Lögmannablaðið - 01.10.2009, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 01.10.2009, Blaðsíða 4
4 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 3 / 2009 Ár er nú liðið frá hruni bankanna. Slíkt kerfishrun hefði víða leitt til fullkominnar upplausnar. Víst er að fyrstu vikurnar og mánuðina eftir hrunið komst íslenskt samfélag nær slíkri upplausn en nokkurn tímann áður á lýðveldistímanum. Skipulagðar óeirðir, árásir á opinberar byggingar og heimili fólks og sjálftaka í nafni „réttlætis“ - allt hefur þetta reynt mjög á grunnstoðir samfélagsins. Að ári liðnu er ljóst að umgjörð samfélagsins hefur staðist þessa áraun. Framundan eru þó erfið verkefni og áfram mun hrikta í stoðunum. Þegar allt er á hverfanda hveli verður samfélagið að treysta á umgjörðina, réttarríkið, og þá sem þar leika lykilhlutverkið. Efnahagslegir erfiðleikar á öllum tímum og hvarvetna valda því að tiltrú fólks á skipan mála og stofnanir samfélagsins minnkar. Í hringborðsumræðum, sem Lögmannablaðið efndi til á dögunum og fjallað er um í blaðinu nú, var spurt hvort vantraust almennings á grunnstofnanir samfélagsins væri ógn við réttarríkið og hvort slíkt vantraust ætti að einhverju leyti rétt á sér. Íslenskt réttarkerfi hefur aldrei staðið frammi fyrir viðlíka verkefni og nú blasir við. Var það samdóma álit þeirra sem komu að hringborðinu að efla þyrfti bæði ákæruvald og dómstóla til að takast á við það verkefni. Þau sjónarmið sem fram komu í hringborðsumræðunum eru auðvitað ákall til stjórnvalda um að styrkja þær stoðir sem réttarríkið hvílir á. Að óbreyttu er veruleg hætta á því að réttarkerfið muni ekki hafa bolmagn til að komast í gegnum þann skafl sem framundan er. Það er allra hagur að öll mál séu sótt, varin og dæmd eins vel og mögulegt kann að vera – á þessu byggir réttarríkið. Ef verkefnin eru dómstólum og ákæru- valdi ofviða þá er réttarríkið í hættu. Á þessum vettvangi hefur verið fjallað um hið mikilvæga hlutverk sem lögmenn gegna við að sporna gegn upplausn í samfélaginu og standa vörð um megin- reglur réttarríkisins. Fullyrða má að aldrei hafi verið mikilvægara en nú að stétt lögmanna nyti trausts og virðingar í samfélaginu. Lögmannablaðið birtir nú niðurstöður könnunar meðal félags- manna LMFÍ þar sem fram kemur að þriðjungur félagsmanna telur ímynd lögmanna neikvæða. Þótt erfitt sé að fullyrða um hvaða ímynd lögmannastéttin hefur meðal fólks í landinu, þá er ástæða til að taka þessar niðurstöður alvarlega. Strangar siðareglur lögmanna eru ekki settar af tilviljun heldur endurspegla þær hið mikilvæga hlutverk sem þeir hafa með höndum í réttarríkinu. Það er verðugt verkefni fyrir þá sem eru í fyrirsvari fyrir lögmannastéttina að gera sérstakt átak í því að kynna fyrir almenningi þær siðareglur sem leggja grunn að öllum störfum lögmanna. Það myndi ekki einungis auka skilning almennings á því hlutverki sem lögmenn gegna heldur myndi aðhald að störfum þeirra aukast og vonandi verða á skyn- samlegri forsendum en oft vill verða í umræðunni. Framundan eru verkefni fyrir íslenskt réttarkerfi sem eru í senn mikilvæg og vandasöm. Stjórnvöld verða að gera sitt til að styrkja réttarkerfið þannig að það sé í stakk búið til að sinna þessum verkefnum. Lögmenn mega heldur ekki láta sitt eftir liggja í því að styrkja tiltrú almennings á störf stéttarinnar og auka skilning á því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna í þessum verkefnum. Frá ritstjóra Borgar Þór Einarsson hdl. Styrkja þarf stoðirnar Laganám við HR miðar að því að útskrifa framúrskarandi lögfræðinga sem láta til sín taka í íslensku og alþjóðlegu samfélagi. · 3ja ára grunnnám til BA-gráðu. · 2ja ára framhaldsnám til meistaragráðu. Kynntu þér metnaðarfullt og nútímalegt laganám á www.hr.is LÁTTU TIL ÞÍN TAKA! LAGADEILD HÁSKÓLANS Í REYKJAVÍK

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.