Húnavaka - 01.05.1989, Page 102
100
HUNAVAKA
Rétt í sama mund kom skólastjóri út og tók þá eftir að eitthvað
sérstakt mundi um að vera og kom ofan á bakkann til eftirlits. Ég stakk
mér aftur af bakkanum ofan í ána og synti að ferjunni og fór upp í
hana. En allt var um seinan. Nú kom skólastjóri til skjalanna og
harðbannaði okkur að gera þetta nokkurn tíma oftar. Við gætum
drepið okkur á því. Hvort sem svo hefði farið þá urðum við nú að
hætta þessu. Ekki man ég eftir að ég yrði nokkurn tíma nauðugri að
hætta neinu sem mér var bannað en að leggja niður þetta uppátæki,
því mér fannst þetta sundvolk skapa mér svo mikla velliðan á eftir. En
þar við sat og hefi ég ekki leikið þetta síðan, ekki haft kjark til að baða
mig í vatni að vetrinum, enda kannski vantað leikfélaga til þeirra
hluta.
En hvað var þá til bragðs fyrst þetta mátti ekki. Næstu daga á eftir
kom hríðarkafli og frosthörkur svo ána hálflagði í bili. Sá kuldakafli
stóð ekki lengi. Ána fór aftur að leysa og flutti með sér stóreflis jaka.
Einn dag voru þeir á gangi upp undir Stafholtsey Þorsteinn Sigurðs-
son kennari og einhver skólapiltur með honum er ég man nú ekki hver
var. Þeir hrundu þar á flot stóreflisjaka og fóru svo út á hann og létu
hann bera sig ofan ána á móts við Hvítárbakka og stigu þar í land. En
þessi skemmtilega sigling fréttist brátt um skólann. Varð það til þess
að fleiri léku þetta eftir og gekk vel.
Nú varð það einn dag nokkru síðar að tveir skólapiltar, Gísli og
Einar, báðir úr Kjósarsýslu, fengu sér allstóran jaka og hugðust sigla
eins og hinir. En er móts við Hvítárbakka kom vildi jakinn ekki koma
að landi heldur gerði hann þann fjanda að halda sig alltaf á miðri ánni
og fór svo áfram. Er við sáum hvað fram fór vildu sumir taka ferjuna
og róa á eftir þeim, sem þeir og gerðu, en til einskis, þeir sáu að þeir
mundu ekki ná jakanum á þann veg. En við Danival Danivalsson
tókum sprettinn ofan undir Þingnes og hugðumst taka bát sem þar var
uppi og róa fyrir jakann. Að vísu var báturinn langt uppi á landi og
þurftum við að draga hann alllangt til að koma honum á ána en þó
meðfærilegur. En allt var um seinan. Þeir flutu óðfluga áfram og nú
var jakinn kominn í tvennt og voru þeir nú sinn á hvorum helming.
Áin var í talsverðum vexti svo að eyri ein fyrir ofan Grímsárós sem
venjulega er uppi þegar áin er minnst, var nú í kafi. Einar, sem var á
undan, vissi af þessari eyri og hugðist nú er jaka hans bar þar yfir,
reyna á hamingjuna og brá sér út af jakanum og náði vel til botns með