Skírnir - 01.01.1973, Page 10
8
HALLDÓR LAXNESS
SKÍRNIR
að trúa á púka og djöfla eftir vild, einkum ef menn gátu sannað að
þeir hefðu komist í kast við þá. Bann við draugum er gagngert í
kaþólsku af guðfræðilegum ástæðum, enda er svo vart og skart, þó
maður þaullesi Sturlúngu spjalda á milli, þá geingur aldrei neinn
aftur; einusinni komust þeir í Sturlúngu svo lángt að þeir sáu „álfa
og aðra kynjamenn ríða saman í flokki“. Jafnvel í Jarteinabók
Þorláks helga, er fjallar þó um fólk sem manni finst væri skyldugt
að trúa á drauga, verður einginn „var við“ neitt í fornum skilníngi,
— í hæsta lagi Blasium biskup í samfylgd hins sæla Þorláks á krafta-
verkaferð, þó reyndar aðeins í draumi. Trúin á spásagnargildi
drauma var hið eina sem íslendíngar feingu að halda úr forneskju
eftir að kristni komst á; slík hégilja er ekki talin ókristileg nema að
hálfu leyti, enda notuð í trúarlegum tilgángi í helgiritum. Að því ég
best veit höldum við þessari trú enn nokkurnveginn óbreyttri úr
forneskju hvað sem Freud segir og þeir karlar.
Þegar höfundur Eyrbyggju semur bók sína um forna breiðfirð-
ínga er búið að greypa kaþólska trú í sálarlíf íslendínga, indoktrínera
þá viðstöðulaust í 8 mannsaldra, þeas ef menn telja bókina ritaða
kríngum 1270 (venja að telja 3 kynslóðir í öld). Höfundur er sam-
tímamaður þeirra breiðfirðínga sem geingnir eru fram hub tólf ætt-
liði frá því er frumhetja sögunnar Þórólfur mostrarskegg var á
dögum — eða einhver annar, sjálfsagt alt öðruvísi maður, ættaður
úr eynni Mostur, og kann að hafa lifað af sem einbert nafn í breið-
firskum munnmælum allar götur framanúr frumbyggjatíð. Laxdæla
nefnir nafn hans fyrir siðasakir aðeins einu sinni, þó sögurnar gerist
á sama tíma í litlu héraði; sá sem semur hina seinni er of háttvís
til að hreyfa við efniviði hinnar fyrri, nema í aukaatriðum einsog
Þorgilsi Höllusyni; drama Laxdælu er „óþekt“ í Eyrbyggju. Hafið
milli bókar og yrkisefnis í Eyrbyggju reiknað frá upphafi Þórólfs
mostrarskeggs, ca 850, svarar til þess að maður núna ætti að byrja
frásögn af atburðum úr sveit sinni, ásamt lýsíngu á trú og mannlífi
einsog þetta var á 16du öld, kríngum fall Jóns Arasonar, en hafa
aungvan skrifaðan staf að styðjast við um nokkurt efni til þess verks.
Hætt er og við að skamt hrykkju ættartölur eins eða tveggja höfð-
íngja, þó til væru, að hálfu uppdiktaðar, hálfu teingdar við goð-
sagnir, einsog ættartala Ara Þorgilssonar í Íslendíngabók; amk í
meira lagi slitróttar. Samkvæmt ættartölureikníngi hlýtur hver sá