Dagblaðið Vísir - DV - 26.04.2010, Blaðsíða 20

Dagblaðið Vísir - DV - 26.04.2010, Blaðsíða 20
HVAÐ VEISTU? 1. Hvað þáði Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingmaður háa upphæð í styrki á árunum 2006-´07? 2. Ný upppfærsla Íslandsklukkunnar var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu um helgina. Bókin kom út í þremur hlutum, á hvaða árum? 3. Hvað heitir bandaríski leikmaðurinn sem gekk til liðs við körfu- boltalið Snæfells fyrir yfirstandandi úrslitaeinvígi við Keflavík? Á MÁNUDEGI 20 MÁNUDAGUR 26. apríl 2010 SVÖR: 1. TÆPAR ÞRETTÁN MILLJÓNIR KRÓNA. 2. 1943-´46. 3. JEB IVEY. Þjóðleikhúsið er sextugt og frumsýndi af því tilefni nýja leikgerð af Íslands- klukkunni á fyrsta degi sumars. Bene- dikt Erlingsson er höfundur hennar og leikstjóri. Það er sitthvað gott um verk hans að segja, þó að það sé einnig harla gloppótt. Þetta er ekki leiðinleg sýn- ing, ólíkt fyrri leikgerðum sögunnar, sem voru flestar afspyrnu þyngslaleg- ar. Hún gengur vel yfir sviðið, eins og menn sögðu á meðan enn tíðkaðist að sletta dönsku. Nú sletta menn ensku, en í gamla daga, á tíma Árna Magnús- sonar, slettu menn latínu. Íslendingar hafa alltaf slett, og þó lifir tungan. Er nokkur vottur ljósari um það en ein- mitt Íslandsklukkan? Ég ætla að byrja á því sem mér finnst best við sýninguna, og það er hversu vel er farið með texta skáldsins. Bene- dikt og hans fólk hefur bersýnilega ekki kastað höndum til þess sem er sérlega lofsvert. Leiklistarskóli Íslands, sem nú heitir skrýtnu stofnanalegu nafni, hefur á liðnum árum sætt mikilli og réttmætri gagnrýni fyrir að vanrækja kennslu í meðferð íslenskrar tungu. Sú gagnrýni hefur verið einna hörðust meðal eldri leikara okkar, fólksins sem fékk fyrstu undirstöðu fagmennskunn- ar hjá Lárusi Pálssyni, þeim góða leik- húsmanni og mikla uppalanda. Það hefur ekki mikið verið að hlaupa í fjöl- miðla með þessa óánægju sína, en það hefur aldrei legið á henni í samtölum. Að þessu sinni ber svo við að nán- ast hvert orð skilst og mörg snjöllustu orðsvör leiksins hitta beint í mark, svo að stundum fer kliður um salinn. Ís- landsklukkan, verkið um niðurlægingu þjóðarinnar undir oki erlends valds, eymd hennar og reisn, á fullt erindi við okkur nú; gamalkunnar setningar eiga jafnvel til að hljóma eins og nýjar, í ljósi nýfenginnar og ömurlegrar reynslu. Þetta er mjög leikhúsleg sýning; við erum sífellt minnt á það í hvaða húsi við erum stödd. Þjóðleikhúss- tólarnir með grímunum klassísku eru komnir upp á svið, að vísu á hjólum, og á fleygiferð allan tímann. Leikstjór- inn gefur öllum natúralisma eins langt nef og hann frekast getur. Á Þingvöll- um er Jón Hreggviðsson ekki geymd- ur í tjaldi nóttina áður en á að höggva hann, heldur ofan í holræsi, að því er best verður séð; Jón gamli úr Kjósinni (Erlingur Gíslason með gamalkunna takta) dregur hann upp úr því þegar Snæfríður kemur að leysa hann. Þeg- ar Kaupinhöfn brennur er hlaupið með púðurdæluna um sviðið og gam- aldags stormvélar keyrðar inn með hávaða og látum. Í Þingvallaatriðum birtist innrammað landslagsmálverk í freymóðskum stíl á