Dagblaðið Vísir - DV

Ulloq
Ataaseq assigiiaat ilaat
Tidligere udgivet som

Dagblaðið Vísir - DV - 05.08.2011, Qupperneq 36

Dagblaðið Vísir - DV - 05.08.2011, Qupperneq 36
36 | Sakamál 5.–7. ágúst 2011 Helgarblað M ichael Robert Ryan var 27 ára, atvinnulaus og braskaði með fornmuni þegar hann fór yfir um 19. ágúst árið 1987. Hann ólst upp hjá móður sinni og á sínum tíma leiddu bresk dagblöð getum að því að samband mæðginanna hefði verið „óheilbrigt“ og The Guardian sagði hann hafa verið „mömmust- rák“. Hvað sem slíkum vangaveltum líður er ljóst að þegar Michael hafði aldur til keypti hann haglabyssu og hóf að safna fleiri vopnum sem hann stillti stoltur upp í glerskáp í svefn- herbergi sínu. Hver veit nema vopn- in hafi fyllt hann tilfinningu valds og öryggis sem hann annars skorti. Til að bæta gráu ofan á svart byrj- aði hann að spinna upp sögur og guma sig af verkum sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum; að hann hefði verið í fallhlífaherdeild breska hersins, að hann ætti skotvopna- verslun og fleira í þeim dúr. Fylltist Michael gjarna mikilli reiði ef fólk bar brigður á sannleiksgildi raups hans. Árátta hans hvað hermennsku varðaði varð til þess að hann keypti sér herjakka, búnað af því tagi sem hermenn nota til að komast af í óbyggðum og fleira í þeim dúr. Þegar hann framdi fjöldamorðið átti hann og hafði leyfi fyrir sex skotvopnum, þar á meðal Beretta-skammbyssu og tvo hálfsjálfvirka riffla. „Svartklæddur maður skaut mömmu“ Fyrsta fórnarlamb Michaels Roberts Ryan var Susan Godfrey sem hafði farið í lautarferð til Wiltskíris, um 11 kílómetrum vestur af Hungerford, með tveimur börnum sínum, 4 og 2 ára. Michael beindi byssu sinni að Susan, skipaði henni að setja börnin í aftursæti bifreiðar hennar, rak hana síðan inn í nálæga runna og skaut hana þrettán skotum í bakið. Lögreglan fékk vitneskju um morðið eftir að börn Susan báru sig upp við aldraða konu sem var þarna ein á ferð og sögðu: „Svartklæddur maður skaut mömmu.“ Lögregluyfirvöld voru vart búin að bregðast við tíðindunum þegar Michael Robert gekk berserksgang og fjöldamorðið hófst fyrir alvöru. Eftir að hafa banað Susan ók Michael sem leið lá til Hungerford og á bensínstöð í þriggja kílómetra fjarlægð frá bænum gerði hann mislukkaða tilraun til að skjóta af- greiðslustúlkuna og lét gott heita og hélt för sinni áfram til Hungerford. Mótorhjólakappi sem var staddur á bensínstöðinni varð vitni að morðtil- rauninni, hafði samband við lögregl- una og tilkynnti um atvikið. Skaut á allt sem hreyfðist Um hádegisbil urðu nágrannar Michaels varir við hann þegar hann kom heim til sín og setti fjölda vopna í Vauxhall-bifreið sína. Honum til mikillar gremju vildi bíllinn ekki fara í gang og skaut hann þá fimm skot- um inn í hann. Síðan rauk hann inn til sín og lógaði hundinum sínum. Til að fullkomna verkið skvetti hann bensíni víða um heimilið og bar síð- an eld að. Þetta fór að sjálfsögðu ekki fram hjá nágrönnunum sem höfðu samband við lögregluna. Meðan logarnir sleiktu heimili Michaels sótti hann haglabyssur í far- angursrými bifreiðar sinnar og myrti síðan nágrannahjónin, Roland