Skírnir - 01.01.1973, Page 9
SKÍRNIR
FORNESKJUTAUT
7
um fjarska. Slík saga er ekki hugsuð né mið'uð við rishæð einsog
drömun í Laxdælu og Njálu, heldur sinnir öðrum grundvallarreglum.
Eyrbyggja hefur umfram alt þá sterku innri rökvísi góðs skáldverks
til að bera sem gerir það að lokuðum heimi, sjálfum sér samkvæm-
um, þar sem alt stendur heima eins lángt og það nær; semsé stendur
eða fellur hvað með öðru. Að þessu leyti einu má segja að Lax-
dæla og Eyrbyggja séu líkar bækur. Hin harða rökfærsla hefur
laungum valdið því að margir freistast til að trúa Eyrbyggju og
fleiri bókum af hennar tagi spjaldanna á milli.
Oft er vitnað til Eyrbyggja sögu þegar talið berst að trúarhug-
myndum á landi hér til forna, áðuren fólk lærði að þekkja stafina,
þeas áðuren lærð mentun sunnanúr Evrópu barst híngað með kirkj-
unni. Dæmi af fornum átrúnaði og „undur“ í sambandi við hann
eru nú á tímum talin til trúarbragðasögu, en alt þesskonar nefnir
Eyrhyggja sjálf forneskju eða trollskap, þó án þess að hafa uppi
um það dóma. Nánar til tekið mætti svo segja að Eyrbyggja flytti
okkur hugmyndir sem menn á 13du öld, líklega ofanverðri, gerðu
sér eftir munnmælum og þjóðsögum um átrúnað feðra sinna 3-400
ár aftur í tímann. I þessu er falið munnmælagildi sögunnar. Eyr-
byggja saga hefst um leið og mannabygð í Breiðafirði, að áliðnum
síðara helmíngi 9ndu aldar, og heldur áfram að segja frá tíðind-
um úr héraðinu í 4-5 kynslóðir milli upphafs bygðar og kristnitöku,
en kríngum árþúsundaskiftin fer höfundur að fella af voðina þó
sagan fylgi reyndar Snorra goða á leiðarenda (1031).
Vert er að gefa því gaum að öll undur hætta í Eyrbyggju árið
1000, „en þá var lítt afnumin forneskjan, þó að menn væri skírðir
og kristnir að kalla“. Höfundur hefur líka bersýnilega átt í basli að
koma undir sama ár, AD 1000, öllu í senn: kristnitöku á Islandi,
upprisu Þórgunnu að Nesi enu neðra í Stafholtstúngum og fróðár-
undrum. Má aungu muna að honum takist þetta. En höfundinum er
ljóst að undur og afturgaungur takast af með sigri kaþólskunnar,
eða einsog hann kemst að orði, „þá tók af flestum trollskap er
skírðir voru“.
Kaþólsk kirkja setur strángt bann við trú á drauga og forynjur,
enda gekk einginn aftur á íslandi eftir að kristni komst á, því mið-
ur, mundi margur segja; og hófust ekki afturgaungur á nýaleik hér
á landi fyren í lútersku. Hinsvegar var eftir kaþólskri venju heimilt