Dagblaðið Vísir - DV - 07.01.2013, Síða 4
4 Fréttir 7. janúar 2013 Mánudagur
Engar langtímaáætlanir
n Hækkun sjávarstöðu getur orðið verulegt vandamál
S
igurður Reynir Gíslason jarð-
vísindamaður dró upp dökka
mynd af framtíðinni ef kolefn-
isbrennsla heldur áfram að
aukast í heiminum án aðgerða. Í
helgarviðtali við DV ræddi hann um
framtíðarborgina Reykjavík og lýsti
því hvernig landslag borgarinnar
gæti breyst með hækkandi sjávar-
stöðu og hlýnun andrúmslofts á
þessari öld.
Við eftirgrennslan um langtíma-
áætlanir íslenskra sveitarfélaga um
loftslagsvandann kom í ljós að slíkar
áætlanir hafa ekki enn verið gerðar
fyrir Reykjavíkurborg þrátt fyrir að
spár vísindamanna geri almennt
ráð fyrir því að hluti miðborgarinnar
verði á næstu öld umflotinn vatni. Á
því svæði sem verður umflotið vatni,
ef spár rætast, verður nýtt háskóla-
sjúkrahús.
Sveitarfélögin eru þó í vaxandi
mæli farin að huga að neikvæðum
áhrifum loftslagsbreytinga og hafa
þrýst á um aukna aðkomu að heims-
ráðstefnum. Samband sænskra
sveitarfélaga hefur til að mynda vilj-
að sitja slíkar ráðstefnur.
Þrátt fyrir að enn hafi ekki verið
hugað að langtímaáhrifum lofts-
lagsbreytinga í áætlun hefur Reykja-
víkurborg, eitt sveitarfélaga, mót-
að sér stefnu í loftslagsmálum en
loftslags- og loftgæðastefna Reykja-
víkur, Framtíðin liggur í loftinu, var
samþykkt í borgarstjórn Reykjavík-
ur í september 2009. Meginmarkmið
hennar er að draga úr losun gróður-
húsalofttegunda og bæta loftgæðin í
borginni. Losunin er fyrst og fremst
vegna bílaflotans en á hverju ári
losar hver íbúi þrjú tonn af koldíoxíði
út í andrúmsloftið. Reykjavíkurborg
er einnig aðili að Loftslagssáttmála
sveitarfélaga í Evrópu. n
Fjármunir teknir út
úr Gunnars Majonesi
n Dularfullur rekstur n Kleópatra Stefánsdóttir á launum en vinnur ekki
Þ
að er bara búið að rústa félagið.
Það er ekkert flóknara en það,“
segir heimildarmaður DV um
matvælafyrirtækið Gunnars
Majones í Hafnarfirði. Fyrir-
tækið framleiðir þekktustu majónes-
tegund landsins, Gunnars Majones,
og hefur félagið verið starfrækt síðan
árið 1960. Stofnandi Gunnars Majones
hét Gunnar Jónsson en hann lést árið
1998.
Eftir að Gunnar féll frá tóku dætur
hans við stjórnartaumunum í félaginu
en þær heita Helen og Nancy. Móðir
þeirra, Sigríður Regína Waage, á 32
prósenta hlut í fyrirtækinu. Síðastliðin
ár hefur forstjóri Gunnars, Kleópatra
Kristbjörg Stefánsdóttir, sem meðal
annars hefur gefið út nokkrar bækur,
vakið athygli á opinberum vettvangi
vegna auglýsinga sem birst hafa um
hana á síðum dagblaða hér á landi. Á
heimasíðu Gunnars er Kleópatra Krist-
björg sögð forstjóri fyrirtækisins en
hún mun þó hafa afar takmarkaða að-
komu að daglegum rekstri þess, raunar
enga samkvæmt heimildarmanni DV.
Þrátt fyrir þetta þiggur Kleópatra laun
frá fyrirtækinu.