baksviði. Bóka- stofa Arnæusar er eins og skopmynd af fornbókasölu, bókahrúgurnar úti um allt. Þannig mætti áfram telja. Mús- íkantar eru á sveimi að fremja ýmiss konar músík, oftast í þjóðlegum anda; þeir setja sterkan svip á sýninguna, kalla fram viðeigandi hugblæ. Bún- ingar Helgu Björnsson eru hreinasta augnakonfekt, ekki síst kjólar Snæfríð- ar, og umgerð Finns Arnars smekkleg og vel hugsuð að vanda. Það væri hægt að skrifa sérstakan leikdóm um hvoru tveggja, en ég geri ekki ráð fyrir að rit- stjórn DV leyfi mér það. Frammistaða leikenda er hins vegar óhemju misjöfn sem að nokkru stafar af sérkennilegu og mjög umdeilanlegu leikaravali. Ingvar E. Sigurðsson skarar fram úr í hlutverki Jóns Hreggviðsson- ar. Hann nær vel umkomuleysi múga- mannsins, en um leið slægni hans, stolti og skapri eðlisgreind. Það var að- eins á stöku stað – einkum í hinu langa samtali þeirra Snæfríðar í öðrum þætti – að Ingvar virtist ekki alltaf halda fók- usi og textinn jafnvel vefjast eilítið fyrir honum. En slíkt heyrði til undantekn- inga og mér þykir ekki ólíklegt að leikur Ingvars eigi eftir að batna þegar sýning- um fjölgar. Lilja Nótt Þórarinsdóttir, sem leikur Snæfríði, er ung leikkona og lítt reynd. Það er auðvitað djarft að setja slíkan kraft í svo viðamikið hlutverk, en þeg- ar á allt er litið kemst Lilja Nótt þokka- lega frá því. Hún hefur geðþekka sviðs- framkomu og yfirleitt skýran talanda. Persónan er frá hendi Kiljans kynlegt sambland af hrokafullri yfirstéttarkonu einveldistímans, fornlegri kvenhetju og ljóðrænni huldukonu. Einn feg- ursti kafli sögunnar er lokakafli Hins ljósa mans, þegar dæmdu konurn- ar færa Snæfríði í druslurnar af sér og Jón Hreggviðsson gengur fram á hana þannig búna þar sem hún situr utan götunnar. Hér eru þær dæmdu látn- ar ráðast á Snæfríði með ofstopa og argi og tæta hana úr fötunum. Þetta er búraleg skrumskæling sem fer þvert gegn anda verksins. Íslandsklukkan fjallar umfram allt um þjáningar ís- lenskrar alþýðu; skáldið „ídealíserar“ hana ekki, en það narrast aldrei að henni. Að Ingvari frátöldum sýndi eng- inn af leikendum þetta betur en hún Herdís okkar Þorvaldsdóttir í hlutverki móður Jóns bónda. Lýsingin á ferða- lagi gömlu konunnar á fund Snæfríð- ar er líka einn af hátindum sögunnar; einn af þessum köflum í verkum Hall- dórs sem maður getur lesið aftur og aft- ur og einlægt orðið jafn snortinn. Leik- ur Herdísar sýndi hvernig mikill leikari, sem skilur póesíuna með hjarta sínu, getur gert örsmátt hlutverk risastórt. „Sjaldan mun nokkur kona að sunnan hafa farið jafn langt austur ... “ hvern- ig hún sagði þessa setningu á hlaðinu í Skálholti; það var einfaldleikinn sjálfur og opnaði manni sýn beint inn í tilfinn- ingalega kviku verksins. Ég er ekki eins hress með þriðja að- alleikarann, Björn Hlyn Haraldsson í hlutverki Arnasar Arnæusar. Björn Hlynur er fallegur maður á leiksviði, fríður sýnum og ber sig vel, sannkall- aður sviðssjarmör, einn sá flottasti sem við eigum. En túlkun hans á Arnasi er gersamlega flöt og ástríðulaus. Þó eru það ástríðurnar sem reka Arnas áfram og einar gera hann