Dagblaðið Vísir - DV - 09.06.2009, Blaðsíða 21

Dagblaðið Vísir - DV - 09.06.2009, Blaðsíða 21
Ingmar Bergman sagði einhverju sinni, að til að búa til leikhús þyrfti aðeins þrennt: leikara, áhorfanda og hugmynd sem leikarinn miðl- aði áhorfandanum. Ætli Peter Brook hafi ekki átt við eitthvað svipað þeg- ar hann talaði um „Auða rýmið“, sem stundum er vitnað til? Mér hefur oft orðið hugsað til orða Bergmans, ekki síst þegar ég hef gengið út af sýning- um þar sem umgerðin hefur kæft allt inntak – eða, sem er líkast til öllu al- gengara, leyst hina „listrænu að- standendur“ (eins og það heitir ein- att í leikskrám) undan þeirri sáru kvöð að þurfa yfirleitt að vera með nokkurt inntak. Ef allt þetta sem við köllum „umgerð“ er nánast skrapað burt, þá fyrst reynir á bæði skáld og leikara, hvort þeir hafa eitthvað að segja – eða eru bara að þykjast. Jón Atli Jónasson hlífir sér ekki í hinu nýja verki sínu, einleiknum Djúpinu, sem var frumsýndur síð- astliðið föstudagskvöld á Litla sviði Borgarleikhússins. Hann leggur ótrauður á djúpið, en er að vísu ekki einn í för, með Ingvar E. Sigurðs- son í hinu nafnlausa hlutverki sjó- mannsins unga. Og reyndar fleiri góða menn. Sem allir komast heilir í höfn. Djúpið í Borgarleikhúsinu er sigur fyrir alla áhöfnina – en einkum höfund og leikstjóra sem er einn og sami maður. Djúpið er, hvað formið varðar, ákaflega vel samið verk. Ég hef að vísu aðeins séð það einu sinni og ekki lesið það, en á þessari stundu myndi ég lýsa formgerð þess einhvern veg- inn svona: Líkt og tónverk skiptist það í fjóra skýrt aðgreinda kafla, sem er hver öðrum ólíkur; tónlistarfræð- ingur gæti eflaust sett á þá viðeigandi heiti: scherzo, adagio, allegro, largo ... og svo framvegis. Það hefst á stutt- um inngangi, sem er fremur léttur og rétt til að gefa upp sögusviðið og andblæ þess: í vaknandi sjávarþorpi er ungur maður að fara á fætur á leið á sjóinn, svo kemur útstímið ... Ann- ar kafli er hægur, mótífin úr inngang- inum tekin upp og unnin betur; þeg- ar á líður verður hann enn hægari, eins þótt höfundur lífgi upp á hann með svolitlum tilþrifum, sem hann stillir þó mjög í hóf; undir lokin jaðr- ar við að manni sé farið að leiðast, en örvæntið ekki, kæru áhorfend- ur, sá leiði er nauðsynlegur þáttur í vefnum, jafnúthugsaður og allt ann- að: áhorfandinn þarf að fá að finna til þess drungalega doða sem lífið á sjónum ku svo oft vera; lífstíðarland- krabbi eins og ég verður að láta lýs- ingar annarra nægja. Þá, allt í einu, óvænt og undirbúningslaust, verða hvörf, ósköpin dynja yfir, við erum stödd í miðju sjóslysi. Þriðji þáttur er ofsafenginn, ómstríður, fullur af trylltri örvæntingu manns sem berst fyrir lífi sínu, að lokum rennur hann hljóðlega saman við fjórða þáttinn, lokakaflann, sem er ólíkur öllum hinum, óræður, fullur af tilfinninga- legu og myndrænu staccatoi, ófyrir- sjáanlegur í tempói og tóntegundum, víða beinlínis glettinn, launkíminn ... ungi sjómaðurinn berst um í hafinu, hann talar við fuglinn sem virðist fylgja honum, á meðan vitundin ólg- ar og sýður og flæðir stjórnlaust yfir alla bakka, óttinn, sorgin, minning- arnar, allt hið ósagða og ógerða brýst um í kolli hans – í átt að landi, til lífs? Beckett í hafinu við strendur Íslands. Þá sögu, sem skáldið vísar til, eigum við öll að þekkja og óþarfi að nefna nokkur nöfn; hún gerðist fyrir einum tuttugu árum og er á sinn hátt ein af þeim helgisögum sem við höfum eignast, við sem þreyjum við hið ysta haf, svo bundin Djúpinu mikla, hvað sem líður iðnvæðingum og útrásum. Jón Atli Jónasson segir hér skil- ið við allar klisjur þeirra bókmennta sem kenna má við sjómennsku og þorpslíf. Jafnt þær rómantísku sem þær realistísku; realisminn getur sem sé líka orðið klisjukenndur, ekk- ert síður en rómantískan. Hér er ekki verið að syngja hressilega söngva um frelsi sjómennskunnar