Dagblaðið Vísir - DV - 17.12.2012, Blaðsíða 8

Dagblaðið Vísir - DV - 17.12.2012, Blaðsíða 8
8 Fréttir 17. desember 2012 Mánudagur É g hugsaði bara um börnin mín, hvað ef ég hefði lent með haus­ inn á steini og skaðast? Ég er heppin að vera á lífi og að ekki fór verr. Það var svo skrýtið að ég var róleg allan tímann og aldrei hrædd,“ segir Díana Júlíusdóttir, flugfreyja og fjallgöngugarpur, sem á laugardaginn kastaðist um 80 metra niður snarbratta hlíð á Vatnshlíðar­ horni við Kleifarvatn, fyrst í gegn­ um snjó og síðan grjót. Þar var hún stödd ásamt 85 manna hópi 52 fjalla klúbbsins sem er á vegum Ferða­ félag Íslands en fjallið var númer 51 af þeim 52 fjöllum sem hópurinn klífur á árinu. Tveir aðrir í hópnum slösuðust og annar þurfti að dvelja á sjúkrahúsi yfir nótt. Mikil mildi þykir að Díana slapp jafn vel frá slysinu og raun ber vitni en hún er óbrotin, en töluvert marin og getur ekki stigið í fæturna. Á 30 kílómetra hraða „Ég hef gengið við mjög erfiðar að­ stæður og er orðin nokkuð vön. Áður en við hófum gönguna horfði ég á fjallið og hugsaði: „Þetta verður lítið mál, þetta er svo létt fjall, við erum enga stund að fara þarna upp“,“ segir Díana. Hópurinn gekk upp fjallið en þegar ofar var komið sáu þau að að­ stæður voru nokkuð erfiðar, bæði var snjór og ís, sterkur norðanvindur og erfitt færi. Þá sneru þeir sem ekki voru með brodda á skóna sína við. „Ég var ekki með broddana mína og var í þann mund að snúa við. Þá kom vinkona mín í hópnum og sagði mér að hún ætlaði að snúa við og ég mætti fá broddana hennar. Hennar broddar eru minni en mínir og ná ekki alveg utan um skóna mína eins og mínir gera.“ Díana gekk því alla leið upp á topp en það var á leiðinni niður sem óhappið átti sér stað. Hvasst hafði verið uppi á fjallinu en skyndilega bætti í vindinn og illa stætt varð meðal göngumannanna. Rökrétt hugsun allan tímann „Allt í einu kom alveg rosalega vind­ hviða sem feykti mér úr röðinni. Ég datt og snéri mér strax á kviðinn því ég vissi að það var ekkert sem ég gat gert en ef ég hefði verið á bakinu þá hefði verið líklegra að ég hefði fest með broddana í harðfenninu og jafnvel brotnað. Ég var með tvo stafi með mér og ég reyndi alltaf að negla stafnum í harðfennið með þeim sem ég hélt á í hægri hendi en náði aldrei að festa hann. Ég fór svo bara hraðar og hraðar og var kominn á ábyggi­ lega 30 kílómetra hraða. Þegar ég sá að ég náði ekki að festa stafina í harðfennið þá hugsaði ég að fljótlega myndi ég lenda í grjótinu og setti því hendurnar fyrir andlitið þegar ég sá að ég gat ekki stoppað mig. Ég vildi vernda höfuðið enda rifnaði ég ekk­ ert í andlitinu heldur fékk bara smá skrámur.“ Hún segist hafa haldið yfirvegun allan tímann og reynt hvað hún gat að hlífa höfðinu. „Ég var með rök­ rétta hugsun allan tímann og passaði bara að hlífa höfðinu.