Skírnir - 01.01.1973, Blaðsíða 79
SKÍRNIR
ÁR ÚRÆVI GRÍMS THOMSENS
7?
ir, og gildi samninga vill nú rýrna á skemmri tíma, en hér sem
oftar var um að ræða pólitískt vandamál um valdajafnvægi álfunn-
ar, og einnig það efni tók Grímur Thomsen til meðferðar eins og
síðar verður drepið á.
Ný ríkisstjórn tók við í Danmörku í marz 1848, og hefur hún
síðan verið nefnd Marz-ráðuneytið (Marzministeriet) og skyldi hún
setja ný stjórnlög í Danmörku og í rauninni undirbúa þing-
bundna konungsstjórn í stað einveldis. Var í mörg horn að líta um
undirbúning lýðræðislegri stjórnarhátta og breytingar á stjórnar-
stofnunum frá gamla einveldisskipulaginu.
Það var eðlilegt, að stjórnarherrar í Danmörku kæmu fljótt auga
á Grím Thomsen, þegar hann sneri heim til Danmerkur vorið
1848. A. F. Krieger, prófessor í lögum, einn af forystumönnum
Þjóðfrelsisflokksins, hafði verið hjálpsamur Grími í utanför hans
og fylgzt með störfum hans í París og Lundúnum. Hann var jafnan
mikill áhrifamaður í flokki frjálslyndra. Utanríkisráðherra í Marz-
ráðuneytinu var Frederik Marcus Knuth greifi af Knuthenborg á
Lálandi, fóstursonur Moltkes forsætisráðherra. Hann sneri sér fljót-
lega til Gríms, sem sendi ráðherranum ýmis skjöl 16. apríl 1848 og
álitsgerð um Slesvíkurtryggingu stórveldanna. Er líklegt að nánari
kynni hafi bráðlega tekizt með þeim, og á miðju sumri 1848 er
ljóst, að Grímur er kominn inn á gafl hjá greifanum.
Stríðið um hertogadæmin var ekki aðeins háð á vígvöllum, held-
ur einnig innan fjögurra veggja, þar sem lærðir menn leiddu saman
hesta sína í ræðu og riti með röksemdafærslum á báða bóga. Pró-
fessorar og lærðir menn aðrir í Kiel og Kaupmannahöfn áttu í
hörðum ritdeilum. Krieger og Larsen lagaprófessorar við Kaup-
mannahafnarháskóla gáfu út rit til varnar dönskum málstað sam-
kvæmt dönskum heimildagögnum og fengu Grím Thomsen sem
þriðja mann með rannsóknir frá ríkisskjalasafni Breta.
Kaupmannahöfn var ekki á þessum árum stærri borg en svo, að
heimkoma Gríms Thomsens mun hafa vakið talsverða eftirtekt.
Hann hafði margt að segja frá stórborgunum París og Lundúnum,
en þar hafði hann fylgzt rækilega með því, sem efst var á baugi,
ekki aðeins í listum, heldur og ekki síður í stjórnmálum. Hann valdi
sér aðsetur á Hótel Phönix við Breiðgötu (eða Norgesgade) í
Kaupmannahöfn, en það var gististaður aðalsins og háttsettra