Bændablaðið - 06.03.2014, Blaðsíða 41
41Bændablaðið | Fimmtudagur 6. mars 2014
L
Lesendabás
Aðgangur að nytjalandi er
undirstaða velferðar í heiminum.
Á því byggist fæðuöryggi,
vatnsöflun og margvísleg
önnur þjónusta vistkerfa sem
stjórna lífsafkomu íbúanna.
Undanfarin ár hafa ýmsar þjóðir
og stórfyrirtæki í vaxandi mæli
fjárfest í landi fjarri sínum
heimabyggðum til að tryggja
eigin framtíðarafkomu. Veitir
íslensk löggjöf örugga vörn
gegn slíkri ásælni? Er hætta á að
Íslendingar geti lent í þeirri stöðu
að verða leiguliðar í eigin landi?
Ný nýlendustefna grefur um sig
Með vaxandi fólksfjölda, rýrnandi
landgæðum og samkeppni um
náttúruauðlindir hefur eftirspurn
eftir landi aukist mjög hratt.
Ástæðan er yfirleitt sú að fyrirtæki
jafnt sem ríkisstjórnir reyna að
mæta eftirspurn eftir matvælum
heima fyrir og tryggja sína
hagsmuni inn í óvissa framtíð.
Stórfelld framleiðsla á lífrænu
eldsneyti er þar einnig áhrifavaldur.
Fæðuöryggi jarðarbúa er
mjög viðkvæmt og innflutningur
matvæla verður æ stærri hluti af
neyslu margra fjölmennra þjóða.
Árið 2007 hófst hrina verðhækkana
á matvælum í heiminum og náði
matarverð sögulegu hámarki í
mars 2011. Afleiðingarnar urðu
víðtækar. Til þeirra má m.a. rekja
„arabíska vorið“, ókyrrðina í Mið-
Austurlöndum sem leiddi af sér fall
ríkisstjórna og einræðisherra.
Þessar miklu verðsveiflur á
matvælum urðu til að kynda nýtt
kapphlaup um land til ræktunar
og aðgengi að vatni. Landaafsal
til þjóða og fyrirtækja er það
stórfellt að líkja má því við nýja
nýlendustefnu, þar sem enginn
heimshluti er undanskilinn.
Afleiðingarnar eru víðtækar,
m.a. hrun fjölskyldubúskapar,
efnahagsleg forysta færist til og
valdajafnvægi er að raskast. Í
sumum löndum hefur þessi þróun
einnig komið niður á fæðuöryggi.
Kaup útlendinga á landi –
Vaxandi deilumál
Tilraunir útlendinga til að kaupa
Grímsstaði á Fjöllum ullu miklum
deilum hér á landi. Við erum ekki
ein á báti með slíkar áhyggjur.
Svipuð umræða á sér stað í öllum
heimshornum og veldur sala eða
leiga á landi til erlendra ríkja og
alþjóðlegra fyrirtækja víða miklum
deilum. Sem dæmi má nefna að árið
2008 reyndi fyrirtæki í Suður Kóreu
að leigja stóran hluta ræktanlegs
lands á Madagaskar til 99 ára. Það
ætlaði að rækta korn á einni milljón
hektara fyrir sinn heimamarkað.
Þjóðin gerði uppreisn og þessi
áform urðu spilltum leiðtoga
eyjarinnar að falli.
Miklar deilur hafa einnig orðið
í Nýja Sjálandi vegna útlensks
eignarhalds á landi. Fyrirsögn
þessarar greinar „leiguliðar í
eigin landi“ er raunar yfirskrift
blaðaviðtals við forsætisráherra
Nýja Sjálands frá árinu 2010. Í
því lýsti hann áhyggjum sínum
yfir vaxandi eignarhaldi erlendra
aðila á nýsjálensku landi. Könnun
sem gerð var sama ár leiddi í
ljós að 75,5% þjóðarinnar vildi
herða löggjöf til takmörkunar á
möguleikum útlendinga til að
eignast land. Nýsjálendingar
hafa ekki komist að niðurstöðu
hvernig beri að taka á þessu
máli en umræðan um eignarhald
á nytjalandi er enn mjög heit.