“ Gekk til baka Loks nam Díana staðar í grjóturð og þurfti að bíða í skamma stund eftir að fararstjórar hópsins kæmu henni til aðstoðar. Þá höfðu þeir kallað eftir aðstoð björgunarsveita en Díana sagðist ekki þurfa á þeirri aðstoð að halda og gekk sjálf með fararstjórun­ um niður af fjallinu. „Þeir voru mjög fljótir að koma til mín. Ég fann strax að höfuðið var í lagi en búkurinn var alveg tættur og ég fann strax verki. Það blæddi inn á vinstra lærið, það bólgnaði mjög mikið en ég vissi ekki af því fyrr en ég kom upp á spítala. Ég gekk með þeim niður af fjallinu en ég get ekki stigið í lappirnar í dag, þarna var bara adrenalínið svo mikið. Þegar fararstjórarnir komu þá sagði ég bara að það þyrfti enga björgunarsveit því mér fannst adrenalínið það mikið hjá mér að ég gat alveg gengið. Með skemmtilegum sögum þá gleymdi ég alveg að ég væri að ganga,“ segir hún. Þegar niður af fjallinu var komið var sjúkrabíll kominn á staðinn sem flutti hana og tvo aðra göngumenn upp á spítala þar sem gert var að sárum þeirra. Annar þeirra tveggja dvaldi á sjúkrahúsinu yfir nótt en sauma þurfti sár hans. Lurkum lamin Díana var útskrifuð síðar sama dag en hún var öll blá og marin og mjög aum í líkamanum og gengur nú við hækjur. „Ég er lurkum lamin en er bara heppin að ég brotnaði ekki. Ég er á sterkum verkjalyfjum en finn samt til og verkjar við hverja hreyfingu. Ég passaði höfuðið vel og ég brást hárrétt við og ég held það hafi bjargað mér hvað ég er andlega og líkamlega í góðu formi. Ég er búin að vera að hugleiða í dálítinn tíma og svo er ég búin að ganga á fjöll síðan í janúar,“ segir hún. Díana segir það líka hafa hjálpað sér hversu vel búin hún var, í þykkum og góðum fatnaði sem verndaði hana. „Ég var í réttum búnaði og ég veit það núna að það skiptir gífurlega miklu máli og hafði mikið um það að segja að ekki fór verr. Svona búnað­ ur er dýr en hverrar krónu virði. Fötin eru alveg í rúst, öll tætt. Ég get ekki notað þau meira.“ Hún segist þó hafa viljað hafa exi með sér og segir það jafnvel hefði getað hjálpað sér. „Ég hefði viljað hafa exi með mér frekar en stafina, ef maður getur fest hana þá getur það bjargað manni í svona aðstæðum.“ Ekki hætt fjallgöngu Þegar á spítalann var komið segist Díana fyrst hafa áttað sig almenni­ lega á því hvað hefði gerst og þá fengið smá áfall. „Þegar ég var ein þar þá áttaði ég mig á þessu og hugsaði um börnin mín og var svo fegin að minn tími var ekki kominn enn. Þegar maður lendir í svona sér maður algjörlega hvað það er sem skiptir öllu máli í lífinu,“ segir Díana sem er fráskilin þriggja barna móðir. Þrátt fyrir óhappið segist hún þó hvergi nærri hætt að ganga á fjöll heldur sé hún reynslunni ríkari og hlakkar til að fara í næstu fjallgöngu. Það verður fjall númer 52 sem hópurinn gengur saman og Díana er staðráðin í að klára verkefnið, jafnvel þó hún þurfi að ganga upp á hækjum. „Ég ætla að fara í fleiri fjallgöngur, þetta stoppar mig ekki í því. Ég er reynslunni ríkari og betur undir þetta búin. Þetta er bara slys og slys gerast. Þetta bara hvetur mig áfram og kennir mér. Næsta fjall­ ganga er á gamlársdag og ég ætla með, ég fer þá bara á hækjunum. Það er létt ganga þannig að ég kemst með.“ n „Heppin að vera á lífi“ n Díana kastaðist 80 metra niður fjallshlíð n Reyndi að verja höfuðið Viktoría Hermannsdóttir blaðamaður skrifar viktoria@dv.is „Ég var róleg allan tímann og aldrei hrædd. „Fegin að minn tími var ekki kominn Fyrir slysið Hér er Díana uppi á fjallinu skömmu áður en hún kastaðist niður bratta fjallshlíðina eftir vindkviðu.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.