Dagblaðið Vísir - DV - 27.10.2008, Blaðsíða 8

Dagblaðið Vísir - DV - 27.10.2008, Blaðsíða 8
mánudagur 27. október 20088 Fréttir „Það keyptu allir allt sem þeim datt í hug. Það var bara hugarfar- ið, hvort sem menn sætta sig við það nú eða ekki. Það þýðir ekkert að segja núna: Þið eruð bara vit- leysingar.“ Þetta segir Björgólfur Guð- mundsson í miðli sínum, Morg- unblaðinu, um helgina. Í fjög- urra síðna viðtali í blaðinu kennir Björgólfur almenningi, Seðla- bankanum, ríkinu og fjölmiðlum um það hvernig fyrir efnahagslíf- inu er komið. Hann segir að pen- ingarnir frá Icesave og skatttekjur frá bönkunum séu ástæðan fyrir góðri stöðu ríkissjóðs. Ráðuneyt- in hafi ár hvert keyrt langt umfram fjárveitingar. „Af hverju heldurðu að ríkið standi svona vel? Það er meðal annars vegna þess, að tekj- ur af þessum lánum og skatttekjur frá bönkunum hafa gert ríkinu fært að greiða niður skuldir ríkissjóðs.“ Björgólfur heldur áfram: „Þú [Agnes Bragadóttir blaðamaður] veist ósköp vel, að kaupæðið sem rann á okkur Íslendinga var óskap- legt og ég hygg að þar séu fáir undanskildir. Jeppar voru keyptir í hundraða vís, sumarhús sömu- leiðis og hjólhýsi, svo dæmi séu nefnd, að nú ekki sé talað um alla flatskjáina, raftæki og hvað eina. Íslenskt þjóðfélag gjörbreyttist ótrúlega hratt, ekki síst vegna þess að við gátum útvegað þessa pen- inga sem ríkið, sveitarfélög, fyrir- tæki, félagasamtök og einstakling- ar nutu svo góðs af.“ Gæti grátið Í viðtalinu segir Björgólfur enn fremur að hann gæti grátið yfir því hversu margir eru að missa mik- ið á Íslandi í dag. Hann segir að Landsbankinn hefði aðeins þurft eina viku í viðbót til að semja við Bretana, þegar aðgerðir ríkisins gegn íslenskum bönkum hófust. „Það gerðist einfaldlega þannig að þegar Glitnir var tekinn voru allar lánalínur og öll bankasam- bönd í einu vetfangi rifin af okkur Íslendingum. Þá gátum við ekki lifað lengur. Sú aðgerð, ein og sér, er sú hættulegasta og skaðlegasta sem framin hefur verið gagnvart íslensku þjóðfélagi,“ segir hann. Björgólfur talar um óstjórn í efnahagsmálum og segir: „Það þýðir ekkert fyrir stjórnmálamenn, Seðlabanka eða Fjármálaeftirlit að hlaupa upp til handa og fóta og benda á okkur og hrópa „Icesave! Icesave!“ til þess að bjarga sjálfum sér. Þeirra er ábyrgðin og hefur alltaf verið.“ Hann segir enn fremur að íslensku fjölmiðlarnir hafi brugðist. Þeir einblíni bara á hið neikvæða eins og skuldirnar, en tali ekkert um eignirnar sem vegi upp á móti. Sökin er ríkisins og Seðlabankans Útrásarvíkingarnir hafa einn af öðrum komið fram í fjölmiðlum og kennt öðrum um hvernig komið er fyrir þeim og öðrum Íslendingum. Björgólfur Thor Björgólfsson verð- ur í viðtali hjá Kompási í kvöld en ef marka má auglýsingar fyrir þátt- inn segist hann allur af vilja gerð- ur til að hjálpa þjóðinni en sé ekki aflögufær með fjármagn. Hann segir að ríkisstjórnin og Seðla- bankinn hafi klúðrað tækifær- inu til að afstýra því hvernig nú er komið. Degi áður en neyðarlögin hafi verið samþykkt á Alþingi hafi bresk stjórnvöld verið tilbúin til að ábyrgjast alla reikninga Icesave gegn 200 milljóna punda trygg- ingu frá Landsbankanum. „Á mánudeginum þurftum við tvö hundruð milljónir til þess að geta komið þessu í breska lög- sögu. Við báðum um það á sunnu- deginum og töldum, menn voru í góðri trú, að menn myndu fá það á mánudegi til að borga það, að sjálfsögðu, til að koma þessu í breska lögsögu. Svo næsta morg- un á mánudeginum berst ekkert svar frá Seðlabankanum þarna um morguninn. Ekki klukkan átta, ekki klukkan níu, ekkert svar klukkan tíu, ekkert svar klukkan ellefu. Svo klukkan tólf kemur að því að við þurfum að borga breska fjármálaeftirlitinu klukkan tólf,“ segir Björgólfur í Kompásþætti sem sýndur verður annað kvöld en hluti úr viðtalinu var birtur í frétt- um Stöðvar 2 í gærkvöldi. Hann heldur áfram „Tíminn líður og ekkert svar. Hálftíma síð- ar kemur svar frá Seðlabankanum: Þið fáið ekki