Góð leitarorð fyrir upplýsingar á
veraldarvefnum um þetta vaxandi
vandamál eru „land grab“ og „land
grabbing“.
Kínverjar eru þjóða stórtækastir
í landakaupum og leigu enda
njóta slík áform öflugs stuðnings
ríkisstjórnar landsins. Kaupendur
fá afar hagstæð lán heima fyrir og
mörg fyrirtækjanna sem eru á bak
við landakaup erlendis eru í raun
bein framlenging ríkisvaldsins.
Margar aðrar þjóðir og fyrirtæki feta
þennan sama veg. Áhrif þessarar
þróunar á búsetu og afkomu fólks
sem býr á viðkomandi svæðum er
í mörgum tilvikum afar neikvæð,
s.s. hrun smábúskapar, uppflosnun
fólks, rányrkja lands og uppblástur.
Íslenskur veruleiki
Á undanförnum áratugum
hafa orðið miklar breytingar
á eignarhaldi bújarða hér á
landi og kaup á bújörðum verið
vinsæl fjárfesting. Þessi þróun er
sambærileg því sem víða gerist. Í
ofangreindu viðtali við nýsjálenska
forsætisráðherrann varaði hann
til að mynda ekki síður við því
að bændur gætu orðið landsetar
innlendra fjárfesta en verkamenn
á erlendum stórbúum.
Á alþjóðlegum mælikvarða er
land á Íslandi mjög ódýrt. Með
vaxandi ferðaþjónustu heillast æ
fleiri ferðalangar af okkar fagra
landi. Búast má því að þeim fjölgi
mjög sem líta hingað hýru auga
til landakaupa. Á bak við slíkan
áhuga eru margþætt sjónarmið,
hvort heldur sem er til notalegrar
dvalar, fjárfestinga eða til að
tryggja aðgang að landi á tímum
hækkandi matvælaverðs. Reynsla
annarra þjóða bendir til að sumir
hinna nýju jarðeigenda eigi
ekki auðvelt með að samlagast
viðhorfum og reglum viðkomandi
landa. Það getur m.a. átt við aðgang
almennings að landi, skipulagsferla
og krafna um gæði landnýtingar.
Land og vatn eru okkar stærstu
auðlindir. Við myndum aldrei láta
okkur koma til hugar að selja frá
okkur aðgang að fiskimiðunum
og það sama ætti klárlega að gilda
um landið okkar. Við verðum að
ígrunda vel hvernig við höldum
auðlindum okkar í íslenskri
eigu. Hve vel er íslensk löggjöf í
stakk búin til að koma í veg fyrir
stórfelld kaup útlendina á landi eða
takmarka slík kaup við tilteknar
grundvallarreglur, sem ekki hafa
enn verið skilgreindar? Slíkt er afar
vandmeðfarið en verður að taka til
gagngerðrar umfjöllunar hið fyrsta.
Andrés Arnalds
Mjólkurframleiðsla er að
sönnu framleiðsla matvæla,
það getum við öll verið
sammála um, en hvað með
það?
Þegar vísitölufjölskylda þessa
lands ekur um sveitir landsins
eins og oft gerist á sumrin og
ef pabbinn hefur tíma til að
aka aðeins hægar og jafnvel
stoppa af og til, mamma hættir
að hanga í gemsanum og Jói
litli og Silla systir í aftursætinu
líta uppúr „Ipaddnum“, þá
geta þau farið að virða fyrir
sér fallegu bæina sem ekið er
framhjá. Dást að vel hirtum og
máluðum húsakosti, íbúðarhúsi,
fjósi, hlöðu og vélageymslu þar
sem snyrtimennskan skín af
hverju strái. Þau myndu telja
líklegt að þar hlyti að vera
mjólkurframleiðsla. Á því væri
varla nokkur vafi því allt væri
svo snyrtilegt og fallegt. Pabbinn
hægir ferðina á bílnum og meira
segja mamma hættir að mala í
símann og hann segir:
„Krakkar, sjáið þennan
snyrtilega bæ, hér er örugglega
framleidd mjólk”.