og Sheilu Mason. Að því loknu lagði Michael af stað fótgangandi og vel vopnum bú- inn. Marjorie Jackson særðist þegar hann skaut á hana þar sem hún fylgd- ist með ferðum hans úr stofuglugg- anum og með bros á vör skaut hann Lisu Mildenhall, fjórtán ára stúlku, í fótleggina þar sem hún stóð fyrir utan heimili sitt. Þrátt fyrir að Marjo- rie væri særð tókst henni að draga 77 ára lífeyrisþega, Dorothy Smith, í var og hringdi síðan í David White, vinnu- félaga eiginmanns síns Ivors, og sagði sínar farir ekki sléttar. White bauðst til að aka með Ivor á staðinn. Næst varð á vegi Michaels fjöl- skylda sem var á röltinu með hund sinn. Þegar fjölskyldufaðirinn, Ken- neth Clements, sá Michael gráan fyr- ir járnum rétti hann hendurnar upp í uppgjöf en fjölskyldu hans tókst að hlaupa í skjól. Michael hundsaði upp- gjafartilburði Kenneths og skaut hann á staðnum. Lögreglumaðurinn Roger Brere- ton varð næsta fórnarlamb Michaels. Michael skaut 24 skotum að bifreið Breretons sem dó án þess að komast út úr bifreiðinni. Mæðgur, White og Ivor Mæðgurnar Linda Chapman og Alison dóttir hennar sluppu með skrekkinn þar sem þær óku um í mestu makindum. Michael skaut 11 skotum að bifreiðinni og hitti Alison í mjöðmina og Lindu í vinstri öxl. Á meðan Michael hlóð byssu sína tókst þeim að komast undan á bílnum. Þegar þar var komið sögu komu Da- vid White og Ivor Jackson akandi. Michael hafði engar vöflur á og skaut David til bana undir stýri með þeim afleiðingum að bíllinn endaði á lögreglubifreið Breretons. Ivor fékk fjögur skot í sig og þóttist vera dauður. Og áfram hélt Michael; Abdul Rahman Khan var skotinn til bana þar sem hann sló garðinn sinn og nágranni hans, Alan Lepetit, særður. Það var kaldhæðnislegt að Lepetit hafði aðstoðað Michael við að smíða glerskápinn fyrir vopn hans. Sjúkraflutningamaður sem kom á svæðið slapp með skotsár, en þá hafði fjölda fólks borið að enda datt engum í hug að þarna ríkti skálmöld. Á meðal þeirra sem bar að var móðir Michaels og sjónin sem mætti henni þegar hún nálgaðist heimili þeirra var ekki falleg; heimilið í ljós- um logum, dauðir og slasaðir eins og hráviði, sonur hennar með alvæpni og Ivor Jackson illa haldinn í bifreið Davids White. „Ó, Ivor,“ sagði hún þegar hún opnaði bíl Whites. Síðan reyndi hún að koma vitinu fyrir son sinn, en bænir móður höfðu engin áhrif á soninn sem skaut hana til bana og særði síðan Betty Tolladay, ná- grannakonu sem hafði ekki gert sér grein fyrir alvöru málsins og lesið honum pistilinn. Fleiri fórnarlömb og sjálfsmorð Lögreglan gerði sér grein fyrir því að hér dygðu engin vettlingatök og að vopnaðra lögreglumanna væri þörf, en vopnabúr lögreglunnar í Hunger- ford dugði ekki til. Ekki var það til bóta fyrir lögregluna að fréttamenn fjölmenntu á svæðið bæði í þyrlum og bílum enda mikill fréttamatur í boði. Michael Robert Ryan gat enn óhindrað haldið voðaverkum sín- um áfram sem hann og gerði. Hann skaut á allt kvikt sem varð á vegi hans. Sumir sem hann gekk fram á sluppu sárir en aðrir voru ekki svo lánsamir. Enn aðrir voru svo lán- samir að skot hans geiguðu eða þeim tókst að komast í var. Þegar öll kurl voru komin til graf- ar var ljóst að Michael hafði orðið sextán manns að aldurtila og fimm- tán manns höfðu hlotið sár. Undir lok þessa hildarleiks kom Michael sér fyrir í skólabyggingu sem þá var auð vegna sumarleyfa. Lögreglan umkringdi bygginguna og samningaviðræður hófust. Þær báru engan árangur og undir lok þeirra varð Michael að orði: „Ástandið í Hungerford hlýtur að vera slæmt núna. Ég vildi óska að ég hefði ekki farið á fætur í morgun.