eða útmála „original karaktera“, sem að sögn þríf- ast í litlum plássum (þar eru heldur engar stofnanir til að setja þá inn á); það er ekki heldur verið að draga upp krassandi myndir af þrældómnum, soranum, ruddaskapnum, ógeðinu, í landi eða úti á sjó. Hversdagslegt lífið í plássinu, það líf sem lagt er að baki þegar haldið er út, það er vissu- lega með þarna, en á einhvern hátt almennt, óljóst, fjarlægt, persónur eru nefndar til leiks, sumar fá jafn- vel nöfn, en við kynnumst þeim ekk- ert nánar, af því að ungi maðurinn, sá sem við fylgjum í þessa för, hann hefur ekki kynnst þeim náið, ekki foreldrum sínum, nágrönnum, hvað þá ungu stúlkunni sem hann hefur horft oftar til en annarra í plássinu. Líf hans hefur bara liðið hjá í viðj- um vanans, deyfð kyrrstöðunnar, á heildina litið fremur gleðisnautt, að því er best verður séð. Og nú er það kannski að verða búið, án þess að hafa í raun nokkurn tímann orð- ið nokkuð. Nei, það er ekki dauð- inn sem er skelfilegur, ekki sem slík- ur; það er sú hugsun „að hafa misst af lífinu“, (tilvitnun eftir minni), að hafa átt svo margt ósagt og ógert, svo margt sem hefði getað gert tilveruna eilítið betri og jafnvel skemmtilegri, hjá manni sjálfum og öðrum, það er hún sem er skelfileg, það er hún sem er þyngri en tárum taki. Öllu þessu skilar Ingvar E. Sig- urðsson eins og við mátti búast af honum. Músíkalitetið svíkur hann hvergi, hann heldur þétt utan um síbreytilegan hugblæ verksins, slær aldrei feilnótu – manni finnst nán- ast óvirðing við hann að hæla hon- um fyrir slíkt, svo sjálfsagt sem það er, hjá öðrum eins virtúós. Hann er sjálfur of gamall í hlutverkið, þetta er maður á milli tvítugs og þrítugs, alls ekki eldri, en eiginlega gerir það ekkert til; Ingvar hefur haldið sér vel líkamlega og á sviðinu er hann á ein- hvern hátt frekar aldurslaus. Persón- an í leiknum, hún getur auðvitað ver- ið hver sem er, hún er við öll – og við öll erum hún. Jón Atli hefur til þessa sýnst vera leitandi höfundur. Það sem ég hef séð frá hendi hans hefur mér fund- ist harla misgott, sumt frekar hrátt og jafnvel eins og hálfkarað. Þetta ber af því öllu, og vekur vonir um að hann eigi eftir að skrifa virkilega gott drama – og þá er ég vitanlega að tala um svona drama með mörgum per- sónum og öllu tilheyrandi, leikmynd og búningaflóru og jafnvel undra- fullu ljósaspili og músík; maður er nú einu sinni þannig gerður að hafa líka gaman af því. Eins þótt „Auða rým- ið“ búi yfir töfrum sem fátt verður við jafnað, þegar þeir leysast úr læðingi. Reyndar er þetta rými kannski ekki eins autt og við fyrstu sýn kann að virðast. Það er að vísu engin „leik- mynd“ í hefðbundnum skilningi, aðeins tómt svið með stólkolli; það mesta sem leikaranum leyfist utan þess er að grípa stutta stund í píanó- garm sem stendur til hliðar, á bak við; maður var farinn að halda að hann hefði gleymst úr öðru leikriti, en nei, þarna er ekkert fyrir tilviljun. Í lýsingunni leikur myrkrið í gímaldi Litla sviðsins stærsta hlutverkið; birt- an er rétt til þess að láta okkur sjá leikarann og fylgjast með honum; að öðru leyti er henni haldið í skefj- um uns hún hverfur alveg að lokum, en þá er þetta líka búið. Þetta rökk- ur verður alltumlykjandi, allt að því kæfandi, sem er við hæfi, því að það kemur innan að, úr verkinu; það er rökkur morgunsins, rökkrið í skips- dallinum, rökkur hafdjúpsins, rökkur minninganna, rökkur hins daglega sljóleika, rökkur hinstu útslokkn- unar. Og utan um og inn í það allt vefst tónlist Hilmars Arnars Hilmars- sonar sem í látleysi sínu og einfald- leik er með því magnaðasta sem ég hef heyrt í íslensku leikhúsi. Mikið er ég annars feginn því að hún skuli ekki vera kölluð „hljóðmynd“ í leik- skránni; það tilgerðarlega orðskrípi hefur vaðið uppi í leikskrám um ára- bil, hver hlustar svo sem á nöldrið í einum krítíker. En