„Vá maður! flottur bær, pabbi
- stoppaðu...!“
Góð ímynd undir
mjólkurframleiðendum
sjálfum komin
Í stórum dráttum er ég að
segja þetta. Það er undir
mjólkurframleiðendum sjálfum
komið að festa í sessi hugtökin
„Mjólk er góð" og „Mjólk er
holl". Það er ímyndarstaðan
sem allt veltur á, nú sérstaklega
á seinustu árin þegar baráttan við
aðra vöruflokka í fæðukeðjunni
er hörð og ímyndarslys eru því
miður langrækin og gleymast
ekki strax. Þar geta örfáir slóðar
eyðilagt gæðahugsunina sem
landsmenn flestir hafa tileinkað
sér, það er að ímynd mjólkurvara
sé hollusta, hreinleiki og
náttúruafurð.
Þegar neytendur þessa
lands aka um sveitirnar
ætti að vera hægt að þekkja
mjólkurframleiðslubæi úr
vegna snyrtimennsku og góðrar
umgengni. Öll hús vel máluð
og hirt, aðkoma og heimreið
snyrtileg og rúlluböggum
snyrtilega raðað upp, eins vélum
og tækjum og girðingum vel
við haldið. Öllu rusli og óþarfa
véladrasli komið fyrir kattarnef,
ekki látið liggja eins og hráviðri
um öll tún, né heldur baggaplast
hangandi á girðingum og í
skurðum.
Merking
mjólkurframleiðslubæja
Undiritaður og fleiri hafa
átt sameiginlegt áhugamál,
það að standa fyrir
merkingum við heimreiðar á
mjólkurframleiðslubæjum með
áletruninni Hér er framleidd
mjólk eða Við framleiðum
mjólk. – Hver myndi vilja skarta
slíku skilti án þess að taka ærlega
til hjá sér áður? Þegar gætu
fjölmargir sett upp slík skilti
strax, en því miður ekki nærri
allir.
Slóðinn skemmir ímynd allra
annarra
Það er ekki bara „slóðinn” sem
bíður álitshnekki ef umgengni
og ásýnd er ábótavant heldur
allir hinir líka, sem eru með
allt til fyrirmyndar. Ef dregin
er upp dökk mynd af einum
framleiðanda þá varpar hann
skugga á alla hina, vegna þess
að fólki er svo gjarnt, því miður,
að spyrða alla saman í einn flokk.
Allir hinir fá sama sóðastimpilinn
og framtíðarneytendur landsins,
þ.e. börnin fá rangar hugmyndir
um það sem á bænum er framleitt.
Þau myndu því líklega segja:
„Oj bara, ég vil ekki kúamjólk”
- Bændur; sýnið á ykkur betri
hliðina.
Kristján Gunnarsson,
ráðgjafi um mjólkurgæði
hjá Bústólpa.
Leiguliðar í eigin landi
Betri hliðin
x
Fyrirtæki og félög í eigu einstakra ríkja sælast nú í auknum mæli eftir kaupum
á landbúnaðarlandi og hráefnisríku landi víða um heim til að tryggja eigin
landsmönnum aðgengi að fæðu og hráefnum til eigin framleiðslu í framtíðinni.
Er þessi ásælni gjarnan kölluð „Land Grabbing".
www.VBL.is
REYKJAVÍK Sími: 414-0000 /// AKUREYRI Sími: 464-8600 /// www.VBL.is
• 10,400 lítra.
• 9,000 lítra dæla.
• Dekk: Michelin 600/55 R26,5
• Fjaðrandi beisli.
Til afgreiðslu Pichon haugsuga
Verð kr. 3.400.000 án vsk.
REYKJAVÍK
Krókháls 5F
110 Reykjavík
Sími: 414-0000
AKUREYRI
Baldursnes 2
603 Akureyri
Sími: 464-8600
• Drifskaft með tvöföldum hjörulið.
• 6 metra 6“ barki fylgir með.
• Smíðuð til að endast.
• Smíðuð úr þykku gæðastáli.
• Galvaniseruð að utan og innan.
Bændablaðið
Kemur næst út
20. mars