“ Skömmu síð- ar, rétt fyrir klukkan sjö um kvöldið, framdi Michael sjálfsmorð. Hryllingur í Hungerford n Hungerford-fjöldamorðið átti sér stað í Berkskíri á Englandi n Ódæðismaðurinn var með hermennsku á heilanum n Fjöldamorðið var það fyrsta sinnar tegundar í Bretlandi Í ljósum logum Michael Robert skaut hundinn sinn og bar síðan eld að heimili sínu.„Ástandið í Hunger- ford hlýtur að vera slæmt núna. Ég vildi óska að ég hefði ekki farið á fætur í morgun. Michael Robert Ryan Hafði mikið dálæti á skotvopnum og áhuga á hernaði. n Greip til óhefðbundinna ráða vegna vangoldinnar leigu Óvenjuleg gíslataka L eigusali í Eriknauer, bæ norður af Hedensted í Danmörku, brá á heldur óvenjulegt ráð vegna vangoldinnar leigu. Húsnæð- ið sem um ræðir er lagergeymsla og leigutakinn, Ladies Master, hafði dregið úr hömlu að gera upp húsa- leiguna. Ladies Master ku höndla með það sem gjarna er nefnt kynlífs- leikföng eða hjálpartæki ástarlífsins. Einn góðan veðurdag hurfu úr hillum geymslunnar kynlífsleik- föng að verðmæti þriggja milljóna danskra króna, eða sem samsvar- ar um sextíu og sex milljónum ís- lenskra króna. Leigusalinn hafði ákveðið að grípa til sinna ráða og fjarlægði gervilimi og fleiri leikföng með það fyrir augum að halda góss- inu sem gíslum þar til leiguskuldin yrði gerð upp. Frá þessu var greint í dagblaðinu Vejle Amts Folkeblad í Vejle í Dan- mörku og kom fram að lögreglan hefði í upphafi rannsakað málið sem rán og í blaðinu er haft eftir að- stoðarlögreglustjóranum Lars Peder Madsen að þegar ljóst var um hvað allt saman snérist hefði lögreglan ákveðið að blanda sér ekki í málið, því ekki væri um að ræða þjófnað „… heldur sjálftöku, og það er mál sem við blöndum okkur ekki í.“ Í Vejle Amts Folkeblad var einn- ig vitnað í ónafngreindan leigusala sem tengist lagerhúsnæðinu í Erik- nauer og staðfesti hann, samkvæmt blaðinu, að leigusalinn hefði í raun tekið mikinn fjölda gervilima í gísl- ingu vegna deilu leigusalanna og leigutakans. Að sögn umrædds leigusala mun vera búið að skila öllum gervilim- unum og öðrum kynlífsleikföngum sem nú fylla enn á ný fjölmargar hill- ur geymslunnar. „Það er fundin lausn í deilunni. Þeir [Ladies Master] hafa fengið hlutina sín til baka og við höfum fengið fjármuni okkar,“ er haft eftir leigusalanum í dagblaðinu. Ekki fylgir sögunni hvort haft hafi verið í hótunum um að taka gervi- limina af lífi, einn af öðrum, ef ekki yrði orðið við kröfum leigusalans. En málið fékk í það minnsta farsæl- ar lyktir. Hjálpartæki ástarlífsins Gervilimir geta verið jafn vænlegir til árangurs og lifandi fólk þegar gíslataka er annars vegar.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.