fyrirgreiðslu. Þetta er mér algörlega óskiljanlegt. Al- gjörlega. Og ég tel að hefðu menn hugsað sitt ráð og hefðu menn unnið saman að þessu væri Ice- save komið í enska lögsögu og við værum ekki í þessum vandamál- um og þessum milliríkjadeilum við Bretland,“ segir hann. Baugur líður fyrir milliríkja- deilu Jón Ásgeir Jóhannesson hefur sagt, rétt eins og þeir Björgólfsfeðgar, að ríkið og Seðla- bankinn séu ábyrg fyrir því hvern- ig komið sé fyrir þjóðinni nú, auk þess sem alþjóðleg lausafjár- kreppa hafi leikið Íslendinga grátt. Hann hefur sagt að hann hafi allt sitt undir. Baug þurfi nú að selja á brunaútsölu vegna þeirrar milli- ríkjadeilu sem upp hafi komið á milli Breta og Íslendinga. Baugur hafi því misst allt lánstraust í Bret- landi. Viðurkennir mistök Lýður Guðmundsson, kenndur við Bakkavör, er stjórnarformaður í Exista, áður stærsta eiganda Kaup- þings, en félagið hefur fallið um 86 prósent á einu ári. Lýður sagði afa sinn hafa kennt sér að yfirmenn- irnir ættu síðastir að fara frá borði ef eitthvað kæmi upp á. „Við bræð- ur ætlum síðastir frá borði,“ sagði hann og bætti því við að hann teldi sig ekki lengur auðmann. Hann viðurkenndi mistök í viðtalinu við Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Markaðarins. „Það voru mistök að færa ekki Kaupþing úr landi þeg- ar umsókn bankans um að skrá hlutafé í evrum var hafnað,“ sagði Lýður og bætti því við að þeir hafi verið að ræða um að færa Kaup- þing úr landi þegar ríkið tók bank- ann yfir. Hann er einn fárra sem viðurkenna og benda á dæmi þar sem þeir hafi brugðist. Lýður sagði einnig í viðtalinu að ekki hefði komið til tals að óska eftir ríkisábyrgð fyrir innlán Kaup- þings erlendis. „Okkar innlán voru með þeim hætti að þau eru ekki að falla á íslenska ríkið. Aðrir gerðu þetta með öðrum hætti. Og ég held að þeir verði að svara fyrir það sem það gerðu,“ sagði hann en bætti því aðspurður við að það hafi haft áhrif á fall Kaupþings í Bretlandi, sem hafi leitt til falls móðurfélagsins á Íslandi. Björn Ingi ritaði sjálfur leiðara í Fréttablaðinu í gær þar sem hann varpaði sök að hluta til á almenn- ing. „Við vorum of kappsöm, fór- um of geyst og súpum nú seyðið af því. Ekki bara útrásarvíkingarn- ir sem töldu sig hafa fundið vís- dóminn eina í viðskiptum, held- ur líka við hin sem fannst gaman í veislunni og gott að þurfa ekki lengur að eiga fyrir hlutunum. Met í fjölda flatskjáa á hvert heimili var ekki endilega það heimsmet sem að var stefnt,“ skrifaði Björn Ingi en sagði svo. „Við berum hér öll sök, mismikla að vísu.“ Ekki upprifinn yfir svörunum Þáttastjórnandinn Egill Helga- son skoraði í þætti sínum, Silfri Eg- ils, á útrásarvíkinganna að koma fram og standa fyrir máli sínu. Það hafa þeir nú margir hverjir gert. Egill er nú samt ekki sérlega ánægður með þá. „Mér finnst þeir nú ekkert sérstaklega duglegir að líta í eigin barm og skoða mistökin sem þeir hafa sjálfir gert. Þeir hafa frekar verið duglegir að kenna öðr- um og ytri aðstæðum um hvernig komið er,“ segir Egill. „Manni finnst eins og þeir séu enn í einhverju fantasíulandi. Ég sá reyndar ekki viðtalið við Lýð en það sem ég hef lesið er allt í sama anda. Það er ekkert verið að fara fram á það að þeir fremji eitthvert „harakiri“ eða eitthvað slíkt. Þeir benda hins vegar á alla aðra en sjálfa sig,“ segir Egill og bætir því við að honum finnist frekar klént að Björgólfur Guðmundsson skuli hafa kosið að tala bara við sitt eig- ið blað, Morgunblaðið. „Það er bæði veikt fyrir hann og blaðið,“ segir hann. Egill segir að þessir menn hefðu betur stigið fram fyrr en þeir gerðu. Lánalínur hafi tekið að lokast í ágúst í fyrra og þá hafi atburðarásin farið á fullt. Vill að þeir víki strax „Sektin er auðvitað eftirlits- stofnana sem áttu að hafa taum- hald á þessum mönnum og stjórnmálamanna sem settu reglurnar. Þær regl- ur sem voru í gildi hefðu dugað til að stöðva ofurvöxt bankanna. Það er enginn vafi á því að yfirmenn og stjórnir