Húnavaka - 01.05.1989, Page 107
HUNAVAKA
105
dofna ef það væri geymt malað og er það mjög sennilegt. Á mínu búi
var alltaf mælt á könnuna með spónblaði og var það til allan okkar
búskap, sem var 50 ár. Kaffi var lagað tvisvar á dag til þess að alltaf
væri heitt á könnunni þegar gestir kæmu, en gestagangur var mikill.
Hitastigi á kaffi var lýst á margan hátt, kallað sopavolgt, hlandvolgt
eða brennheitt. Notuð voru ýmis orð um styrkleika á kaffilögun svo
sem spegilkaffi, náhland, hlandónýtt eða ónýtt og rótsterkt ef of mikil
rót var notuð. Baunakaffi þótti best, en þá þurfti mikið af baunum og
var það að jafnaði ekki gert.
Kaffikönnur voru til á hverjum bæ. Þær voru „emileraðar“ í alls
konar litum. Fyrsta bunan úr kaffikönnunni var kölluð túðukaffi og
þótti það ekki eins gott og það sem á eftir kom. Upphitað kaffi var
drukkið og eins uppáhella, sem oft var gert ef búið var af könnunni
áður en fólk var búið að fá nóg eða gestur kom á síðustu stundu. Kalt
kaffi var ekki drukkið. Þeir sem voru mjög sólgnir í kaffi voru kallaðir
kaffikarlar eða kaffikerlingar og voru þær fleiri.
Heimafólk drakk kaffi sitt í baðstofu eða eldhúsi eftir því sem
hentaði best, gestir sömuleiðis nema það væru heldri menn, sem kall-
aðir voru, þá drukku þeir í stofu. Gestum var borið kaffi á bakka en
ekki heimilisfólki. Ef um næturgesti var að ræða var þeim fært kaffið i
rúmið. Gestum var oft gefið molakaffi. Það var ekki farið að gefa brauð
með kaffi fyrr en nokkru eftir aldamót, líklega ekki fyrr en um 1920.
Aukakaffi var stundum gefið í tilefni af vel unnu verki, sem hafði
gengið bæði fljótt og vel. Þá urðu allir miklu ánægðari og unnu betur
og græddu húsbændurnir mikið á þessu. Svo voru aðrir sem aldrei
sýndu fólki sínu neina þakklátssemi fyrir vel unnin verk og voru þeir
ekki eins virtir.
Það tíðkaðist að drekka kaffi af undirskál og þannig var kaffið kælt.
Þá var það bara molakaffi sem fram var borið. Rjómi var stundum
borinn fram með kaffi en oftar mun það hafa verið nýmjólk eða
rjómabland. Aldrei var notuð undanrenna. Það datt víst engum í hug.
Kaffi var stundum drýgt með korni, sem var látið saman við kaffið í
brennsluna, en það var ekki gott. Það var gert til þess að enda kaffið
betur en það var miklu dýrara en kornið.
Kúmenkaffi var ágætt. Brennivín var stundum gefið út í bollann
eins og kallað var og þóttu það prýðisveitingar og voru það líka.
Kandíssykur var mest notaður með kaffi á mínum fyrri árum og fram
að fyrra stríði. Þá var hann ekki til á tímabili og þótti mjög slæmt.