Húnavaka - 01.05.2002, Blaðsíða 53
IIUNAVAKA
51
Að svo miklu leyti sem orðið örlög hefur merkingu, þá er staðurinn
sem maður kemur frá, staðurinn þaðan sem maður sér og heyrir heim-
inn í fyrsta sinnið, örlög sem maður ávallt síðan hlýtur að búa við og fær
aldrei breytt.
„Enginn slítur þau bönd sem hann er bundinn heimahögum sínum“
orti Jón úr Vör um sinn hrepp vestur á Patreksfirði.
„Móðir þín fylgir þér á götu,
er þú leggur af stað út í heiminn
en þorpið fer með þér alla leið.“
Svokölluð sjálfsmynd mín varð sem sagt til í Torfalækjarhreppi. Hún er
orðinn hlutur og það er ámóta ómögulegt og banvænt fyrir mig að af-
neita henni eða afklæðast eins og það væri í raunveruleikanum fyrir
dönsk jórturdýr að afklæðast húðinni og vera á beit með iðrin úd. Svo-
leiðis gera þau einvörðungu á myndum í kennsluskyni en aldrei í raun-
veruleikanum. Þó að ég segi þetta vil ég fráleitt hefja þennan rislitla og
a.m.k. á norðlenskan mælikvarða óvenjulega fjallslausa hrepp með mold-
arbrúnum lækjum, fullum með járnlá og brunnklukkum, upp til nokk-
urra rómantískra skýja. Eg skal meira að segja játa að um hríð, eftir að ég
komst til fárra ára og lítils vits, leið ég önn fyrir að vera ekki frá merki-
legra plássi - til dæmis Blönduósi.
Eg get viðurkennt það núna að séður frá Húnsstöðum hafði Blönduós
á vissu tímabili bernsku minnar yfir sér stórborgarbjarma - með sínum
23 búðum, ef bensínstöðin hans Gústa bílstjóra var talin með - sem
hvorki París, New York né önnur pláss sem ég hef síðan gist eða búið á, fá
staðist snúning. Það er ekki fyrr en ég hafði tekið út töluverðan en síðbú-
inn þroska, að ég gat horfst í augu og sæst að fullu við að vera bara úr
Torfalækjarhreppi. Síðan hefur mér verið ljóst að þetta er nú einu sinni
minn hreppur. Þó vissulega séu til merkilegri staðir, eins og t.d. París og
New York, þá varð ég til í Torfalækjarhreppi og veit mætavel að ég get
ekki án hans verið, án hans væri ég staðlaus í veröldinni.
Til þess að geta tekið á móti einhverju þarf maður sjálfur að vera mót-
tak, maður þarf að verða ílát reynslunnar. Þetta ílát sem maður verður er
smíðað úr fyrstu reynslunni, reynslunni af fólkinu sem var manni nær í
bernskunni, af staðnum sem maður var á, af tímanum sem maður lifði.
Þegar þetta ílát er einu sinni orðið til verður það meðferðis manni á öll-
um leiðum uppfrá þ\ í og safnar í sig öllu því sem rnaður verður áskynja
um heiminn og lífið. Sá fróðleikur tekur ævinlega lögun, lit og bragð af
ílátinu. Engir tv'eir sjá með sörnu augunum. Þess vegna ljær ein og sama
tunglvélin engum tv'eim sömu viskuna. Þess vegna er þessi tunglvél, sem
ég hef ekki séð áratugum sarnan og löngu er týnd og brotin, enn að
skipta sér af reynslu minni, lita hana og móta.