Lögmannablaðið - 01.06.2005, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 01.06.2005, Blaðsíða 4
4 2 / 2 0 0 5 FRÁ RITSTJÓRN Ásíðasta ári mínu við laga-deild HÍ sat ég tíma í fagi sem kennt var við hlutverk dómara og lögmanna. Í einum af eftirminnilegri tímunum fékk hópurinn þekktan fréttamann ásamt dómara einum í heimsókn til þess að ræða umfjöllun fréttamanna um lögfræði, lög- reglurannsóknir og dómsmál. Fréttamaðurinn greindi frá því að stundum væri mjög erfitt að átta sig á inntaki dóma sem væru á lögfræðimáli sem oft væri erfitt að skilja án áralangrar þjálfunar. Dómarinn taldi vandamálið kunnuglegt og nefndi m.a. dæmi þess að fréttamaður hefði elt dómara heim í lok vinnudags til að fá hjá honum útskýringar á inntaki dóms sem kveðinn hafði verið upp fyrr þann dag. Fyrir laganema var þetta kunnugleg tilfinning og var ekki laust við að nemendum þætti nokkuð til úrræðasemi fréttamannsins koma en ekki síður þörf áminning til verðandi lögfræð- inga um að hafa skýrleika að leiðarljósi við skrif á lögfræðitexta. Sé það haft að leiðar- ljósi má það vonandi verða til þess að fækka fréttum um dómsmál sem byggðar eru á misskilningi, þótt ef vel á að vera þurfi fleira til að koma, svo sem reynsla og þekking þeirra sem fréttirnar skrifa. Annað sem kom fram í máli fréttamanns- ins og dómarans var virðing fyrir þeirri meginreglu sem er að finna í 3. gr. siða- reglna Blaðamannafélags Íslands þar sem kveðið er á um að blaðamanni beri að forð- ast allt sem geti valdið saklausu fólki óþarfa sársauka eða vanvirðu. Felst það að jafnaði ekki síst í því að fjalla af nærgætni og virðingu um mál sem eru til rannsóknar og nafn- greina ekki aðila máls og jafnvel vega að æru þeirra áður en dómur hefur verið felldur. Fyrir nokkrum árum fór að örla á því að framangreindri meginstefnu væri ekki lengur fylgt eftir og er nú svo komið að þessi stefna er hjá sumum fjölmiðlum að engu höfð. Afleiðingar þessara breytinga hafa oft á tíðum verið mjög dapurlegar og má búast við því að þessi breyting sé farin að ala á vantrausti lögmanna og dómara gagnvart þeim sem á fjölmiðlum starfa. Stafar það ekki síst af því að þarna virðist manni eins og beinlínis hafi verið tekin, í nafni tjáningarfrelsis, ákvörðun um að skeyta engu um tilfinningar fólks, hvort sem það eru hinir ákærðu, brotaþolar eða aðstandendur beggja þessara aðila. Sá grunur læðist að manni að nú, nokkrum árum eftir að hafa hlýtt á fréttamanninn og dómarann vera jafn sammála og raun bar vitni, þá hljóti dæmum um að fréttamenn og lögmenn standi saman að vandaðri og upplýsandi umfjöllun að fara fækkandi. Væri það að mörgu leyti miður og vart vanþörf á en fram kemur í grein hér í blað- inu að fjölmiðlar eftirláta iðulega ungum og reynslulitlum blaðamönnum að fjalla um þann málaflokk er lýtur að lögreglu- rannsóknum og dómsmálum. Er það því brýnt að lögmenn geri sitt besta til að leið- beina blaðamönnum svo fækka megi hvort tveggja rangri og ranglátri umfjöllun fjöl- miðla um þennan mikilvæga málaflokk. Daði Bjarnason hdl.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.