Seðla- bankans og Fjármálaeftirlitsins eru sekar um alvarleg afglöp og eiga að sjálfsögðu að segja af sér umsvifalaust,“ segir Guðmundur Ólafsson hagfræðingur, spurður um það hverjum efnahagshrunið sé um að kenna. Hann segir margt gott hægt að segja um útrásina, þó á meðal þeirra manna megi finna þvílíka fjárglæframenn að það jaðri við að um vitsmunalega sekt sé að ræða í sumum tilvikum. Ingimundur og Jón Sigurðsson ábyrgir Guðmundur segir með ólík- indum að aðeins einn einstakling- ur í Seðlabankanum hafi sagt af sér en það var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fulltrúi Samfylkingar- innar í bankaráði Seðlabankans. „Tveir menn eru stjórnarmenn og yfirmenn í þessum báðum stofn- unum. Það eru Jón Sigurðsson, sem er varaformaður bankaráðs Seðlabankans og formaður stjórn- ar Fjármálaeftirlitsins. Hann ber þarna mjög mikla ábyrgð. Hinn er Ingimundur Friðiksson, banka- stjóri í Seðlabankanum og stjórn- armaður í Fjármálaeftirlitinu. Það er mín skoðun að þessir menn eigi að víkja þegar í stað. Það er með ólíkindum að varaformaður bankaráðs og stjórnarmaður Fjár- málaeftirlitsins skuli nú stjórna nær öllum íslenskum fjármála- stofnunum,“ segir Guðmundur. Hann segir að Seðlabankinn beri ábyrgð á peningakerfinu og þar af leiðandi gengishruni, vaxta- okri og verðbólgu. Meira að segja bankinn sjálfur sé gjaldþrota. „Hvað þarf til þess að menn séu uppvísir að vanhæfni og afglöpum ef ekki þetta? Allt sem hefur gerst í atburðarás undanfarins eins og hálfs árs nægir til þess að þetta fólk fari frá,“ segir hann. Spurður um sekt almennings segir Guðmundur að fólk sé stund- um fljótt að sakfella menn sem hafi ofurlaun. Það sé oft og tíð- um vegna öfundar. Hann er ekki sammála Björgólfi Guðmunds- syni um að sektin liggi að hluta til hjá almenningi. „Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort allir þeir hagfræðingar og sérfræðing- ar, sem ekkert létu í sér heyra und- anfarin fimm ár, beri ábyrgð fyr- ir það að hafa látið þetta fram hjá sér fara,“ segir hann en bætir því við að stjórnmálamennirnir beri auðvitað líka ábyrgð. „Þeirra bíður dómur kosninga,“ segir hann alvar- legur í bragði að lokum. Útrásarvíkingarnir hafa í viðtölum síðustu vikuna keppst við að kenna almenningi, ríkisstjórninni, Seðla- bankanum og fjölmiðlum um það hvernig fyrir þjóðinni er komið í efnahagsmálum. Að þeirra mati liggur sökin hjá öllum öðrum en þeim sjálfum. Björgólfur Guðmundsson segir góða stöðu ríkissjóðs innlánum og skatttekjum frá bönkunum að þakka. Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, bendir einn út- rásarvíkinga á eigin mistök. Hagfræðingur segir ábyrgðina liggja hjá eftirlitsstofnunum og vill að yfir- menn í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu segi af sér tafarlaust. Þetta er ykkur að kenna BALDUR GUÐMUNDSSON blaðamaður skrifar baldur@dv.is „Það þýðir ekkert fyr- ir stjórnmálamenn, Seðlabanka eða Fjár- málaeftirlit að hlaupa upp til handa og fóta og benda á okkur og hrópa „Icesave! Icesa- ve!“ til þess að bjarga sjálfum sér. Þeirra er ábyrgðin og hefur alltaf verið.“ „Hvað þarf til þess að menn séu uppvísir að vanhæfni og afglöpum ef ekki þetta?“ „Við bræður ætlum síðastir frá borði“ Segir Lýður guðmunds- son stjórnarformaður exista, áður stærsti eigandi kaupþings. Kennir ríkinu og Seðlabanka um Jón ásgeir Jóhannesson segir að erlend lausafjárkreppa hafi leikið landið grátt. Skoraði á útrásarvíkingana að gefa sig fram egill Helgason gefur lítið fyrir skýringar þeirra og segir þá benda á alla nema sjálfa sig. Kennir almenningi um björgólfur guðmundsson segir kaupæði almennings eina af ástæðum þess hvernig fyrir okkur fór. Björgólfur Thor segir yfirtöku ríkisins ástæðuna fyrir fallinu. Segist ekki geta lagt til fjármuni til uppbygginar. Vill umsvifalausar uppsagnir stjórnenda eftirlitsstofnana guðmundur ólafsson hagfæðingur vill Ingimund og Jón Sigurðsson burt.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.