Skírnir - 01.01.1973, Page 54
52
HANNES PETURSSON
SKÍRNIR
í Opinberun Jóhannesar er borgin Babýlon tákn Rómaborgar,
það er hennar fall sem þar er spáð. Sú borg sem er fallin í ljóði
Jóhanns Sigurjónssonar er borg fegurðar og unaðssemda, en ekki
spillingar, borg lífsins í fullsælu þess. Minnin úr Opinberunarbók-
inni eru hagnýtt án nokkurrar trúarlegrar samsvörunar við biblíu-
versin.
VI
Jóhann Sigurjónsson hefur hvergi í Ijóðagerð sinni formað and-
stæðurnar líf-dauði jafn vel og í Bikarnum, þremur ferkvæðum
vísum sem veita ekki mikið svigrúm. I því ljóði situr hann yfir
drykkju, og vínið í glasinu, bikarnum, kveikir í sál hans gleði og
sorg, hið liðna líf. En að baki honum stendur annar og heldur á
öðrum bikar og stærri, næturhimninum, og af honum stígur ekki
angan gamalla blóma, hann er fylltur myrkri, því myrkri sem síðar
mun koma að vörum skáldsins. Þannig fær bikarinn á borði hans
kosmíska stærð, líkingu af sjálfu næturhvolfinu, bikarnum í hendi
dauðans; gleði-sorg og líf-dauði, það er hnitað saman í eina
mynd.
Sorg er allt annars konar ljóð; hún hverfist ekki kringum eina
meitlaða skynjun, heldur rekur hver myndin aðra, á hröðu flugi,
sveigð að geðbrigðum skáldsins.
Sú kennisetning er orðin föst í sessi (í bókmenntafræðum verða
til klisjur ekki síður en í skáldskap) að Sorg marki upphaf nú-
tímaljóðagerðar hér á landi, og er þá hið frjálsa form ljóðsins
og raðkvæm niðurskipun mynda og líkinga haft að viðmiðun.
Óneitanlega var Sorg nýlunda að þessu leyti í ljóðagerð vorri, og
segir það sína sögu um menntalíf íslendinga, að verk sem er að
drjúgum hluta sniðið eftir orðlist Forn-Gyðinga skuli á þessari öld
þykja byltingarkennt hér, að einn elzti ljóðlistararfur vestrænna
bókmennta skuli koma fram á Islandi sem formbylting. Háfleygur
skáldskapur ritningarinnar, svo sem sálmarnir, Ljóðaljóðin, Jobs-
bók, spádómsrit Jesaja, Harmljóðin, Opinberun Jóhannesar, hafði
um aldir verið til í íslenzkri þýðingu og sumt þar hljómað á heim-
ilum og í kirkjum yfir háum sem lágum, þessum skáldskap hafði