Húnavaka - 01.05.1989, Page 170
168
HUNAVAKA
undantaki bónda hennar, Guðmund, sem var einstakt prúðmenni. Þá
má ekki gleyma börnum þeirra hjóna sem sýndu á margan hátt
viðleitni að víkja góðu að Gvendi. Má þó sérstaklega þar til nefna
Jakob er síðar varð bóndi í Hnausum í Þingi — en dó hálffertugur og
var mikils saknað af þeim sem hann þekktu.
Frá því ég man eftir þá var Gvendur alltaf á ferðalagi, vetur og
sumar. Alltaf átti Gvendur eitthvert hross til reiðar og reyndi oftast að
heyja handa því að sumrinu, eina viku eða svo. Var það á ýmsum
stöðum gjört, ýmist í Svínavatnshreppi eða vestur í Þingi. Eins kom
það fyrir að hann var eina viku við heyskap hjá Jakobi í Holti. Reyndi
hann þá að herða sig sem hann mátti. En hann var laus við að vera
neinn verkmaður, enda væskilmenni til vaxtar og burða. Eitt sumar
var ég í Holti hjá Guðmundi bónda og þá var Gvendur þar eina viku
hjá Jakobi að heyja fyrir hann. Jakob bað þá föður sinn að ljá sér mig
til að slá með Gvendi einn dag — en ég var þá 13 ára. Var það
auðfengið og slógum við báðir fyrir ofan túnið þar. En þó náðu blettir
okkar ekki saman því ég held að hvorugum hafi þótt upphefð að
hinum. Gvendur vildi helst slá móa en ég mýrar. Gvendur sló toppótt
og beit illa. Um kveldið kom Jakob til okkar og leit yfir blettina er við
vorum að hætta verki. Segir þá Jakob við Gvend: „Hvernig er það,
Gvendur minn, mér sýnist Ingvars blettur stærri en þinn.“ „Ekki er
það undarlegt,“ segir Gvendur, „strákurinn er alltaf að krabba tómar
keldur en ég slæ iðagrænt valllendi sem er svo gott að ég met það sem
töðu.“
Fyrst er ég man eftir átti Gvendur jarpa hryssu — Póla-Jörp var hún
kölluð. Síðan undan henni aðra jarpa hryssu, hringeygða á öðru auga
sem hann kallaði alltaf Augasteininn. Síðar átti hann um eitt skeið
gráan hest og lét hann fyrir jarpskjóttan og að lokum jarpan hest
undan Augasteininum og lifði hann Gvend.
Flakk Gvendar var mest í þann veg að hann var í sendiferðum fyrir
aðra. Hann flutti allmikið af bréfum því póstferðir voru ekki ævinlega
greiðar í þá daga. Ekki gat hann þó lesið skrift en var stautfær á
prentað mál. En þó hann gæti ekki lesið skrift þá mundi hann oftast
hvert bréf átti að fara og var mjög trúverðugur með þau ef á stóð
þannig að um leynileg ástabréf var að ræða.
Eins var það algengur starfi hans að vetrinum að fara með úr og
klukkur í viðgerð, bæði til Jóns Leví á Stóruborg eða Gísla Bene-
diktssonar Skinnastöðum. Ekki held ég hann hafi ætlast til þóknunar