Lögmannablaðið - 01.10.2009, Blaðsíða 23

Lögmannablaðið - 01.10.2009, Blaðsíða 23
LÖGMANNABLAÐIÐ – 3 / 2009 > 23 Af Merði lögmanni Nú er illt í efni. Eins og upplýst hefur verið skildi Mörður ekkert í því að hans góða mannorð, Flokkurinn eða tengsl hans við lykilmenn við Lækjatorg tryggðu honum ekki tímaskriftir með ríkisábyrgð í kjölfar bankahruns á haustmánuðum. Olli þetta pirringi hjá Merði enda taldi hann einboðið að titill sem slitskilanefndaumsjónarmaður myndi ekki eingöngu bæta hjá honum bókhaldið heldur einnig koma möguleikum hans á samneyti við hitt kynið í nýjar hæðir. Ekki veitti af. Til að gæta sanngirni er þó rétt að geta þess að stuttu fyrir hrunið var haft samband við Mörð. Var þar á ferð Flokksfélagi sem Mörður minntist þess ekki að hafa átt samskipti við nema stuttlega fyrir nokkrum árum í móttöku í tilefni skipunar annars flokkshests í eitthvað rosa risaembættið eftir gagnsætt ferli. Flokksfélaginn hringdi í Mörð og talaði við hann eins og þeir væru aldarvinir og mærði á alla kanta áður en hann bar upp erindið: Til stóð að skipa Mörð sem stjórnarformann í nýstofnuðu einkahlutafélagi hefði hann áhuga. Útskýringar um tilgang félagsins skildi Mörður ekki. Enda kannski aukaatriði. Eitthvað tengdist það þó kaupum erlends úlfaldasala á hlutum í íslenskum banka. Sá hafði víst skyndilega fengið áhuga á íslenskum bönkum. Enginn átti þó að borga neinum neitt nema í gegnum einhverja loftfimleika sem meira að segja Mörður áttaði sig á að væru nýju fötin keisarans. Aðalatriðið í huga Marðar var þó að um var að ræða lítið vinnuframlag fyrir fínan pening og samkvæmt manninum í símanum hafði sérstaklega verið óskað eftir Merði til starfans enda Mörður þekktur af vandvirkum vinnubrögðum og heilindum. Mörður hafði alltaf verið ban bóngóður maður og greiðvikinn. Það var honum kennt af móður sinni. Þótti honum ekki við hæfi að neita þessari bón enda bað maðurinn svo fallega. Því fór svo að Mörður tók sæti sem stjórnarformaður í félaginu og fékk greitt fyrir. Hélt að svo búnu áfram með sinn rekstur og leiddi ekki hugann að málinu aftur fyrr en að einn daginn birtist í dyrunum hjá honum maður sem Mörð minnti að hafi eitt sinn verið sýslumaður á Akranesi. Sýslumaðurinn fyrrverandi veifaði leitarheimild sem virtist Merði lögmæt. Merði var umsvifalaust tilkynnt að hann hefði réttarstöðu grunaðs manns og fluttur til yfirheyrslu. Þetta þótti Merði fullkomlega óskiljanlegt og sagði bara eins og var, hann hafi ekki kunnað við að neita beiðninni, enda bóngóður. Mörður bíður nú úrlausnar málsins og reynir í millitíðini að nýta sér titilinn „réttarstöðu grunaðs manns“.Það gengur ekki vel en þó er fátt svo með öllu illt. Mörður á von á því að fá senda mynd af sér sem tekin var við yfirheyrslur, sambærilega við þær sem teknar eru af föngum í amerískum bíómyndum. Hyggst Mörður hafa hana í brjóstvasanum næst þegar hann fer á öldurhús borgarinnar. Það ætti að kveikja í elskunum. xxxx xxx *Til fjölda ára hefur Mörður lögmaður sent vélritaða pistla sína í Lögmannablaðið í brúnu umslagi á skrifstofu félagsins. Framvegis verða pistlarnir skannaðir inn og birtir eins og þeir koma frá lögmanninum.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.