Skrítinn rekstur
Í viðtali við DV árið 2009 sagði einn af
þáverandi starfsmönnum Gunnars,
sem ekki vildi koma fram undir nafni,
að hann skildi ekki uppgang Kleópötru
hjá fyrirtækinu: „Það er alls ekki slæmt
að vinna hjá fyrirtækinu en þetta með
forstjórann skilur fólk ekki. Það virðist
vera stór klíka í kringum forstjórann.
Uppgangur hennar hjá fyrirtækinu er
mjög einkennilegur. Þetta virðist næst-
um því vera einhvers konar sértrúar-
söfnuður í kringum hana. Ég skil þetta
eiginlega ekki en þetta er alveg stór-
magnað. Það getur vel verið að hún sé
voðalega góð manneskja en forstjóri er
hún ekki.“
Í viðtali við DV árið 2009 sagði önnur
systirin og einn af hluthöfum Gunnars,
Helen Gunnarsdóttir, að þetta væri
ekki rétt mat þar sem Kleópatra sinnti
starfi sínu sem forstjóri vel. „Kleópatra
vinnur mjög vel sína vinnu og við höf-
um aldrei haft betri forstjóra. Hún hef-
ur allt til að bera, er heiðarlegasta kona
sem til er, hlý, góð og gáfuð. Hún er
ofsalega vel gefin og mælsk og síðustu
þrjátíu ár hefur hún fengið fólk til að sjá
ljósið. Kleópatra er rosalega vinsæl en
kannski eru til einhverjir sem eru reiðir
og afbrýðisamir út í hana. Mér dettur
það í hug að óvildarmenn hennar séu
að skapa þessa umræðu.“
Þá hefur DV greint frá því að
Gunnar hafi keypt upp heilu brettin
af bókum Kleópötru sem gefnar eru
út af Skjaldborg. Starfsmenn félagsins
hafa svo fengið þessar bækur að gjöf.
Rekstur Gunnars virðist því vera nokk-
uð sérstakur.
2,5 milljónir teknar úr rekstrinum
Þær Helen og Nancy eru með pró-
kúruumboð fyrir Gunnars Majones
sem eigendur og stjórnarmenn.
Kleópatra er skráð framkvæmdastjóri.
Heimildir DV herma að meðal þess
sem gerst hafi í rekstri Gunnars árið
2011 er að þær systur hafi tekið 2,5
milljónir króna út úr rekstri félagsins.
Ekki er vitað hvað varð um þessa fjár-
muni sem ekki skiluðu sér aftur inn í
reksturinn.
Í ársreikningum félagsins sést að
nokkur hluti skulda Gunnars er við
hluthafana sjálfa og hefur fyrirtækið
verið að greiða þessar skuldir niður
síðastliðin ár. Árið 2008 námu þessar
skuldir tæpum 80 milljónum króna,
tæplega 30 milljónum árið 2009 og
nærri sex milljónum árið 2010. Svo
virðist því sem Gunnars hafi á síðustu
árum greitt niður verulegar skuldir
við hluthafa fyrirtækisins.
Hagnaður en neikvætt eigið fé
Gunnars Majones hefur skilað rúm-
lega tíu og rúmlega fimmtán milljóna
króna hagnaði síðastliðin tvö rekstrar-
ár þar sem ársreikningar liggja fyrir,
2010 og 2011. Eigið fé fyrirtækisins er
hins vegar neikvætt um rúmlega 51
milljón króna og hefur verið neikvætt
síðastliðin ár – á milli 77 og 95 millj-
ónir króna síðastliðin tvö ár. Staða fyr-
irtækisins er því á heildina litið ekki
mjög góð þrátt fyrir hagnaðartölur
síðustu ára. Eignir félagsins í dag
nema rúmlega 112 milljónum króna
en skuldir þess eru meira en 164 millj-
ónir króna.
