekkert.
Páll hnippti í hann. Honum var sama þó hann hlustaði á sömu
söguna tvisvar. Góð saga var gulli betri. Jón setti sig í stellingar og rétti
fleyginn til Páls. Nú myndu þeir eiga saman góða stund.
— Ja, það var löngu áður en ég hitti konuna og tók að basla við
búskapinn. Líklega verið í kringum 1913. Þá var ég nú ósköp venju-
legur vinnumaður á Bakka. Við vorum tveir vinnumennirnir og tvær
vinnukonur. Önnur þeirrá var nokkuð við aldur, en Margrét var ung
og kom í vistina á fardögum eins og ég. Margrét var glæsileg stúlka,
með dökkt hár sem náði í mittisstað. Og byggingin maður minn, það
var hægt að spanna hana eins og ekkert væri. Margrét átti að þjóna
mér og ég var ánægður með það, því hún var myndarleg í höndunum
ofan á allt annað. Mín biðu ávallt þurr og heil plögg, meðan ég var á
Bakka. Já, hún var gersemi hún Margrét, en stygg var hún við mig
fyrst í stað. Hún var hlýleg og kát, en hleypti mér aldrei mjög nálægt
sér. Hinn vinnumaðurinn, hann Baldur, gaf henni líka hýrt auga og
hann öfundaði mig heil ósköp af þjónustunni. Hann varð að láta sér