skiljanlegan. Hann er ástríðufullur bókaunnandi og það á að sjást á því hvernig hann handfjatlar skræðurnar sínar. Hann elskar Snæ- fríði auðvitað út af lífinu og hún hann á móti. En þann ástarblossa vantaði hér með öllu, líka af hálfu Snæfríðar. Þau voru eins og feimnir unglingar sem eru svona að gefa hvort öðru auga, krakkar í ábyrgðarlausu ástarfikti undir skóla- veggnum. Átakanlegast verður þetta á fundi þeirra í öðrum þætti, er þau hittast eftir langan og örlagaríkan að- skilnað: þau spjalla saman, svo bara allt í einu vippa þau sér upp í rekkjuna og draga fyrir. Bingó! Samtalið í loka- þættinum var jafn steindautt, enginn harmur, engin þrá. Ég hneigist til að skrifa þetta fremur á reikning Björns Hlyns sem var allan tímann eins og ut- angátta í hlutverkinu, þuldi textann án nokkurrar dýpri innistæðu – svo ég noti orðalag sem Gísla heitnum Halldórs- syni, einum besta persónuleikstjóra sem við höfum átt, var tamt. Jafn óhress er ég með það uppá- tæki Benedikts að láta kvenmann leika Jón Grinvicensis. Ilmur Kristjánsdótt- ir gerir sér að vísu far um að vanda sig; það væri rangt að áfellast hana fyrir það sem misferst. En Jón er ein af mik- ilvægustu persónum verksins; um það mun engum blandast hugur sem sá Lárus Pálsson leika hann á sínum tíma eða hefur heyrt leik hans í upptökunni af fyrstu sýningu leiksins. Orðaskipti þeirra Jóns og Arnæusar undir leiks- lok í túlkun Lárusar og Þorsteins Ö. Stephensens; hver getur gleymt þeirri snilld sem á hefur hlýtt?! „Minn herra á aungvan vin ... “ mér vöknar alltaf um augu þegar ég heyri Lárus segja þetta. Hér varð Jón eins og hvert annað skrípó sem er afleitt, því að þannig er hann alls ekki hugsaður. Mér hefur alltaf fundist dómkirkju- presturinn, Sigurður Sveinsson, ein snjallasta mannlýsing verksins – og raunar ein af bestu persónum Hall- dórs. Hann var líka túlkaður eftir- minnilega í gömlu sýningunni af Jóni Aðils; ískyggilegur, slóttugur, harðsvír- aður og harðgreindur fulltrúi hins lúth- erska rétttrúnaðar – og þó á einhvern hátt mannlegur í einsemd sinni, ekki óáþekkt Grinvicensis. Djúp tilfinning undir köldu yfirborði. Benedikt læt- ur Jón Pál Eyjólfsson leika klerkinn. Í meðförum Jóns Páls, sem mér hef- ur annars þótt álitlegur leikari, verð- ur séra Sigurður eins og hvert annað „creep“ (þið afsakið slettuna), aldrei hættulegur eða ógnvekjandi. Og loka- atriðið, þegar hann hefur loksins krækt í Snæfríði, var kauðslega sviðsett; þau hjónin birtast til hliðar úti í sal, eins og þau séu á leið upp á sviðið, snúa svo við og hypja sig burt. Það er bara ekki hægt að enda þetta stórkostlega verk svona! Ekki náði ég því heldur hvers kon- ar manni Stefán Hallur Stefánsson var að lýsa í gervi Jóns Marteinsson- ar, hins íslenska eilífðarútlaga á kaldri Hafnarslóð. Stefán Hallur hefur þreyt- andi einhæfan talanda; ég myndi ráð- leggja honum að leita sér hjálpar með það, til dæmis hjá einhverjum af okk- ar góðu eldri leikurum sem enn kunna að tala og ég veit að hafa yndi af því að miðla ungviðinu af þekkingu sinni og reynslu. Aftur á móti var Björn Thors hreint afbragð sem Magnús í