Skírnir - 01.01.1973, Page 40
38
STEINN STEINARR
SKÍRNIR
um, er snerta ekki þau kvæði, sem hér eru birt. Bæði rithöndin og gerð papp-
írs í vélritum og handritum benda þó til þess, að þau séu langflest frá svipuð-
um tíma og kvæðin í Tímanum og vatninu, en þau birtust fyrst með einni und-
antekningu á árunum 1944-48. Ef líka er litið á yrkisefni og kveðskaparhátt
kvæðanna, virðist ekki ólíklegt að gera ráð fyrir áratugnum 1938^18 sem sköp-
unartíma þeirra. Að sjálfsögðu er trúlegt, að gamlir vinir Steins muni geta
tímasett einhver þessara kvæða af meiri nákvæmni, en slík könnun á aldri
þeirra bíður betri tíma.
Við val þeirra þrettán kvæða, sem hér eru birt, hefur það sjónarmið eitt
ráðið, að þau mættu vera gott sýnishorn af áður óprentuðum ljóðum Steins.
Undirritaður er engan veginn sannfærður um, að hér á meðal séu beztu eða
merkilegustu kvæðin í safninu.
Varla verður því heldur haldið fram, að þessi kvæði sýni okkur öldungis
nýjar eða óþekktar hliðar á skáldskap Steins, en hann er lifandi kominn í
þessum kvæðum, eins og við þekkjum hann af öðrum verkum. Við finnum
hér svipuð minni og fyrr, sömu bragarhætti, líka lífsafstöðu.
Steinn Steinarr er þvílík stærð í íslenzkri ljóðlist á þessari öld, að allt, sem
eftir hann liggur, er merkilegt, ef ekki sem skáldskapur, þá sem heimild um
mikið skáld. Með því er ekki sagt, að prenta skuli og gefa út sér öll óprentuð
Ijóð hans, en sú tíð hlýtur að koma, að í fræðilegri heildarútgáfu af verkum
hans verði hverjum stafkrók til haga haldið.
Kvæðin eru prentuð hér með leyfi ekkju skáldsins, Asthildar Björnsdóttur,
og kunna ritstjóri og útgefandi henni miklar þakkir fyrir þá velvild.
Hér á eftir verður nú gerð grein fyrir varðveizlu og textamun einstakra
kvæða, en þau eru jafnan prentuð stafrétt eftir þeim heimildum, sem tilgreind-
ar eru.
Ég kom hér eitt sinn áður-. Varðveitt í einu handriti, skrifuðu með penna,
í Fjólubláu bókinni.
Lífið, Ijóðið og ég: Varðveitt í einu handriti, skrifuðu með penna, á lausu
blaði.
Líj hins liðna Varðveitt í þremur handritum á lausum blöðum. Eitt
þeirra er skrifað með penna, tvö með blýanti. Kvæðið er prentað eftir penna-
handritinu, sem hér er nefnt C. Bæði blýantshandritin eru á einu blaði í
arkarstærð, og hefur skáldið slegið krossi yfir þá gerð, sem er ofar á síðunni.
Hún er hér nefnd A, en hin óyfirstrikaða B. Textamunur er þessi:
I A og B er kvæðið án heitis.
I A er 1. ljóðlínan:
„Ó, þögla rúst og vatn, sem stanzlaust streymir",
en í B:
„Ó, þögla rúst, ó, fljót, sem stanzlaust streymir“.
í A er 3. Ijóðlínan:
„Rís upp úr sjálfs þín fyrnd, þú, fallni maður“.
Hefur „sjálfs þín“ verið skrifað ofan línu og þar strikað yfir „þinni“. B
varðveitir sömu gerð þessarar ljóðlínu og C.