Dagblaðið Vísir - DV - 10.12.2013, Síða 6
6 Fréttir Vikublað 10.–12. desember 2013
„Auglýsingabrella
og peningaplokk“
Kaffivélaframleiðandi notar píramídasölukerfi til að selja blóðpróf sem á að segja til um jafnvægi fitusýra í líkamanum
V
iltu vita hvort þú sért í ójafn-
vægi? Við hjá Zinzino bjóð-
um upp á einstakt próf ef
þú vilt vita hver hlutföll þín
eru.“ Svona hljóðar lýsing
sem finna má á vefsíðu sænska kaffi-
vélaframleiðandans Zinzino en varan
sem um ræðir er svokallað Zinzino
BalanceTest, blóðpróf til heimanota
sem segja á til um jafnvægi fitusýra í
líkamanum. Blóðprófið, sem og ann-
að sem í boði er hjá fyrirtækinu, er
selt með píramídasölukerfi og virðist
njóta aukinna vinsælda hérlendis en
fjölmargir kaupa blóðprófin dýrum
dómum í þeirri trú að þau veiti upp-
lýsingar um heilsufar og mataræði.
Rannsakað í Noregi
„Niðurstöður prófsins segja þér hvort
að mataræði þitt sé í jafnvægi, hálf-
gerðu-ójafnvægi eða í ójafnvægi.
Þannig getur þú áttað þig á hvort þú
þarft að breyta því eða ekki,“ segir á
vefsíðu Zinzino en þar er fólki ráðlagt
að styrkja mataræði sitt með Balance-
vörum frá Zinzino „til að fá jafnvægi á
fitusýrurnar og andoxunarefni“.
Blóðprófið kostar 109 evrur, eða
tæpar 18 þúsund krónur, og virkar
þannig að viðskiptavinur tekur einn
blóðdropa úr fingri sem blóðsýni.
Blóðdropinn er svo sendur til rann-
sóknar á St. Olavs-háskólasjúkrahús-
inu í Þrándheimi í Noregi, þar sem
skorið er úr um hvernig vægið milli
fitusýra líkamans er og þar af leiðandi
í hversu miklu jafnvægi mataræði
viðkomandi er. Viðskiptavinir geta
svo nálgast niðurstöðu blóðprófsins
á vefsíðu Zinzino um tuttugu dögum
eftir að það var sent til rannsóknar
og í kjölfarið, ef þurfa þykir, náð réttu
jafnvægi með vörum frá fyrirtækinu.
„Mun aldrei mæla með þessu“
Blaðamaður hafði samband við Vil-
hjálm Ara Arason lækni og fékk álit
hans á Zinzino BalanceTest. Vilhjálm-
ur segir þær upplýsingar sem gefn-
ar eru um blóðprufuna á vef Zinzino
ekki staðreyndar með vísindalegum
hætti og bendir á að engar tilvísanir
séu í vísindalegar rannsóknir.
„Hagsmunaárekstrar eru gríðar-
lega miklir sem kolfellir þessar full-
yrðingar framleiðanda sem myndu
aldrei fást viðurkenndar í heilbrigð-
isvísindum. Það er ekkert hægt að
segja út frá greiningu á fituprófíl með
þessum hætti og þannig um áhættu
á sjúkdómum að mínu mati. Þetta
er auglýsingabrella og peningaplokk
sem reynslan sýnir því miður að
margir lenda í.“
Vilhjálmur segir mun betra að
fá venjulega blóðprufu sem og ráð-
leggingar um mataræði á heilsugæslu.
„Það er einfaldlega alltaf best og
lífið er ekki svona flókið. Svona aug-
lýsingamennska skemmir bara fyr-
ir fólki sem er annars með góðan
ásetning um lífsstílsbreytingu. Mun
aldrei mæla með þessu.“
„Ekki enn einn megrunarsjeikinn“
Auk umrædds blóðprófs býður
Zinzino upp á ýmsar vörur sem eiga
að jafna hlutfall fitusýra í líkaman-
um. Til dæmis er hægt að kaupa svo-
kallaðan BalanceShake, næringar-
hristing sem samkvæmt sumum
söluaðilum á að lækna hina ýmsu
kvilla, og BalanceOil, blöndu af
fiskolíu og ólífuolíu. Neysla þessara
vara, ásamt hollu mataræði og hreyf-
ingu, á svo að jafna hlutföll omega-6
og omega-3 fitusýra þannig að hlut-
föll þeirra verði 3:1.
Svo virðist sem næringar-
hristingurinn eigi þó einnig að lækna
hina ýmsu kvilla og eru margir sölu-
aðilar hans ekkert að spara lýsingarn-
ar. Ein auglýsing á vefsíðunni Bland.is
hljóðar til dæmis svo:
„Zinzino er traust og gott fyrir-
tæki sem selur úrvals kaffivélar, kaffi
og síróp. Einnig er kominn sjeik sem
kallast Balance og er mjög góður fyr-
ir t.d. bólgum í líkama, ristilsjúkdóm-
um, sykursýki svo eitthvað sé nefnt.
