Skírnir - 01.01.1973, Side 78
76
ANDRÉS BJÖRNSSON
SKÍRNIR
Fleira hafði Grímur Thomsen afrekað í ferð sinni, sem konungur
drepur á óbeinlínis í bréfi sínu. Hann kveðst hafa veitt frönskum
greifa, Bouille, riddarakross, en Grímur hafði fengið greifann til
að standa að útgáfu varnarrits frá danskri hálfu um hertogadæmin,
en Dönum var óhægt að auglýsa málstað sinn svo að eftir væri tekið
erlendis.
Það var ekki vafamál, að Grími hefur þótt sinn hagur vænkast
við þá vinsemd, sem konungur sjálfur sýndi honum, auk þess sem
pundin munu hafa komið sér vel, því að oft var Grími féskylft á
ferðum sínum. Mun allt þetta hafa aukið sjálfstraust meistarans
unga, þó að konungurinn, velgjörðamaður hans, væri að vísu látinn,
þegar hann kom til Kaupmannahafnar, en hann lézt 20. janúar.
Grími amtmanni á Möðruvöllum, nafna sínum og móðurbróður,
skrifar Grímur Thomsen frá Kaupmannahöfn vorið 1848 (14. maí):
Eg kom hingað frá London yfir París í byrjun febrúarmánaðar, og síðan
þykir mér veröldin hafa verið heldur en ekki stórsjóuð bæði hér og annars
staðar. Þér eruð nú eflaust búinn að heyra mest af því, sem við hefur borið,
nema þér vitið kannske ekki, að Preussar eru nú komnir upp til Árósa, og að
Svía, ef ekki Rússa, er von til að hjálpa Dönum. - Mér líður sjálfum dável
nema hvað hér er óróasamt og næðislaust á alla bóga, enginn hugsar um neitt
nema að spyrja frétta frá degi til dags og svo eftir því sem rómurinn vex
góður eða illur, eru menn daufir annan daginn og kátir hinn. Ég held þeir
sem á þessari öld lifa eldist illa, því þeir lifa svo mikið á stuttum tíma. ...
ég er að burðast við ritgerð um „Garantier" Englands og Frakklands fyrir
Slesvík 1720, sem nú á að koma þó post festum sé.
Grímur hefur verið á ferðinni í París rétt áður en hyltingin varð
þar 24. febrúar.
Eins og sjá má geisar ófriður í Danmörku. Uppreisn hefur orðið
í hertogadæmunum, Slesvík-Holsten, 23. marz, og Prússar og Þýzka
sambandið, sem hefur mjög vaxið fiskur um hrygg, grípa inn í og
ráðast inn í Jótland. Hertogadæmin eru forn eignarlönd Danakon-
unga, og þaðan eru ættir þeirra. Þeir halda fast í þessar eignir sín-
ar, þó að meinbugir komi mjög í ljós, sem eru þýzkt þjóðerni og
tunga mikils hluta íbúanna i þessum landamærahéruðum Dan-
merkur og Þýzkalands. Grímur Thomsen hafði kannað Slesvíkur-
málið gaumgæfilega í Englandi og grafið upp gamla ábyrgðar-
samninga Englands og Frakklands varðandi rétt Danakonunga í
Slesvík. Samningar þessir voru að vísu meira en hundrað ára gaml-