Bændablaðið - 06.03.2014, Side 16

Bændablaðið - 06.03.2014, Side 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. mars 2014 Ég ólst upp á Akureyri til níu ára aldurs. Eins og allir vita er Akureyri höfuðstaður öskudagsins og var þar til siðs að börn gengju í búðir og fyrirtæki, íklædd búningum, og ynnu sér inn sætindi með söng. Þegar leið á daginn safnaðist síðan múgur og margmenni saman á Ráðhústorginu þar sem kötturinn var sleginn úr tunnunni. Þessi siður breiddist síðan út um land allt og á öskudag má því reikna með að rekast á ketti, trúða, alls konar óvætti og skrípi sem óvenjulegt er að hitta á förnum vegi aðra daga. Þegar líða tók að öskudegi í minni æsku varð líf í tuskunum. Börn fóru að skeggræða við foreldra sína (einkum þó mæður) um hvers konar búningum þau gætu klæðst. Svo hófu mæðurnar saumaskapinn. Þá var líka gjarnan farið í Sigga Gúmm, sem mér er sagt að hafi verið stærsta leikfangaverslun landsins á sinni tíð og hét sjálfsagt Leikfangaverslun Sigurðar Guðmundssonar. Þar mátti kaupa margskonar aukahluti, hatta, grímur og leikfangavopn af ýmsu tagi. Mamma lét sig ekki muna um að búa mig út sem Hróa Hött, sem kúreka og sjálfsagt eitthvað fleira sem mér er horfið úr minni. Hún settist við saumavélina sína og Voilá! Búningarnir voru síst lakari en þeir sem nú má kaupa í ýmsum leikfangaverslunum. Ég hins vegar bjó við það ofbeldi (að eigin mati) að mér var bannað að eiga skotvopn. Sama hvað ég tuðaði og skældi fékk ég ekki hróflað við þeim pabba og mömmu með það. Foreldrar mínir voru vinstrisinnaðir herstöðvarandstæðingar og líklega skýrist þessi afstaða þeirra gagnvart skotvopnum af því. Í það minnsta var þeim af einhverjum ástæðum alveg sama þó ég ætti boga og örvar, sverð og allra handa vopn önnur en byssur kæmu ekki inn á heimilið! Þar með voru engar hvellhettu skammbyssur tiltækar þegar ég vildi gerast kúreki og syngja fyrir nammi. Þetta olli mér miklu hugarangri því þrátt fyrir að ég sífraði stanslaust svo dögum skipti var ekki við þetta komandi. En henni mömmu var ekki alls varnað. Þegar ég var alveg orðinn vonlaus um þetta fyrirtæki allt saman birtist hún allt í einu með rosa flotta skammbyssu. Hana hafði hún, að sögn, fengið lánaða hjá syni einhverrar vinkonu sinnar og ég mátti fá hana til að fullkomna kúrekabúninginn. Ég þóttist himinn höndum hafa tekið, hélt svo út í öskudaginn eldsnemma og hef örugglega komið með kíló af nammi heim eftir sönginn. Seinna var ég eitthvað að snuðra heima hjá mér, eins og börnum er tamt. Kemur þá ekki byssan góða í leitirnar. Hún mamma hafði vitanlega séð aumur á stráknum sínum og laumast í Sigga Gúmm og keypt byssuna góðu þar. Þannig eru mömmur nefnilega, þær gera allt fyrir börnin sín. Takk mamma, fyrir byssuna góðu. Þess má geta að börnin mín þurfa nú að búa við sama ofbeldi og ég bjó við, enda eiga þau vinstrisinnaða friðarsinna fyrir pabba. Engar byssur skulu koma inn á heimilið. Já, lífið það gengur í hringi. /fr STEKKUR Öskudagur og ofbeldi Eftirtektarverður árangur í afurðasemi kúa á bænum Þingmúla í Skriðdal: Meðalafurðir búsins jukust um 1.213 kg á árskú milli ára Á bænum Þingmúla í Skriðdal á Austurlandi hafa