Bændablaðið - 06.03.2014, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 06.03.2014, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. mars 2014 Íslenskir loðdýrabændur á uppboði hjá Kobenhagen Fur bjuggust við töluverðum verðlækkunum:: Meiri áhugi fyrir skinnum en búist var við – Íslendingarnir eru hvergi bangnir og ætla sér að skáka Dönum og verða bestir í heimi innan tveggja til þriggja ára Á uppboðið hjá Kopenhagen Fur í síðasta mánuði mættu um 500 kaupendur. Um helmingur þeirra var frá Kína, Hong Kong og Kóreu en hinn helmingurinn dreifðist á mörg önnur lönd. Þegar upp var staðið voru stærstu kaupendurnir frá Kína og Hong Kong. Til að salan yrði að veruleika varð hins vegar að lækka skinnin umtalsvert en þó minna en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir áður en uppboðið hófst. Má því segja að á uppboðinu hafi unnist varnarsigur þar sem allt seldist. Skinnin lækkuðu um 30% að meðaltali nú og er það til viðbótar við 25% lækkun sem varð í desember. Frá Íslandi voru seld á þessu uppboði 37.176 skinn á meðalverðinu 347 danskar krónur en meðalverð uppboðsins var 340 dkr. Í íslenskum krónum er söluverðmæti skinnanna um 7.200 krónur, sem er ásættanlegt verð í þessari stöðu. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta voru allt fyrsta flokks skin. Undirflokkar og lakari skinn verða fyrst seld á seinni uppboðum sölutímabilsins, en markaðsverð þeirra er alltaf lægra en verð bestu skinnanna. Góður árangur við ræktunina skilar sér Árni V. Kristjánsson, framkvæmda- stjóri Sambands íslenskra loðdýrabænda, segir að nú séu 30 loðdýrabændur á Íslandi. „Það bættist við hópinn hjá okkur í fyrra en ég sé svo sem ekki fleiri koma inn í greinina í bili. Það er þó áhugi fyrir hendi. Rétti tíminn til að byrja í minkarækt væri auðvitað núna þar sem tilkostnaður er minni á meðan markaðurinn er í lægð. Það liggur í því að lífdýrastofninn er ódýrari.“ Árni segir að þegar markaðurinn fari niður í verði eins og nú komi vel í ljós hvers virði árangurinn sé sem náðst hafi í loðdýraræktuninni á Íslandi. Þó að verðlækkunin sé mikil séu íslensku bændurnir að fá umtalsvert hærra verð en flestir á uppboðinu. „Það er yndislegt að sjá hversu skýrt þetta kemur í ljós núna þó að menn hafi svo sem vitað að þeir voru að gera rétta hluti. Samt erum við að nota eldri högna en Danirnir og erum því alltaf ári á eftir í ræktunarstarfinu. Ræktunarstarfið hjá okkur á auðvitað að miðast við að hífa þá upp sem eru með lakari gæði en þeir bestu. Þá hækkum við botninn hjá okkur og auðveldara verður að komast yfir meðaltalið hjá Dönum. Eins og Torben Nilsen benti á þá eru það líka hagsmunir Kopenhagen Fur að stuðla að auknum gæðum í greininni og þar á meðal aðbúnaði dýra. Þá fá þeir hærri sölulaun.“ Árni segir einstakt að sjá hversu faglega menn vinni í þessari grein og nefnir fóðurframleiðsluna sem dæmi. Þar er Skinnfiskur ehf. í Sandgerði að selja mikið af frystu fiskmeti til danskra loðdýrabænda. Til að minnka kostnaðinn við flutning á fóðrinu datt mönnum í hug það snjallræði að búa til vél sem steypir bretti undir fóðrið í stað þess að nota trébretti. Brettin eru steypt úr fiskmeti og fryst og þannig næst 100% nýting á flutningsrýminu. Brettin eru svo hökkuð með fiskinum þegar honum er blandað í minkafóðrið í Danmörku. Björn Halldórsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL), sýnir Karvel L. Karvelssyni, framkvæmdastjóra Rannsóknarmiðstöðvar landbúnaðarins - RML (lengst til vinstri), Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur, fagstjóra búfjárræktarsviðs RML, og Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtakanna, mismunandi Myndir - HKr. Jesper Lyhne Bækaard minkabóndi í Héraðsdal II Skagafirði er Dani í húð og hár en situr nú í stjórn Sambands íslenskra loðdýrabænda ásamt Skarphéðni Péturssyni og Birni. Halldórssyni. Hann er tiltölulega nýr í þessari grein á Íslandi, en hann keypti jörðina Héraðsdal II ásamt unnustu sinni Höllu