Eiginfjárstaða Gunnars hefur hins
vegar ekki alltaf verið svo slæm heldur
versnaði hún á fyrri hluta síðasta ára-
tugar og fram eftir honum. Árið 2003
var eiginfjárstaðan til dæmis neikvæð
um rúmlega 12 milljónir króna. Staða
félagsins versnaði því jafnt og þétt á
síðasta áratug. Ef marka má heim-
ildarmenn DV er að minnsta kosti
hluti af skýringunni á þessu nokkuð
sérstakur rekstur hjá fyrirtækinu. n
Ingi Freyr Vilhjálmsson
fréttastjóri skrifar ingi@dv.is
Fjármunir teknir út Hluthafar Gunnars Majones tóku 2,5 milljónir króna út úr rekstri félagsins
árið 2011 og skiluðu fjármunirnir sér ekki aftur. Fyrirtækið framleiðir þekktasta majónes landsins.
Fær laun þrátt
fyrir litla viðveru
Kleópatra Kristbjörg
Stefánsdóttir, skráð-
ur forstjóri Gunnars
Majones, fær laun
frá fyrirtækinu þrátt
fyrir litla viðveru.
Win Win
gjaldþrota
Win Win ehf., eignarhaldsfélag
hjónanna Kitty Johansen og Ágústs
Reynis Þorsteinssonar, hefur ver-
ið tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta
var gert með úrskurði Héraðs-
dóms Reykjavíkur þann 19. des-
ember síðastliðinn og sama
dag var Auður Björg Jónsdóttir
héraðsdómslögmaður skipuð
skiptastjóri. Ekki liggur fyrir hversu
stórt gjaldþrotið er en það kemur
í ljós þegar skiptum á búinu lýkur.
Í tilkynningu í Lögbirtingablað-
inu er skorað á þá sem telja sig eiga
kröfur í búið að lýsa þeim innan
tveggja mánaða frá uppkvaðningu
úrskurðar héraðsdóms.
Win Win ehf. rak samnefndan
vef, winwin.is, en um var að ræða
eins konar magnkaupsvefsíðu.
Gafst fólki kostur á veglegum af-
slætti þegar fyrirframtilgreindur
hópur fólks hafði keypt ákveðna
vöru eða þjónustu. Vefsíður sem
þessar hafa sprottið upp nokkuð
hratt undanfarin misseri og náð
mikilli fótfestu á Íslandi.
Hjónin Kitty og Ágúst opnuðu
vefinn með pompi og prakt í ágúst
2011 og var meðal annars haldið
opnunarteiti í Nauthólsvík þar
sem boðið var upp á kokteil, léttar
veitingar og lifandi tónlist. Mynd-
ir og umfjöllun um teitið birtist á
vef Vísis þann 5. ágúst 2011. Vef-
síðunni winwin.is hefur nú verið
lokað og sömu sögu er að segja af
Facebook-síðu fyrirtækisins.
Landslag borgarinnar breytist
Sigurður Reynir Gíslason jarðvísindamaður
ræddi um framtíðarborgina Reykjavík í
helgarviðtali í DV. Mynd Sigtryggur Ari
Innbrot um
miðjan dag
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
var kölluð til vegna tveggja inn-
brota eftir hádegi á sunnudag. Í
einu tilfellinu var brotist inn í bíl í
austurborg Reykjavíkur en í hinu
var brotist inn á heimili í úthverfi
borgarinnar.
Einnig komu nokkur skemmdar-
verk við sögu hjá lögreglu en klukk-
an hálf þrjú á sunnudag var hún
kölluð til vegna rúðubrots í húsi
við Iðufell. Tæpum fimmtíu mín-
útum síðar var henni tilkynnt um
skemmdarverk á bifreið við Tjarnar-
braut og sagði eigandi hennar að
ítrekað hefðu verið unnar skemmd-
ir á bílnum. Þetta kemur fram í til-
kynningu frá lögreglu.