Húnavaka - 01.05.1989, Page 161
HUNAVAKA
159
XXXII. KAFLI
Pétur Skúlason flyst suður
Pétur Skúlason flutd suður í Reykjavík haustið 1839, með konu
þeirri er Þórunn hét; fylgdi hann henni nú fast eftir, en eftir skildi
hann Helgu Gottskálksdóttur, frillu sína, á Langamýrarpartinum;
en Jón, húskarl Guðrúnar Péturs-konu, bjó eftir með henni. Síðan
fluttust þau norður í Skagaíjörð, og bjuggu á Hjaltastaðakoti í
Blönduhlíð, og komu sér vel; og saman bjuggu þau allt til þess,
er Guðrún dó. Kvæntist Jón síðan, og fékk Sigurlaugar, ungrar ekkju,
dóttur Gísla Konráðssonar, og bjuggu síðan að Hcllu í Blönduhlíð*.
Það er frá Pétri að segja, þá hann var suður kominn, vildi bæjar-
fógeti í Reykjavík ekki, að hann ílengdist þar, og ætlaði að reka
hann á brott norður. Sýktist Pétur þá, og ætluðu margir skrópasótt
vera, og kom svo, að ekki tjáði að reka Pétur sunnan, þó yfirvöld
sum vildu bægjast við honum. Bar það og til síðar, þá enn var freist-
að, að reka Pétur norður, lá þá og nær, að ekki fengi hann við haldist,
og yrði undan að láta, en þá var það um vorið, að býli eitt var
upp boðið til ábýlis og landskuldar, er konungseign var, varð þá
Pétur hæstbjóðandi, og viðtekið boð hans; flutti hann sig þegar
þangað, og nefndu menn það Sauðagerði, (að líkindum nýbýli). Var
síðan enginn kostur löglega að bægja honum á brott, þá viðtekið
var landskuldarpeningaboð hans, og hann með þeim hætti tekinn
í sveitarfélag.
XXXIII. KAFLI
Lát Strjúgs-Jóns, og frá Bjarna
Sumarið 1843 gekk sótt mikil og mannskæð, svo enginn mundi
þá aðra skæðari, og nálega fór hún um allt land. Dó Strjúgs-Jón
hinn gamli úr henni í júlímánuði; var hann þá fyrir nokkrum vetrum
* Sigurlaug Gísladóttir, alsystir Konráös prófcssors Gíslasonar, og þcirra systkina, átti fyrr
Jóhanncs bónda Hrólfsson á Fornastöðum. Þau voru stutt saman. -S. Gr. B.