Ólafsdóttur. Fengu þau fyrstu minkana á búið vorið 2010. Nú eru þau með tæplega 3.000 læður og framleiða um 12 til 13 þúsund skinn á ári. Hann segist hafa verið að koma á uppboð hjá Kopenhagen Fur í annað sinn, en fyrst kom hann þar árið 2012. Hann hafði þó líka verið þar á flokkunarnámskeiði. „Ég er þokkalega sáttur við niðurstöður uppboðsins nú. Ég hélt að verið yrði jafnvel enn lægra. Það sem er mjög ánægjulegt við þróunina nú er að það er betur borgað fyrir skinn með stuttum hárum og í háum gæðum, en það er nákvæmlega það sem íslenskir loðdýrabændur eru að framleiða. Það er hins vegar lítið greitt fyrir lélegri skinnin sem helst koma frá Suður-Evrópu og Kína.“ Bíður átekta með stækkun – Er þá ekki líklegt að einhverjir bændur sem nú eru að fá lægstu verðin heltist úr lestinni og hætti framleiðslu? „Jú, ég myndi giska á það. Fóðurverðið er meira og minna svipað fyrir þessa framleiðslu hvar sem er í heiminum. Það hlýtur því að vera erfiður rekstur hjá þeim sem eru á fá mun lægri verð en við. Annars var skinnaverð mjög hátt í fyrra og árin þar á undan og því hafa eflaust margir komið inn í greinina vegna væntinga um skjótfenginn gróða. Trúlega detta þeir nú út aftur og eftir standa alvöru bændur sem ekki horfa eingöngu á þetta út frá peningasjónarmiðum. Ef heimsframleiðslan minnkar á næsta ári er það bara gott mál fyrir okkur því verðið ræðst af eftirspurn og framleiðslu.“ Jesper segist hafa verið að spá í að stækka búið í Skagafirði, en það sé nú í biðstöðu á meðan markaðurinn jafni sig. „Ég var búinn að skipuleggja stækkun upp í um 3.600 læður en nú ætla ég að bíða aðeins og sjá til.“ Verðum bestir í heimi innan tveggja til þriggja ára Jesper segir að íslenskir bændur hafi komist langt við þróun á framleiðslunni undanfarin ár. Þeir hafi greinilega gert rétt í því að fylgja eftir því sem best gerist í Danmörku. Nú séu íslenskir minkabændur þeir næstbestu í heimi. – Hafið þið möguleika á að fara fram úr því meðaltali sem danskir bændur eru að fá fyrir sín skinn? „Já, alveg örugglega. Við náum samt aldrei þeim allra bestu í Danmörku, en ég held að við komumst yfir meðaltalið í Danmörku innan tveggja til þriggja ára. Það byggir á því að við stöndum vel saman og vöndum okkur. Þá verður gaman að verða bestir í heimi.“ Gott umhverfi á Íslandi Jesper segir ástæðuna fyrir því að hann fluttist til Íslands vera að kærastan sé íslensk og hana hafi langað að vera í nánari tengslum við fjölskyldu sína. „Svo fannst mér þetta bara svo spennandi, þar sem Ísland býður upp á gott umhverfi til að reka loðdýrabú. Síðan er þetta búið að vera mjög gaman. Ég er alin upp á loðdýrabúi þar sem mamma og pabbi voru með loðdýrabú á árunum frá 1984 til 1998. Frá 1998 var ég í sagnfræði og bjó ég í borg í Danmörku. Því hafði ég varla séð mink frá þeim tíma þar til ég fluttist til Íslands. Fjölskylda mín þekkir loðdýraræktina mjög vel og bróðir minn er loðdýraráðnautur í Danmörku og mágur minn selur tæki og búnað til loðdýrabænda. Ég hef ekki verið við annan búskap en loðdýrarækt. Mér finnst þetta mjög skemmtileg grein, fjölbreytt og spennandi. Þar er líka alltaf hægt að gera betur og maður verður aldrei fullmenntaður í loðdýrarækt. Það er líka gaman að vera bóndi og vera um leið stöðugt að fylgjast með því hvað sé í tísku. Það skiptir því miklu máli hvernig hlutirnir þróast í tískuhúsunum í New York, Mílanó og í París.“ Jesper segir að lykilatriðið í loðdýraræktinni á Íslandi sé sú góða og mikla samvinna sem er milli bændanna. Sama sé uppi á teningnum í Danmörku og íslenskir loðdýrabændur njóti líka góðrar samvinnu við danska minkabændur. Þaðan fá þeir m.a. lífdýr til að fá nýtt blóð í stofninn á Íslandi. „Við hjálpum hver öðrum mjög mikið og það skiptir okkur máli ef nágrannanum gengur vel. Mig langar líka að sjá íslenska bændur verða þá bestu í heimi.“ /HKr. Flutti frá Danmörku og gerðist loðdýrabóndi í Skagafirði Árni V. Kristjánsson.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.