Húnavaka - 01.05.1989, Page 206
204
HÚNAVAKA
Ingibjörg, Ólafur Sigurbjörn — var skírður við kistu móður sinnar —
Guðrún Ása, Ólöf Hulda og svo tvö hálfsystkini, Snorri og Lilja Huld.
Öll eru þessi systkini búsett í Revkjavík nema tveir elstu bræðurnir.
Hagmælsku hafa þau í heiðri og bera uppruna sínum gott vitni.
Er Ásgrímur hafði búið átján ár á Ásbrekku, brá hann búi þar um
tveggja ára skeið og leigði jörðina á meðan. En hann kom aftur heim
og búskapnum var haldið áfram til haustsins 1962 er elsti sonurinn tók
við jörð og búi. Eftir það dvöldu þau hjón, Ásgrímur og Guðný, i
Reykjavík, meðan bæði lifðu. Um nokkur ár starfaði Ásgrímur hjá
Sambandi íslenskra samvinnufélaga, en vanheilsa tók þá með öllu
fyrir vinnugetu hans. Eins fór um konu hans að hún missti heilsuna og
lést fyrir aldur fram. Þannig voru Ásgrími settar skorður er hann fékk
ekki umflúið. Börn hans og tengdabörn voru verndarar hans upp frá
því, en einkum kom það í hlut Ólafs og Ásu.
Til síðustu stundar tókst Ásgrími að sjá sér efnalega farborða, enda
taldi hann það frumskilyrði þess að vera frjáls maður í samfélaginu.
Þar um var hann mótaður af uppeldi sínu.
Ásgrímur var alltaf sami bóndinn í eðli sínu. Ræturnar við hans
gömlu heimasveit Vatnsdalinn slitnuðu aldrei. Hann reyndist mikill
aufúsugestur er hann kom norður í átthagana, berandi með sér nýjar
stökur og ljóð, ásamt upprifjun sagna og samskipta við vinafólk og
samferðamenn. Ljóðadísin var honum trú til síðustu stundar.
Enginn vafi er á því að Ásgrímur frá Ásbrekku er eitt þeirra al-
þýðuskálda tuttugustu aldarinnar, sem reist hafa sér óbrotgjarnan
minnisvarða með ljóðagerð sinni, þannig að stökur hans munu lifa á
vörum ljóðelskra karla og kvenna um langa tíð. Þannig lýsir hann
skoðun sinni í þessari vísu:
Vísan stendur öld og ár
oft er send til varnar.
Hún er að benda á bros og tár
bak við hendingarnar.
Með ljóðagerð sinni reis Ásgrímur frá Ásbrekku yfir hversdagsleik-
ann og veitti samferðamönnunum ómælda gleði. Hann var góður
fulltrúi bændamenningarinnar.
Ásgrímur var jarðsunginn frá Fossvogskirkju þriðjudaginn 30. ágúst
og jarðsettur í Gufunesskirkjugarði við hlið Guðnýjar konu sinnar.
Grímur Gíslason.