Bændablaðið - 06.03.2014, Page 14

Bændablaðið - 06.03.2014, Page 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. mars 2014 Mikilvægt er að rétt sé staðið að lyfjagjöf í dýr, ekki síst í búfé þar sem afurðir þeirra eru ætlaðar til manneldis. Lyfjaþol örvera er sívaxandi vandamál í heiminum. Ábyrg lyfjanotkun í dýr dregur úr líkum á fjölgun lyfjaþolinna örvera auk þess sem minni líkur eru á að lyfjaleifar finnist í matvælum úr dýraríkinu. Jafnframt geta lyfjaleifar í matvælum verið hættulegar fólki með bráðaofnæmi. Lyfjaþol og lyfjaleifar Röng notkun lyfja getur aukið hættuna á að örverur myndi lyfjaþol og að lyfjaleifar finnist í dýraafurðum. Lyfjaþolnar örverur eru ónæmar fyrir örverudrepandi áhrifum sýklalyfja sem þær voru áður næmar fyrir og því getur reynst mjög erfitt að ráða niðurlögum sýkinga sem slíkar örverur valda ef sýklalyf sem algengt er að nota gegn þeim hrífa ekki lengur. Lyfjaleifar sýklalyfja í matvælum geta einnig stuðlað að myndun lyfjaþols hjá örverum í mönnum ásamt hættunni sem skapast fyrir þá sem eru með hvers kyns lyfjaofnæmi að fá ofnæmisviðbrögð vegna lyfjaleifa í matvælum sem þeir neyta. Ábyrg notkun dýralyfja er áhrifamesti þátturinn til að koma í veg fyrir þetta, sameiginleg ábyrgð liggur því hjá dýralæknum og bændum. Skyldur dýralækna Lög og reglugerðir fjalla um skyldur bænda og dýralækna sem þeir þurfa að standa skil á. Samkvæmt lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr ber dýralæknum að upplýsa eiganda eða umráðamann dýra m.a. um ástand dýra og meðhöndlun, auk þess um algengar aukaverkanir og biðtíma afurðarnýtingar fyrir þau lyf sem notuð eru. Biðtími afurðarnýtingar er sá tími sem þarf að líða frá því að lyfið var síðast gefið dýrum samkvæmt venjulegum notkunarskilyrðum þar til nýta má afurðir dýra til manneldis. Dýralæknir má aðeins afhenda eða ávísa dýralyfjum þegar hann hefur sjúkdómsgreint dýr samkvæmt sömu lögum. Einnig segir í reglugerð nr. 539/2000 um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum að ekki sé leyfilegt að meðhöndla dýr með sýklalyfjum nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis og skal dýralæknir sjálfur hefja meðhöndlunina ef um búfé er að ræða. Undantekning er þó á þessu ákvæði þannig að ef landfræðilegir staðhættir eða veðurfar eru þess valdandi að dýralæknir getur ekki hafið meðhöndlunina þá getur yfirdýralæknir veitt undanþágu. Dýralækni ber þá að gera sérstakan samning við viðkomandi bónda þar sem koma fram skilyrði sem báðir aðilar verða að uppfylla. Í reglugerð nr. 303/ 2012 um rafræna skráningu dýralækna á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun er tilgreint að dýralæknum sem meðhöndla búfé sé skylt að skrá sjúkdómsgreiningar og upplýsingar um lyfjameðhöndlun dýra í sérstakan gagnagrunn Matvælastofnunar sem nefndur er „Heilsa“. Fram til þessa hefur aðeins verið hægt að skrá vegna nautgripa og hrossa, en nýlega bættist sauðfé við. Dýralæknar einir hafa aðgang að „Heilsu“ en gagnagrunnurinn miðlar og sækir upplýsingar úr skýrsluhaldskerfum Bændasamtaka Íslands og eru skráningar dýralækna sýnilegar bændum fyrir eigin dýr í skýrsluhaldskerfum þeirra, s.s. Huppu, Lambi og Worldfeng. Sláturhús fá upplýsingar úr „Heilsu“ um biðtíma afurðarnýtingar sláturdýra daglega sem eykur matvælaöryggi til muna og dregur þannig úr líkum á að lyfjaleifar séu í matvælum. Skyldur bænda Umsjónarmaður búfjár er ábyrgur fyrir því að skráningar séu til staðar á sjúkdómum og lyfjameðhöndlunum í búfé hans. Í reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár eru ákvæði um heilsukort þar sem krafa er um að upplýsingar um sjúkdóma og meðhöndlanir séu skráðar á eyðublöð sem Matvælastofnun viðurkennir eða í tölvukerfi. Í reglugerð nr. 103/2010 um hollustuhætti sem varða matvæli er einnig kveðið á um að bændur skulu halda skrár um notkun á dýralyfjum þar sem fram koma dagsetningar lyfjagjafa, biðtími afurðarnýtingar ásamt skrá um sjúkdóma, en þar segir einnig að frumframleiðendur geti notið liðsinnis annarra við skráningar t.d. dýralækna. Ábyrgð á að þessar skráningar séu til staðar hvílir því á bændum og skulu slíkar skráningar vera aðgengilegar við opinbert eftirlit, en Matvælastofnun hefur eftirlit með lyfjanotkun í búfé auk eftirlits með ávísun dýralyfja hjá dýralæknum. Sjúkdóma- og lyfjaskráningar geta ýmist verið til staðar í tölvukerfum eða á eyðublöðum (heilsukort) sem Matvælastofnun samþykkir. Hafi bændur aðgang að skráningum dýralækna, t.d. í skýrsluhaldskerfum eða eyðublöðum útfylltum af dýralæknum, þurfa bændur ekki að skrá upplýsingarnar sjálfir. Á heimasíðu Matvælastofnunar er að finna dæmi um heilsukort sem Matvælastofnun samþykkir. Guðrún Lind Rúnarsdóttir, sérfræðingur lyfjamála og aukaafurða dýra Notkun dýralyfja í búfé ...frá heilbrigði til hollustu Það er mikið að gerast hjá Matís um þessa mundir því Ísland fer með formennsku í Norræna ráðherraráðinu og leggur áherslu á eflingu lífhagkerfisins í þriggja ára formenskuáætlun sem hlotið hefur nafnið NordBio. Sigrún Elsa Smáradóttir er verkefnisstjóri NordBio verkefnisins á vegum Matís og svarði hún nokkrum spurningum af því tilefni. – Matarsmiðjur Matís, út á hvað gengur það verkefni, hvar eru matarsmiðjurnar staðsettar á landinu og hver er tilgangur þeirra ? „Matarsmiðjur Matís eru fyrst og fremst hugsaðar til að vera frumkvöðlum og smáframleiðendum matvæla til aðstoðar, hvort sem þeir þurfa aðstöðu eða aðstoð við vöruþróun eða framleiðslu. Innan Matís er fjöldi sérhæfðra ráðgjafa sem framleiðendur geta nýtt sér til þess að auka fjölbreytni og gæði sinnar framleiðslu. Sérfræðingar Marís veita aðstoð við allt frá þróun uppskrifta, vinnsluferla og gæðakerfa til framkvæmdar á skynmati og innihaldsmælingum auk annarra þátta sem snúa að vöruþróun eins og hönnunar umbúða og útlits vöru. Markmiðið er að leysa það sem upp kemur í vöruþróun og framleiðslu og fá út sem besta vöru. Vöruþróunin getur falið í sér þróun hagkvæmari vinnsluferla, betri nýtingu hráefnis, nýtingu áður ónýtts hráefnis eða jafnvel þróun betri umbúða sem auka söluhæfni og líftíma svo eitthvað sé nefnt“, segir Sigrún. – Formennska í Norræna ráðherraráðinu, hvað er það og út á hvað gengur það verkefni? „Já, Ísland fer með formennsku í Norræna ráðherraráðinu og leggur áherslu á eflingu lífhagkerfisins í þriggja ára formenskuáætlun sem hlotið hefur nafnið NordBio. Matís hefur fengið það hlutverk að leiða nýsköpunarverkefni á þessu sviði og mun leggja áherslu á þrjú verkefnasvið. Þau eru nýsköpun og vöruþróun á sviði matvæla, aukning sjálfbærni í matvælaframleiðslu og aukna framleiðslu lífmassa. Matarsmiðjur Matís munu nýtast mjög vel þegar kemur að nýsköpun og þróun nýrra matvara“. – Þið eruð að auglýsa eftir umsóknum í verkefnið. Hvað getur þú sagt mér um það og hvernig verður það gert og hvað viljið þið fá út úr því ? „Í fyrsta hluta verður auglýst eftir þátttakendum í stutt vöruþróunarverkefni á sviði matvæla bæði hér heima og á Grænlandi og í Færeyjum. Hægt er að sækja um þátttöku