úr því það hefur verið sent í frí, þá er rétt að hnykkja á því: við skulum endilega afskrifa það, eins og skuldirnar ... Vitaskuld er hljóðheimur sá, sem Hilmar Örn galdrar hér fram ekkert annað en tónlist, göfug tónlist, samin af alvöru tónskáldi, sem skilur póesíu Jóns Atla og veit að hlutverk hans hér er einungis að þjóna henni. Það er ósvikin list sem í boði er á Litla sviði Borgarleikhússins að þessu sinni. Og óskandi að þjóðin missi ekki af henni í glymjanda sumarsöngleikj- anna – með allri virðingu fyrir þeim. Í miðjum brotsjóum kreppunnar, þeg- ar okkur finnst allt vera að farast og við að missa fótanna, sjáum hvorki til lands né finnum fyrir botni, hvenær ef ekki þá þurfum við að hlusta eft- ir röddum eins og þeirri sem talar til okkar í þessum leik? Það er langt síð- an ég hef staðið upp jafndjúpt snort- inn eftir sýningu á nýju íslensku leik- riti. Lokakaflinn í hinum makalausa flutningi Ingvars hljómar enn innra með mér og ég veit að hann mun gera það langa stund enn. Jón Viðar Jónsson Þriðjudagur 9. júní 2009 21Fókus á þ r i ð j u d e g i Steintryggur á Sódómu Hljómsveitin Steintryggur spilar á tónleikum sem haldnir verða á Sódómu annað kvöld. Einnig koma fram Kippi Kaninus, Borgar Magnason og Gísli Galdur, einnig þekktur sem dj Magic. Yfirskrift tónleikanna er Strum und Klang með vísun í bassann og slagverk- ið sem bera uppi þann hljóðheim sem í boði verður á tónleikun- um. Miðasala er við innganginn og hefjast tónleikarnir klukkan 22. Viktor Skrifar SólStjaka Glæpasagnahöfundurinn Viktor Arnar Ingólfsson vinnur nú að nýrri bók sem væntanleg er á markað með haustinu. Á bloggsíðu sinni í gær greindi Viktor frá því að bókin væri nú búin að fá titil, Sólstjakar. „Titill- inn hefur náð fótfestu eftir að hafa þvælst dálítið fyrir okkur í vor. Hann venst bara vel,“ segir Viktor og bætir við að titillinn sé vísun í tvo kerta- stjaka sem komi við sögu og þeir hafi svo skírskotun í ýmsar áttir. Á meðal þeirra bóka sem Viktor hefur skrifað eru Flateyjargáta og Afturelding en sjónvarpsþáttaröðin Mannaveiðar sem sýnd var á RÚV á síðasta ári var byggð á síðarnefndu bókinni. mæðgur í búri Tímaritið Reykjavík Grapevine og Félag tónskálda og textahöfunda FTT hafa tekið höndum saman um mánaðarlegt tónleikahald. Fyrirbærið heitir Fuglabúrið og munu skipuleggjendur leitast við að brúa kynslóða- og tónbil milli ólíkra og misgamalla listamanna. Tveir listamenn koma fram á hverjum tónleikum og fyrstu fugl- arnir í búrið verða mæðgurnar Ragnhildur Gísladóttir og Bryn- dís Jakobsdóttir. Tónleikarnir fara fram á fimmtudaginn á Rósen- berg við Klapparstíg og hefjast klukkan 21. Miðaverð er þúsund krónur og eru miðar aðeins fáan- legir við inngang. framtíð mynda- Sagnanna Þorgrímur Kári Snævarr hlaut sigur- verðlaunin í myndasögusamkeppni Borgarbókasafns og Myndlista- skólans í Reykjavík. Auk Þorgríms hlutu sex þátttakendur viðurkenn- ingar fyrir framúrskarandi sögur og myndir en keppnin var opin fólki yngra en tuttugu ára. Ríflega sextíu sögur og myndir bárust í keppnina. Í dómnefnd voru þau Björn Unnar Valsson bókmenntafræðingur og myndasöguhöfundarnir Halldór Baldursson og Lóa Hjálmtýsdóttir. Verðlaunafhendingin fór fram í að- alsafni Borgarbókasafns í Grófar- húsi um síðustu helgi og þar hefur nú verið opnuð sýning á verkunum sem bárust í keppnina. Hún stendur til 5. júlí. ingVar í auðu rými LeikféLag reykjavíkur og Strit kynnir: Djúpið eftir jón atla jónasson Leikstjóri: jón atli jónasson Leikmynd og búningar: Leikmynd og búningar: Árni Páll jóhannsson Sviðsumgjörð: Snorri freyr Hilmarsson Lýsing: Þórður orri Pétursson leiklist Djúpt snortinn „Það er langt síðan ég hef staðið upp jafndjúpt snortinn eftir sýningu á nýju íslensku leikriti,“ segir gagnrýnandi í dómi sínum um einleikinn djúpið.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.