Bændablaðið - 06.03.2014, Blaðsíða 26

Bændablaðið - 06.03.2014, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. mars 2014 Í tengslum við setningu Búnaðarþings 2014 sem haldin var í Hörpunni á laugardag var Matarmarkaður ljúfmetis- verslunarinnar Búrsins haldinn á jarðhæð. Véla- og fóðursalar voru jafnframt mættir með dráttarvélar og tæki til sýnis. Sauðfjárbændur buðu gestum og gangandi upp á grillað lambakjöt úr grillvagni Landssamtaka sauðfjárbænda og hægt var að kaupa eðal nautahamborgara úr hamborgarabílnum Tuddanum frá félagsbúinu að Hálsi í Kjós. Þá stóð kokkakeppni Food & Fun hátíðarinnar yfir í Norðurljósasal Hörpu á sama tíma og setning búnaðarþings fór fram. Vakti þetta nýja snið búnaðarþings mikla athygli og mættu 30 þúsund gestir á viðburði í og við Hörpuna um helgina af þessu tilefni. Matarmarkaður Búrsins Tíðindamaður Bændablaðsins tók nokkra þátttakendur Matarmarkaðar Búrsins tali og lá beinast við að heyra fyrst hljóð í þeim sem bera í raun ábyrgð á tilurð þessa markaðar sem virðist vera kominn til að vera. Eirný Ósk Sigurðardóttir, eigandi Búrsins, sagðist fúslega viðurkenna að tilkoma markaðarins væri henni að kenna. „Allt okkur að kenna“ „Þetta hefur gengið rosalega vel og ég er ótrúlega ánægð með mitt fólk. Þetta er vissulega allt okkur að kenna og ég ætti eiginlega að biðjast innilega afsökunar,“ sagði hún tvíræð á svip. „Við erum búin að draga hingað fólk víða að af landinu. Hér er til dæmis fólk frá Miðskeri í Hornafirði sem búið er að eyða sjö klukkustundum í að aka hingað með sínar vörur og hefur lagt mikið á sig til að vera hér með okkur.“ Nauðsynlegt fyrir fólkið í borginni Eirný segir það sitt mat að nauðsynlegt sé að vera með svona markað í höfuðborginni. „Þó við teljum okkur trú um það, að hér á okkar litla Íslandi sé allt svo hreint, gott og yndislegt, þá er okkar matvælaframleiðsla samt háð sömu lögmálum og hjá miklu stærri framleiðendum úti í heimi. Með stöðugt meiri kröfum um ódýrri matvörur erum við alltaf að nálgast framleiðsluferli á matvöru sem er hvorki gott fyrir dýr eða fólk. Neytendur hafa þó verið að sýna vilja á síðastliðnum árum til að fá upplýsingar um rekjanleika matvöru og fá að hitta fólkið sem framleiðir vöruna. Þetta er svo sem ekki neitt nýtt, því svona var þetta hér til forna. Við erum því með svona markaði að gefa fólki kost á fara aðeins aftur í tímann hvað þetta varðar. Það kostar alltaf að framleiða mat og því meira sem menn reyna að sneiða hjá kostnaðinum og búa til stöðugt ódýrari vörur, þá verður það ekki gert nema með svindli.“ Þar á Eirný við íblöndun margvíslegra efna í matvæli og notkun hjálparefna við framleiðsluna sem sætir ört vaxandi gagnrýni. Borgarbörnin fái að tengjast bændum „Ég er alin upp erlendis. Ég var líka alin upp við það sem krakki að mamma og pabbi drógu mig með sér á markaði. Þar var ég sem krakki að smakka hráefnin, tala við bændurna. Ég fékk þar að kynnast heimi sem var undraverður, dásamlegur og bragðgóður. Slík menning hefur ekki verið til í höfðuborg Íslands. Úti á landsbyggðinni hefur samt alltaf verið ákveðin markaðsstemming en í borginni hafa krakkar ekki haft svona beint aðgengi að þeim sem framleiða matinn.