á heimasíðu Matís til 13. mars með því að fylla þar út stutta umsókn. Hér erum við sérstaklega að líta til aðila sem hafa nú þegar nokkuð mótaðar hugmyndir um hvaða vörur þá langar að framleiða og hafa jafnvel verið að prófa sig áfram lengi en vantar herslumuninn til að geta framleitt og markaðssett vöruna. Verkefnið veitir þessum aðilum þá aðgang að matarsmiðjum og sérfræðingum til að fullgera vöruna, komast yfir hindranir og framleiða frumgerðir vörurnar. Stefnt er að því að hefja vöruþróunarvinnuna núna um mánaðarmótin mars - apríl og að vörur verði tilbúnar í byrjun júní en þá verður afraksturinn kynntur á ráðstefnu sem haldinn verður á Selfossi í tengslum við norrænan ráðherrafund 25. júní“, segir Sigrún ennfremur. – Þið eruð með matarsmiðju á Flúðum. Hvernig hefur það verkefni gengið og hvernig viðtökur hafið þið fengið við smiðjunni ? „ Það er rétt, við erum með flotta matarsmiðju á Flúðum en einnig á Höfn og í Reykjavík. Ég held að fullyrða megi að smáframleiðendur sem starfað hafa með okkur eru almennt mjög ánægðir með þjónustuna sem þeir fá hjá Matís og það að geta komið inn í vönduð eldhús þar sem aðgengi er að ýmiskonar framleiðslu tækjum til að þróa og jafnvel framleiða vörur sínar. Það veitir þeim tækifæri til að fá framleiðsluna vottaða til sölu á neytendamarkaði án þess að leggja út í þann stofnkostnað sem fylgir framleiðslueldhúsi. Þannig geta menn sannreynt eftirspurnina eftir vörunni, þróað vöruna að þörfum markaðarins og í kjölfarið metið á hvaða tímapunkti skynsamlegt er að fjárfesta í eigin framleiðsluaðstöðu.“. – Er mikil gróska í matarmenningu þjóðarinnar og af hverju þessi mikli áhugi á mat og matargerð ? „ Já, áhugaverðar hugmyndir að nýjum og bættum vörum eru stöðugt að koma upp í samskiptum okkar við smáframleiðendur. Við sjáum einnig að smáframleiðendur eru alltaf að verða meðvitaðri um gildi góðra og vel hannaðra umbúða og merkinga, bæði til að tryggja gæði vörunnar sem og til að gera hana söluvænni. Góð dæmi um verkefni sem stuðlað hafa að þessari þróun eru verkefni sem unnin voru í samstarfi Matís, Listaháskóla Íslands og bænda/ smáframleiðenda og kölluðust „Stefnumót hönnuða og bænda“ en þau verkefni urðu til þess að margir fóru að líta þessa þætti öðrum augum og sjá gildi fjölbreyttrar samvinnu. Í framhaldinu hafa fleiri smáframleiðendur nýtt sér þjónustu hönnuða við gerð sinna vara sem aftur eykur verðmæti hennar“. – Eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri ? „Já, ég vill eindregið hvetja þá sem hafa hugmyndir að nýjum eða endurbættum matvörum til að fara inn á heimasíðu Matís og kynna sér málið. Allir geta sent inn umsókn bæði smáframleiðendur matvæla sem þegar eru með vörur á markaði en vilja auka vöruúrvalið og einnig þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref í matvælaframleiðslu. Nú er tækifærið til að hrinda hugmyndum í framkvæmd og fá aðstoð færustu sérfræðinga til þess“, sagði Sigrún að lokum. /MHH Matarsmiðjur Matís í norrænni nýsköpun: Kallað eftir áhugaverðum hugmyndum Sigrún Elsa Smáradóttir , sem er verkefnisstjóri NordBio verkefnisins á vegum Matís. Í síðasta mánuði var undirritaður samningur um áframhaldandi samstarf Matís og sveitarfélaganna fjögurra í uppsveitum Árnessýslu; Hrunamanna- hrepps, Bláskógarbyggðar, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Grímsnes- og Grafningshrepps. Samningurinn gerir Matís kleift að standa áfram fyrir matarsmiðju á Flúðum.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.