orðið töluverðar breytingar á kúabúskapnum síðustu árin og eftirtektarverður árangur í afurðasemi kúnna náðist á nýliðnu ári er meðalafurðir búsins jukust um 1.213 kg á árskúna frá fyrra ári. Að búskapnum hafa um árabil staðið þau Sigurbjörn Árnason og Ásta Sigríður Sigurðardóttir, en nú eru sonur og tengdadóttir komin til liðs við þau. Sigurbjörn og Ásta hófu búskap á jörðinni árið 1978. Fyrst bjuggu þau með sex kýr ásamt sauðfé en juku síðan við mjólkurframleiðsluna og árið 1985 var nýtt 22 kúa básafjós byggt. Sindri Fannar, sonur Sigurbjörns og Ástu, kom inn í búskapinn fyrir tveim árum, eða um það leyti sem hann kláraði búfræðinám sitt frá Hvanneyri. Ári síðar flutti svo einnig á staðinn unnusta hans, Jóna Sigríður Guðmundsdóttur, en hún var einnig í námi á Hvanneyri og útskrifaðist þaðan síðasta vor. Í dag standa því þau fjögur að búskapnum með og hafa því augljóslega gott svigrúm til að skipuleggja sig og að sinna þeirri vinnu sem til fellur á búinu. Markvissari fóðrun og bætt frjósemi Sindri var spurður hvernig hann skýrði mikla afurðaaukningu sem orðið hefði á undanförnum misserum. „Hvað varðar þessa miklu afurðaaukningu er best að lýsa með markvissari fóðrun og bættri frjósemi. Þegar við komum inn í búskapinn var ákveðið að gera allt til þess að nýta það sem til er hér og gera enn betra. Við vissum það einnig að ef það myndi takast þá myndu skapast hér forsendur til þess að stækka búið og auka framleiðsluna til muna. Þetta hófst allt með því að taka svolítið til í hópnum, lóga gripum sem mjólkuðu lítið og koma að gripum sem voru efnilegri samkvæmt kynbótaspá. Þá þurftum við að meta túnin og hefja endurræktun á þeim sem ekki skiluðu nægri uppskeru, ákveða áburðarskammta og skipuleggja heyskapinn eins og sláttutíma og verkun heyjanna.“ Sindri segir að það séu ekki síst smáatriðin sem skipti miklu máli til að ná frekari framförum. Það séu atriði eins og lýsing, loftræsting og hreinlæti í fjósinu sjálfu svo gripunum líði sem best. Nýta Nor-For til að meta fóðurþörf Í byrjun síðasta árs byrjuðu þau einnig að nota Nor-For fóðuráætlanakerfið. Varð þeim þá betur ljóst hvernig gróffóður væri best að gefa samhliða og hvaða kjarnfóðurblanda hentaði gróffóðrinu. Í kjölfarið hafa þau gefið þrjár tegundir af gróffóðri, þrisvar á dag ásamt heimaræktuðu byggi og kjarnfóðri. Að sögn Sindra Fannars hefur meltanleikinn á gróffóðrinu verið ágætur, en rúllurnar eru með 7 cm söxun. „Gróffóðrið samanstendur af snemmslegnu, þurru heyi af túni í góðri rækt eða áborinni há, grænfóðri sem samanstendur af höfrum, ertum og repju og síðan grófu heyi af eldri túnum. Snemmslegna heyið er orkumikið og hefur þokkalegt próteinvægi. Þá gefa þau bygg tvisvar á dag, fyrir mjaltir kvölds og morgna. Hámjólkakýr í upphafi mjaltaskeiðs fá þó ekki mikið bygg en þeim mun meira af kjarnfóðri í staðinn. Það er ekki fyrr en við 60-80 daga frá burði að þau auka bygggjöfina í hlutfalli við kjarnfóðurgjöf. Kýr sem eru komnar á seinni hluta mjaltaskeiðs og mjólka 17 lítra eða minna fá svo eingöngu bygg með gróffóðrinu og ekkert kjarnfóður, að sögn Sindra. Kýr sem mjólka 30 lítra og eru komnar 100 daga frá burði fá um 6 kg af