“ Uppruni matarins Eirný segir að það sé ekki síst upplifunin af því að koma á svona markað sem skipti máli. Krakkar sem fá að kynnast slíku, setji matinn sem það borðar í samhengi við bóndann á markaðnum og langi til að fara þangað aftur. „Ég lít þannig á að við séum að hafa mikil áhrif á næstu kynslóð með því að koma á fót svona markaði. Það skiptir mig allavega miklu máli. Þegar börn í Bandaríkjunum eru spurð að því hvaðan maturinn komi, þá segja þau að hann komi úr stórmarkaði. Sumir krakkar gera ekki einu sinni greinarmun á tómat og kartöflum. Ég var í versluninni Nóatúni ekki alls fyrir löngu. Þar var faðir með 19 ára syni sínum og voru þeir með innkaupalista frá konunni. Þá þurftu þeir að spyrja hvað blaðlaukur væri. Ég varð kjaftstopp og hugsaði með mér, nei, þetta gengur ekki, það verður að gera eitthvað í þessu.“ - Eirný hefur greinilega ekki látið þar sitja við orðin tóm. „Þetta er svo gaman“ „Þetta er svo gaman og við erum stolt af því sem við erum að gera! Svo erum við líka á heimsmælikvarða með okkar matvæli. – Nú er helgi, fólk í fríi og hvað er skemmtilegra en að rölta um svona markað. Svo er Harpan tilvalin fyrir þetta, þegar veðráttan er ekki alltaf eins og best er á kosið. Hér er nægt pláss og þetta er fullkomið húsnæði fyrir svona markað. Upplifun og fræðsla fyrir börnin Hlédís Sveinsdóttir var á fullu að vinna með Ernýju á sölubás Búrsins. Hún segir að nálgunin við bændurnar með slíkum markaði gera þetta svo skemmtilegt. „Sjáðu bara öll börnin sem eru hér. Foreldrar, ömmur og afar eru að koma hingað með börn og barnabörn. Þá skapast tækifæri til að skapa umræður við börnin um hvaðan maturinn kemur og hvernig hann er framleiddur. Það skiptir miklu máli. Það sést best á því að fimm mínútum eftir að við opnuðum var orðið full út úr dyrum. Auðvitað eru það svo neytendur sem velja það með sinni aðsókn hvort svona stafsemi þrífst hér eða ekki. Hér er þemað „Búrið býður í bæinn“. Margir þeirra sem hér eru með bása eru einmitt framleiðendur sem Eirný hefur verið að selja vörur fyrir í Búrinu. Hún hefur líka verið að ráðleggja framleiðendum með það hvaða vörur fólk sé að kalla eftir.“ Þegar búið að ákveða fleiri markaðsdaga Þær stöllu eru ákveðnar í að halda þessu áfram og eru búnar að gera samning við Hörpu þar um. Markaðurinn nú í byrjun mars er bara sá fyrsti af þremur sem haldinn verður á sama stað á þessu ári. Næsti markaður verður 30. og 31. ágúst og síðan verður haustmarkaður 15. og 16. nóvember. Þar fyrir utan útiloka þær ekki að vera með margvíslegar aðrar uppákomur tengdar matvörum hvenær sem tækifæri gefst. Varpa þær m.a. fram hugmynd um sérstakan hunangsmarkað, nú eða eggjamarkað sem gaman væri að setja upp. /HKr. Líf og mikið fjör á Matarmarkaði ljúfmetisverslunarinnar Búrsins – Skapaði skemmtilega tengingu milli neytenda í borginni og þeirra sem framleiða vörurnar í sveitum og bæjum víða um land Eirný Ósk Sigurðardóttir, eigandi Búrsins og Hlédís Sveinsdóttir segja nauðsynlegt að vera með matarmarkað í borginni þar sem fólki gefst kostur á að hitta og tala beint við bændur og aðra sem framleiða vörurnar sem það neytir. Myndir / HKr.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.