Þetta er ekki enn einn megrunarsjeik-
inn heldur búinn til til að losa lík-
amann við omega-6 og breyta lík-
amsstarfseminni í omega-3 og koma
jafnvægi á líkamann og lækna marga
kvilla. Eftir smá tíma finnurðu mun
á svefni og að vakna, meiri orku yfir
daginn.“
Píramídakerfi
Vörur frá Zinzino eru seldar með ein-
hvers konar píramídasölukerfi þar
sem sjálfstæðir söluaðilar sjá um
sölu og dreifingu vörunnar. Líkt og
fyrr sagði er Zinzino fyrst og fremst
kaffivélaframleiðandi sem selur, auk
kaffivéla, kaffi, te og súkkulaði sem og
umræddar Balance-vörur. Fyrirtækið
er sænskt að uppruna en er starf-
rækt á öllum Norðurlöndunum sem
og Eystrasaltslöndunum og hefur nú
fest rætur sínar hérlendis. Svo virðist
sem vinsældir Balance-varanna auk-
ist dag frá degi og hafa sífellt fleiri Ís-
lendingar hafið sölu á vörunum hér á
landi, meðal annars þekktir íþrótta-
menn.
DV hefur áður fjallað um vörur
frá Zinzino en fyrr í vetur var rætt við
tvær konur sem sögðust hafa feng-
ið heiftarleg ofnæmisviðbrögð eftir
neyslu BalanceShake.
„Ég lenti hryllilega í þessu og var
mjög hætt komin. Ég gat ekki and-
að, ekki staðið í fæturna, gat ekki lyft
höndunum og ældi og ældi. Ég fékk
forgang á bráðamóttökunni og fékk
strax aðhlynningu,“ sagði önnur í
samtali við DV í september. Konurnar
sögðu að þeim hefði verið tjáð að ef
þær gerðust söluaðilar hjá Zinzino og
fengju fjóra aðila undir sig í píramíd-
anum fengju þær efnið frítt. Það vildu
þær þó ekki gera.
„Ég vil allavega ekki reyna að
pranga einhverju efni sem ég þoli
ekki sjálf, inn á aðra,“ sagði Sirrý Sig-
fúsdóttir við blaðamann DV í septem-
ber.
Dýr áskrift
Að gerast áskrifandi að BalanceShake
frá Zinzino er síður en svo ódýrt en
á vefsíðu fyrirtækisins má sjá upp-
lýsingar um tvö tilboð að áskriftar-
leiðum sem boðið er upp á. Annars
vegar getur fólk keypt sér 12 mánaða
áskrift þar sem greiddar eru 42 evrur
á mánuði, eða um 6.900 íslenskar
krónur, auk þess sem greiddar eru
127 evrur, eða um 20.900 krónur, fyrir
svokallaða upphafspöntun. Sé þessi
leið farin skuldbindur fólk sig því til
að greiða samtals 631 evru, eða um
104.000 krónur, fyrir ársbirgðir af
BalanceShake.
Hins vegar getur fólk greitt 45
evrur á mánuði, eða um 7.400 krón-
ur, í 12 mánuði auk upphafspöntunar
sem kostar 167 evrur, eða um 27.200
íslenskar krónur. Þeir sem kjósa þessa
leið skuldbinda sig því til að greiða
samtals 707 evrur á þeim 12 mánuð-
um sem áskriftin er í gildi, en það
jafngildir um 115.150 krónum.
Þrátt fyrir talsverðan mun á
kostnaði er ekki að sjá að mikill
munur sé á áskriftarleiðunum
tveimur. Hann virðist helst felast í
því að þeirri dýrari fylgja tvö stykki
af BalanceTest-blóðprófinu í upp-
hafspöntuninni, en þeir sem greiða
45 evrur á mánuði fá hins vegar sama
magn af BalanceShake í hverjum
mánuði og þeir sem greiða 42 evrur.
Annars er hægt að kaupa stakan
skammt af BalanceShake og kostar
600 gramma pakki 59 evrur, eða um
9.600 krónur, og er gert ráð fyrir að
slíkur skammtur dugi í mánuð. n
„Þetta er ekki
enn einn
megrunarsjeikinn
Vilhjálmur Ari Vilhjálmur segir þær upplýsingar sem gefnar eru um blóðprófið ekki sann-
reyndar með vísindalegum hætti. MyND SigtRygguR ARi
Blóðpróf framkvæmt
Tekinn er einn blóðdropi
úr fingri og sendur til
Noregs til rannsóknar.
Hörn Heiðarsdóttir
horn@dv.is