kjarnfóðri ásamt 5 kg af byggi á dag. Kjarnfóðurgjöfinni skipta þau í tvær gjafir á dag en fái kýrnar 6 kíló er gjöfinni skipt í þrennt yfir daginn. Í slíkum tilfellum er kjarnfóðrið gefið um miðjan daginn, um leið og þau gefa kúnum grænfóðrið. Hefðbundið uppeldi „Í Þingmúla eru kálfar hafðir í hálmstíu til 3-4 mánaða aldurs og eru hafðir á mjólkurgjöf. Broddinn fá þeir eins lengi og hann er til en síðan duftmjólk, í tveimur skömmtum, 4-8 lítra á dag eftir aldri. „Í flestum tilfellum venjum við þá af mjólk 3 mánaða gamla. Ásamt mjólkurgjöfum fá þeir kálfaköggla og úrvalshey. Eftir mjólkurfóðrun eru kálfar aldir upp á viðhaldsfóðri, en þar sem hér í Þingmúla er því miður plássleysi höfum við uppeldisaðstöðu á næstu jörð hjá nágranna okkar sem hefur verið að draga úr sinni starfsemi. Þar ganga allar kvígur úti yfir sumarið ásamt nokkrum uxum. Kvígur eru síðan allar sæddar, flestar með óreyndum nautum, við aldurinn 14-17 mánaða, fer eftir þroska og stærð. Í flestum tilfellum næst fang í þær 16 mánaða gamlar,“ segir Sindri. Góðar horfur í ár En hvernig horfir þessi ungi og augljóslega kraftmikli bóndi til á stöðuna eins og hún er í dag? „Horfurnar á þessu ári eru mjög góðar hjá okkur. Við munum að öllum líkindum ná að auka framleiðsluna enn frekar en raunin er samt sú að fjósið sjálft er að verða takmarkandi þáttur hjá okkur. Það er því ljóst að það þarf að koma til uppbyggingar í mjög náinni framtíð. Þá er gott að sala á mjólkurafurðum sé eins og hún er núna og verður vonandi áfram en um það ríkir vissulega óvissa. Við teljum okkur geta framleitt mjólk með hagkvæmum hætti á þessu afurðastöðvaverði og erum fegin að það sé greitt fullt afurðastöðvaverð, því annars væri þetta tapaður leikur. Ég held að núna þurfi einmitt hinir minni mjólkurframleiðendur að taka sig á og auka við framleiðsluna svo hægt verði að anna eftirspurninni eftir mjólk. Það er hins vegar dýrt að byggja, rækta land og síðast en ekki síst, allt of dýrt að kaupa sér kvóta, svo nú ætti einnig að nota tækifærið og endurskoða mjólkursamninginn, styrkjakerfið og kvótakerfið því eins og staðan er núna er mjög erfitt fyrir bú eins og þetta að fara út í stóra framleiðsluaukningu.“ Draumurinn að byggja nýtt fjós Að sögn Sindra Fannars er draumurinn að ráðast í fjósbyggingu í framtíðinni og auka framleiðsluna að minnsta kosti um helming. Þá eru hugmyndirnar að byggja nýtt fjós og að breyta því gamla í aðstöðu fyrir uppeldi á kvígum. Til að þessi áform gangi eftir þarf þó ýmislegt að breytast að mati Sindra, bæði hvað snertir fjármögnunarleiðir í landbúnaði og núverandi framleiðslukerfi. „Það er frekar erfitt að fjárfesta í nýbyggingu fyrir tugi milljóna ásamt því að fjárfesta í kvóta fyrir sömu upphæð til þess eins að geta hafið framleiðslu. Þetta er afar einfalt hagfræðidæmi sem gengur bara ekki upp,“ sagði Sindri Fannar. Ítarlegri umfjöllun má finna vefsíðunni naut.is. /Snorri Sigurðsson. Sindri Fannar Sigurbjörnsson og Ásta Sigríður Sigurðardóttir. Grunnurinn að góðu verki er gott gróffóður. Mynd / Sindri Fannar Fjósið er nokkuð hefðbundið básafjós. Mynd / Sindri Fannar

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.