Bræðra- tungu, óhugnanlegur og brjóstum- kennanlegur í senn, rétt eins og þessi ógæfumaður á að vera. Það eru einmitt slík karaktérhlutverk sem henta Birni vel. Og ekki brást annar góður karakt- érleikari, Arnar Jónsson, í hlutverki Ey- dalíns lögmanns. Það var vel til fund- ið að láta kallinn vera þéttan á fundi þeirra Snæfríðar í fyrsta þætti. Og snilldarvel sýndi Arnar reisn lögmanns og viðkvæmni í niðurlægingu hans eftir dómsuppkvaðninguna. Guðrún S. Gísladóttir hefur frábært gervi í frú Arnæusar, en það vantaði einhvern herslumun í leikinn; eins og leikkon- an væri ekki fyllilega búin að laga grót- eskt gervið að innlifun sinni í tilfinning- arnar, sem þrátt fyrir allt bærast með þessari ólánlegu konu. En Guðrún er á réttri leið og getur vel átt eftir að ná betri tökum á hlutverkinu. Ég gekk út af þessari sýningu með afar blendnum tilfinningum. Það er margt ágætt og sumt reglulega snið- ugt í henni. En það er líka margt til- gerðarlegt, þó að tilgerðin verði sjald- an yfirþyrmandi og skýri vart ein og sér hversu lítt maður er snortinn þegar upp er staðið. Var þetta í raun og veru nokkuð Íslandsklukkan sem þarna hljómaði? Hvar var Valdið, hið misk- unnarlausa þjóðfélagslega vald, sem er yfir og allt um kring í sögunni? Ekki var það í mynd etatsráðsins, sem Ólafur Darri Ólafsson var látinn gera að hlá- legu viðrini, slafrandi í sig sultutauið, svo mikið er víst. Hvar var sorgin, reið- in og sársaukinn, hinn duldi sársauki, sem mynda volduga undiröldu skáld- verksins? Við fundum fyrir henni hjá stöku leikanda, sem áður segir, en það nægði ekki þeim áhorfanda sem hér hefur orðið. Sýningunni var vel tekið og í lok- in risu menn úr sætum og klöppuðu. Það er að verða lenska hér á leiksýn- ingum og tónleikum að salurinn er að standa upp í tíma og ótíma, eins þótt engin stórafrek hafi verið unnin. Kannski er fólk svona þakklátt fyrir að hafa ekki þurft að sitja undir leiðindum og bulli, eins og svo oft hefur verið í ís- lensku leikhúsi á síðari árum. En þetta er samt ekki rétt. Hvað eigum við þá að gera þegar leikhúsinu tekst að gera eitthvað virkilega gott – sem við hljót- um að vona að einhvern tímann verði? Hoppa upp á stólbök og sætisarma eða upp á sviðið? Að lokum legg ég til að upptakan á sýningunni frá 1950, sem ég hef vís- að hér ítrekað til, verði endurútgef- in á geisladiskum. Hún er ekki full- komin, en í henni eru samt ýmsir af „gömlu leikurunum“ okkar upp á sitt besta. Um leið mætti gefa út Gullna hliðið með Arndísi, Brynjólfi og Lárusi. Fálkinn gaf þessar hljóðritanir út á sín- um tíma á plötum, en þær eru að sjálf- sögðu löngu ófáanlegar og ærin ástæða til að gefa yngri kynslóðum aðgang að þeim. Jón Viðar Jónsson Holræsi Á ÞINGVÖLLUM ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ: ÍSLANDSKLUKKAN eftir Halldór Laxness Leikgerð og leikstjórn: Benedikt Erlingsson Leikmynd: Finnur Arnar Arnarsson Búningar: Helga Björnsson Tónlist á sviði: Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson Lýsing: Halldór Örn Óskarsson og Lárus Björnsson LEIKLIST

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.