Húnavaka - 01.05.1989, Page 76
74
HUNAVAKA
sama tíma gerðist það, að frændþjóðir okkar glötuðu grunntóni
málsins í hrærigraut fjölþjóðlegra samskipta.
Að vísu var um skeið, heldur fátæklegt um að litast á vettvangi hins
ritaða orðs hérlendis, en þó aldrei ördeyða. Og þó að tungan á tímabili
ætti verulega í vök að verjast, vegna erlendra áhrifa, þá varð það ekki
að slysi, þó við lægi. A nítjándu öldinni fór fólk svo að vakna til
vitundar um hin þjóðlegu verðmæti.
Fram á sjónarsviðið komu menn, sem af logandi áhuga brýndu
fólkið til að hreinsa tunguna af erlendri íblöndun og standa um hana
vörð og fyrir þeirra tilstuðlan upphófst hér blómaskeið í orðsins list.
Vafalaust skiptir mörgum öldum síðan menn fóru að fella hið
talaða orð í skorður ríms og stuðla, og þjóna þannig meira eða minna
meðvitaðri löngun sinni til listsköpunar — úr nærtæku og auðunnu
efni.
Á þessu landi hefir ljóðagerðin — stuðlamálið — átt rík ítök allt frá
því að hér hófst saga. Þjóðin gerði þær kröfur til skálda sinna að þau
væru fær um að iðka sína list samkvæmt margbrotnum og ströngum
kröfum rímhefða tungunnar.
Þau virtu þessar kröfur og mörg þeirra orktu sig inn í þjóðarsálina.
Ljóð þeirra voru lærð og sungin, og hin bestu vöktu heita hrifningu og
voru fólkinu andleg næring og listræn hvöt.
Svona var þetta fyrir ekki löngu síðan. En hvað um samtímann og
framtíðina? Mér sýnist, að segja megi, að ekki sé lengur lagt í ljóðasjóð
þjóðarinnar. Þar er nú vart annað að finna en innistæðu fortíðarinnar
— ljóð skálda, sem flest eru látin.
Að vísu finnast ennþá snotrir hagyrðingar, bæði inn til dala og út
við sjó, sem sent geta frá sér góða vísu, sem á það skilið að fá fætur —
komast á ról og verða almenningseign. Jafnvel ber stundum fyrir augu
eða eyru kliðmjúkt kvæði — komið frá einhverjum, sem tæplega
dreymir um að verða kallað skáld.
En það sindrar ekki af þessu — það leyfir hrifningunni að sofa.
Og hver er þá líklegust skýring á þessari hnignun? Ekki er efnivið-
urinn lakari en fyrr. Málið er jafn myndríkt og áður — og ennþá á
ljóðlistin hljómgrunn í huga fólksins.
Það er ennþá reiðubúið að láta hrífast af fagurhrynjandi þróttmikils
ljóðverks.
Hvað er orðið af eftirvæntingunni, sem áður fylgdi því að blaða í
nýrri ljóðabók? Ótal vonbrigði hafa gengið af henni dauðri.